„Þeir sem halda því fram að fjölmiðlafrelsi tilheyri einungis útvöldum forréttindahópi fjölmiðlamanna, gera sig ekki aðeins uppvísa að sögulegri fáfræði, heldur einnig hættulegri stjórnsemi.“ Þetta sagði bandaríski lögfræðingurinn og verðlaunablaðamaðurinn Glenn Greenwald í tísti á twitter í fyrradag.
Greenwald skrifaði grein í Washington Post, þar sem hann segir málaferlin gegn Julian Assange bjóða alvarlegustu hættunni gegn fjölmiðlafrelsi, sem sést hefur í áratugi í Bandaríkjunum, heim. Það sé meðal annars vegna þess að stjórnvöld ætli sér að byrja að ákveða hverjir flokkist sem blaðamenn og njóti þar með verndar. Stjórnvöld þar í landi ásamt ýmsu fjölmiðla- og áhrifafólki hafa reynt að gera því skóna að Assange sé ekki blaðamaður og Wikileaks sé ekki fjölmiðill. Assange hefur þó hlotið fjölmörg verðlaun fyrir störf sín sem blaðamaður.
Sambærileg rök hafa komið fram hérlendis um það þegar Bára Halldórsdóttir, sem tók upp samræður þingmanna á Klausturbar og fékk birtar, sé ekki fréttamaður, sbr. athugasemdir af hálfu lögmanns kvartenda í úrskurði Persónuverndar. Stofnunin hafnaði þessum athugasemdum í úrskurði sínum, en af honum má þó lesa að máli skiptir hvort stjórnvöld telji aðila vera fréttamann eða ekki.
Greenwald bendir á að að tjáningarfrelsisákvæði bandarísku stjórnarskrárinnar (1st Amendment) hafi ekki verið ætlað til að vernda stétt fjölmiðlamanna sérstaklega, heldur til að vernda réttindi allra til að tjá sig. Tjáningarfrelsið sé ekki eign útvalins sérréttindahóps, heldur allra manna sem vilja nýta frelsi sitt. Tjáningarfrelsisákvæði bandarísku stjórnarskrárinnar hafi til að byrja með verið andsvar gagnvart breskum stjórnvöldum sem vildu takmarka birtingar á prentuðu efni með leyfisveitingum.

Í þessu samhengi má benda á að á Íslandi starfar ríkisfjölmiðill, sett hafa verið fjölmiðlalög og sérstök fjölmiðlanefnd, og nú liggur fyrir frumvarp stjórnvalda um breytingu á fjölmiðlalögum um stuðning við öflun og miðlun frétta, fréttatengds efnis o.fl.
Á vef fjölmiðlanefndar kemur eftirfarandi fram:
„Fjölmiðill er hvers konar miðill sem með reglubundnum hætti miðlar til almennings efni er lýtur ritstjórn. Til fjölmiðla teljast m.a. dagblöð og tímarit, ásamt fylgiritum þeirra, netmiðlar, hljóð- og myndmiðlar og aðrir sambærilegir miðlar. Fjölmiðlanefnd annast eftirlit með öllum leyfisskyldum og skráningarskyldum fjölmiðlum á Íslandi.“
Verður ekki annað séð en að einnig stjórnvöld á Íslandi teygi sig æ lengra í þá átt að reyna að ákveða og skilgreina hverjir teljist vera fjölmiðlar og hverjir ekki.
Höfundur er blaðamaður á Viljanum.