Guð er til — ef við viljum

Íslenskt vorveður. / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Eftir Ernu Ýri Öldudóttur:

Guð er til.

Þetta eru kannski stór orð, þar sem fólki ber skylda til að stunda gagnrýna hugsun og efast, og gerir það óspart í umræðum um tilvist Guðs. Það er ekkert nema gott um það að segja. Engin fullyrðing og engin skoðun er almennt metin fullgild nema það sé mögulegt að styðja hana með áþreifanlegum staðreyndum og/eða, haldbærum rökum. Það var niðurstaða m.a. forn-Grikkja, vísindabyltingarinnar frá síðmiðöldum og upplýsingarinnar í framhaldi af henni.

Eftir því sem fullyrðingarnar eru stærri, verður nauðsynlegra að prófa röksemdafærsluna og sannreyna hinar áþreifanlegu staðreyndir. Stórar fullyrðingar ættu að sæta stöðugri gagnrýni og endurskoðun. En tilgangurinn verður að vera ljós. Orðið gagnrýni þýðir að „rýna til gagns.“

Góða hluti má ekki brenna til grunna bara „af því að við gátum það.“ Það þarf að vera góð og vandlega ígrunduð ástæða, og tilgangurinn þarf að vera uppbyggilegur, með einhverri vissu um að betra taki við.

Því langar mig að reyna færa rök fyrir því hversvegna við ættum að vilja að Guð sé til.

Hegðun stuðlar að velgengni

Dýrin þróa með sér hegðun, sem einkennir tegundina og leiðir af sér viðgang og farsæld hennar í náttúrunni. Maðurinn er dýrategund og það er ekki einungis vegna sjáanlegra og áþreifanlegra eiginleika eins og útlits og erfðaefnis sem hægt er að skilgreina tegundina, heldur einnig vegna hegðunar hennar, í erfiðu samkeppnisumhverfi náttúruvalsins.

Menn eru með góða sjón, lipra fingur og tungumálið. Það eru fínir eiginleikar, en bornir saman við eiginleika annarra dýra, sem geta t.d. flogið, hlaupið hratt, synt langt og djúpt og eignast fjölda afkvæma á stuttum tíma eru þeir varla í meðallagi. Menn hafa þó talsverða yfirburði hvað varðar sköpun, hugsun, minni og skilning á umhverfinu og sjálfum sér. Öllum má þó vera ljóst að það eitt og sér, dugir engan veginn til að lifa vel og lengi og ná árangri. Til þess eru dæmin of mörg um ofvita og afburðamenn sem köstuðu lífi sínu á glæ með hegðun sinni, eða notuðu gáfur sínar til illra verka.

Líkamlegir eiginleikar mannsins, ásamt hegðun hans, er því lykillinn að tilvist, framgangi og velgengni einstaklinga og tegundarinnar í náttúrunni, alveg eins og hjá dýrunum, sem eiga sín eigin farsælu hegðunarmynstur.

Hegðun sem stuðlar að velgengni mannanna er að hluta til innbyggð í eðlið, en að hluta til val, þar sem við burðumst með sjálfstæða hugsun í ofvöxnu heilabúinu, sem virðist hvorttveggja til þess fallin að lyfta okkur upp eða steypa okkur í glötun. Eðlislæg hegðun mannsins, sem er félagsdýr, er að hjálpast að og gefast aldrei upp, jafnvel þó að á móti blási. Það er ástæðan fyrir því að okkur hefur tekist, þrátt fyrir hlægilega óburðugan skrokk miðað við sum önnur af mestu hörkutólum dýraríkisins, að koma okkur fyrir á ólíklegustu hjörum veraldarinnar.

Þá komum við að trúnni og fullyrðingunni um tilvist Guðs. Guð er ekki eitthvað óljóst, heldur aðferð. Hann er samansafn hugsana, tilfinninga og breytni mannanna, hegðun sem stuðlar að velgengni einstaklinganna og tegundarinnar til lengri tíma litið.

Guð er breytni okkar

Í Austurlenskum trúarbrögðum er talað um að Guð sé vegurinn og það er ekki fjarri lagi, því að Guð er breytni okkar. Trúin inniheldur marga þá hluti sem er sannað að hjálpi mannkyninu að lifa af á jörðinni, og gerði það áður en nútíma vísindi komu til. Uppsafnaða reynslu fyrri kynslóða, sem eru búnar að gera hluti sem ýmist hafa gengið vel eða farið úrskeiðis, er að finna í trúarbrögðum. Það er, að þegar einstaklingar ákveða að sýna kærleika, hjálpast að, vera hugrakkir og þakklátir, uppbyggilegir og iðjusamir, og missa aldrei vonina, þá leiði það til farsældar.

Guð er ein af aðferðum mannsandans til að eiga möguleika á sigri yfir erfiðleikum tilvistar sinnar á jörðinni.

Það að vera mennskur er að breyta, eftir bestu getu, eftir því eðli tegundarinnar sem leiðir til farsældar og tilheyra henni þar með.

Lágmarkskrafan er að gjöra ei mein. Ómennskan er að gera hið gagnstæða. Að afmennska fólk er ekki ósvipað því að gera það útlægt, eitt og bjargarlaust, jafnvel réttdræpt, sbr. dauðadóma og þann hluta mannkynssögunar sem við megum skammast okkar hvað mest fyrir.

Forsendan sem trúin gefur, um fyrirgefninguna og að guð sé í hverjum manni, hjálpar til við að koma í veg fyrir að svo skelfilegir dómar falli. Til lengri tíma litið er farsælla að sýna kærleika og hjálpast að, en að skapa aðstæður fyrir óréttlæti og hefndir.

Erna Ýr Öldudóttir blaðamaður.

Boðberar fagnaðarerindisins eru því óþreytandi í að boða fyrirgefninguna og að öllum sálum megi bjarga. Aldrei sé of seint að byrja að breyta rétt, jafnvel fyrir mestu ómennin.

Guðleysi aftur á móti, er aðgerðir sem leiða til stöðnunar og hnignunar, eða skemmdar- og voðaverka. Annarsvegar mætti því halda fram, að trúleysingjar og heiðingjar, sem í lífi sínu stuðla samviskusamlega að velgengni sjálfs síns og annarra með stórum sem smáum góðum verkum, séu langt frá því að vera guðlausir menn.

Hinsvegar má einnig halda því fram að trúaðir menn sem breyta endurtekið eða alvarlega í andstöðu við velferð sjálfs síns og annarra séu í raun, guðleysingjar. Meira að segja vísindin geta ekki verið án guðs, vegna þess að í nafni vísindanna hafa hin hræðilegustu voðaverk verið framin, þegar gleymst hefur að nota Guð, eða gildin sem Guð stendur fyrir, sem ramma um hina vísindalegu aðferð.

Einnig mætti segja að guð sé drifkraftur vísindanna. Það er, uppruni löngunar mannsins til að skilja sjálfan sig og umhverfið, einstaklingunum og tegundinni til hagsbóta.

Niðurstaða þessa pistils gæti því verið, með tilvísun í vitneskju vísindanna, sögunnar og trúarinnar um eiginleika mannsins, að Guð sé aðferð hans til að komast af í náttúrunni og til að draga úr tilhneigingu sinni til sjálfstortímingar.

Það sé svo undir okkur sjálfum komið, hverjum og einum, hvort og hvernig við ákveðum að nýta okkur þessa aðferð í lífinu.

Höfundur er blaðamaður á Viljanum.