Eftir Brynjar Þór Níelsson:
Enn eru Guðmundar- og Geirfinnsmál áberandi í fréttum. Hér má lesa að neðan pistil sem ég skrifaði á Pressuna þann 7. nóvember 2011 og vakti talsverða umræðu. Er oft til hans vitnað í umræðunni, en þar sem hann er af einhverjum ástæðum ekki aðgengilegur lengur á Netinu birtist hann því aftur hér, þeim til glöggvunar sem áhuga hafa á að kynna sér þessi mál nánar.
I. Inngangur
Umræðan um Guðmundar- og Geirfinnsmálin hefur verið áberandi undanfarið. Virðist það vera útbreidd skoðun að sakborningar í málinu hafi verið ranglega sakfelldir fyrir að hafa orðið Guðmundi og Geirfinni að bana og talað um dómsmorð í því sambandi. Því er einnig haldið fram að lögregla hafi kerfisbundið beitt sakborninga ofbeldi við rannsókn málsins og fengið þá saklausa til að játa á sig manndráp. Dómarar hafi framið illvirki með því að dæma sakborninga án þess að nokkur marktæk sönnunargögn lægju fyrir í málinu um sök þeirra.
Þegar dómur var upp kveðinn var sú skoðun hins vegar ekki almenn, eins og nú, að saklausir menn hefðu verið sakfelldir. Kveikjan að þessari viðhorfsbreytingu virðist vera sjónvarpsmynd sem Sigursteinn Másson og Kristján Guy Burgess gerðu og var sýnd í sjónvarpinu árið 1997. Myndin vakti mikla athygli, en hún er ekki heimildarmynd þótt hún fjalli um atvik í sambandi við þessi dómsmál.
Kvikmyndagerðarmennirnir kynntu þessa sjónvarpsmynd ekki sem heimildarmynd. Hins vegar hefur hún við endursýningu sjónvarpsins nú fyrir skömmu jafnan verið kynnt í dagskrárkynningum sem heimildarmynd.
Sjónvarpsmyndin var upphaflega sýnd meðan endurupptökubeiðni Sævars Marinós Ciesielski var til meðferðar í Hæstarétti. Kannski hefur það verið tilviljun frekar en myndinni hafi verið ætlað að styðja beiðni Sævars Marinós.
Umræðan um Guðmundar-og Geirfinnsmálin að undanförnu hefur verið afar villandi hverju sem um er að kenna. Þar sem ég þykist vita að fæstir þeirra, sem telja að lögregla og dómarar hafi framið illvirki á saklausum
mönnum, hafi lesið dómana er nauðsynlegt að rekja aðalatriðin við rannsókn málsins, sönnunargögn, sönnunarfærslu, sönnunarmat dómstóla og ákvörðun refsingar. Tilgangurinn er ekki að sannfæra almenning um
að sakborningarnir hafi valdið dauða Guðmundar og Geirfinns heldur til að vekja athygli á nokkrum staðreyndum sem nauðsynlegt er að hafa í huga.
Ég er þess ekki umkominn frekar en aðrir að meta trúverðugleika játninga
sakborninga eða afturköllunar á þeim og framburði vitna sem komu fyrir dóminn eða sönnunargildi þeirra. Engir eru betur til þess fallnir en dómararnir sem á hlustuðu.
II. Rannsókn lögreglu
Rannsókn ekki lokið þrátt fyrir játningar
Guðmundarmálið: Eins og áður sagði virðist það útbreidd skoðun að sakborningar hafi játað að hafa orðið Guðmundi Einarssyni að bana eftir langvarandi líkamlegt-og andlegt ofbeldi í einangrunarvist. Rétt er að rifja
upp í þessu sambandi að Sævar Marinó og Erla Bolladóttir voru úrskurðuð í gæsluvarðhald 12. og 13. desember 1975 vegna gruns um umfangsmikil fjársvik. Nokkrum dögum eftir það segir Erla lögreglu frá þeim atburði að Hamarsbraut 11, Hafnarfirði, aðfararnótt 27. janúar 1974, er hún sá Sævar Marinó, Kristján Viðar Viðarsson og þriðja mann, sem hún staðfesti síðar að væri Tryggvi Rúnar Leifsson, vera að bera lík í laki úr kjallaraíbúð hússins er þau Sævar Marinó bjuggu þá í.
Sævar Marinó og Tryggvi Rúnar lýstu aðild sinni að dauða Guðmundar stuttu síðar, Sævar Marinó 10 dögum eftir handtöku og Tryggvi Rúnar 15 dögum eftir handtöku. Báðir staðfestu síðan játningar sínar fyrir sakadómi í
kjölfarið. Sævar Marinó nefndi einnig í yfirheyrslu Albert Klahn Skaftason, einkum í sambandi við flutning líksins, og viðurkenndi Albert hlut sinn í fyrstu skýrslutöku. Kristján Viðar viðurkenndi nokkrum dögum eftir handtöku að hafa verið á Hamarsbraut 11, Hafnarfirði, þar sem átök hafi orðið en neitaði að hafa verið þátttakandi í þeim og benti á Sævar Marinó og Tryggva Rúnar. Kristján Viðar viðurkenndi ekki aðild sína að átökunum við Guðmund fyrr en í byrjun apríl 1976, eða rúmum 3 mánuðum eftir handtöku.
Framburð sinn staðfestu sakborningar fyrir dómi að viðstöddum verjendum sínum. Þeir drógu játningar sínar til baka löngu síðar, Sævar Marinó og Tryggvi Rúnar um mánaðarmótin mars- apríl 1977 en Kristján Viðar hélt sig við fyrri framburð í samprófun við hina 1. apríl 1977.
Kristján Viðar dró framburð sinn síðan til baka 27. september 1977. Erla dró framburð sinn aldrei til baka hvað varðar Guðmundarmálið fyrr en við endurupptökubeiðni málsins 1997. Albert Klahn hélt sig við framburð sinn við meðferð málsins en í skriflegri yfirlýsingu til Ragnars Aðalsteinssonar hrl., lögmann Sævars, í tengslum við endurupptökubeiðnina 1997, kvaðst hann ekki fullviss um að hann hafi komið á Hamarsbraut 11, í Hafnarfirði
aðfaranótt 27. janúar 1974.
Rannsókn var að sjálfsögðu ekki lokið við það eitt að sakborningar játuðu brotið. Aflað var gagna um hvort frásögn þeirra gæti staðist. Meðal annars komu fram vitni sem staðfestu að sakborningar hefðu verið á Hamarsbrautinni umrædda nótt og ekkert kom fram í rannsókninni að þeir hefðu verið annars staðar. Með hliðsjón af játningum Sævars Marinó, Tryggva Rúnars og Kristjáns Viðars, ekki síst vitnisburði Erlu, Alberts Klahn og Gunnars Jónssonar sem einnig var staddur á Hamarsbrautinni og framburði annarra vitna um að sést hefði til Kristjáns Viðar og Guðmundar saman þetta kvöld í Hafnarfirði, taldi lögregla málið nægjanlega upplýst
þótt lík Guðmundar hefði ekki fundist.
Sævar Marinó og Tryggvi Rúnar gáfu þær skýringar á breyttum framburði sínum að rannsóknarmenn og fangaverðir hefðu beitt þá harðræði í því skyni að knýja þá til játninga. Kristján Viðar bar hins vegar fyrir sig að rannsóknarmenn hafi haft óeðlileg áhrif á sakborninga í því skyni að samræma framburði þeirra. Þessar skýringar eru vel þekktar hjá sakborningum, sem draga játningar um sök til baka, bæði fyrir og eftir þetta mál.
Rækileg rannsókn á meintu harðræði fór fram bæði fyrir og eftir uppkvaðningu héraðsdóms í málinu. Niðurstaða þeirra rannsókna var sú að ekkert styddi ásakanir sakborninga þótt fyrir hafi legið að fangavörður hafi rekið Sævari kinnhest 5. maí 1976. Aðdragandi þess er óljós en bendir til þess að ástæðan hafi verið sú að Sævar hafi verið æstur og órór við yfirheyrslu þennan dag. Ástæðulaust er að rekja hegðun Sævars við yfirheyrslur hjá lögreglu en þetta einstaka tilvik gerðist löngu eftir að Sævar játaði aðild sína að dauða Guðmundar.
Samantekin ráð um rangar sakargiftir
Geirfinnsmálið: Geirfinnur Einarsson hvarf að kvöldi 19. nóvember 1974 og hefur ekkert spurst til hans síðan.
Við rannsókn á fjársvikamáli Sævars Marinós og Erlu kom upp grunur um að Sævar Marinó og Kristján Viðar gætu verið viðriðnir hvarf Geirfinns. Erla skýrði lögreglu 21. janúar 1976 frá ýmsum atvikum er vörðuðu afdrif Geirfinns. Það sama gerði Sævar Marinó daginn eftir. Erla bendlaði síðan Kristján Viðar við málið í skýrslutöku 1. janúar. Viðurkenndi hann í fyrstu skýrslu sinni að hafa verið í Keflavík ásamt Erlu og Sævari Marinó um það
leyti sem Geirfinnur hvarf. Þau þrjú gáfu síðan ýmsar skýrslur í málinu næstu vikur á eftir og báru sakir á þrjá nafngreinda menn. Voru þeir úrskurðaðir í gæsluvarðhald 26. janúar 1976 og sá fjórði 11. febrúar 1976.
Viðurkenndu Erla, Sævar Marinó og Kristján Viðar síðar að um rangar sakagiftir hafi verið að ræða og að það hefðu verið samantekin ráð þeirra að bendla mennina við hvarf Geirfinns ef til rannsóknar kæmi og þau yfirheyrð.
Vegna þessara röngu sakargifta sátu þessir saklausu menn í gæsluvarðhaldi. Einangrun þriggja mannanna var í 105 daga en 90 dagar hjá þeim fjórða.
Um sumarið 1976 hélt rannsókn málsins áfram og hinn 1. september greindi Erla frá þætti Sævars Marinós og Kristjáns Viðars í átökum við Geirfinn og bendlaði raunar fleiri menn við þau. Í skýrslu 28. október skýrði Sævar frá því að Guðjón Skarphéðinsson væri viðriðinn málið. Sama gerði Kristján Viðar um haustið og skýrði frá átökum þeirra þriggja við Geirfinn. Í yfirheyrslum 15. og 30. nóvember kvað Erla Guðjón vera viðriðinn málið og skýrði nánar frá átökum þeirra félaga við Geirfinn.
Guðjón var handtekinn 12. nóvember 1976 og úrskurðaður í gæsluvarðhald. Við húsleit hjá honum fundust minnisgreinar sem hann hafði ritað um ýmislegt sem birst hafði í blöðum um rannsókn á hvarfi Geirfinns. Í skýrslutökum síðar um haustið viðurkenndi Guðjón smám saman hlut sinn í ferðinni til Keflavíkur og þátttöku í átökum sem leiddu til dauða Geirfinns.
Athyglisvert er að við sviðssetningu rannsóknarlögreglu á atburðum í dráttarbrautinni í Keflavík gerði Guðjón tvær athugasemdir við útlit sendibifreiðar sem var á vettvangi og hann taldi öðruvísi en verið hefði 19. nóvember 1974. Reyndust báðar athugasemdirnar eiga við rök að styðjast.
Hinn 9. desember 1976 skýrði Sævar frá nafni Sigurðar Óttars Hreinssonar sem ekið hefði sendibíl til Keflavíkur að kvöldi 19. nóvember 1974 í tengslum við ferð hans með Erlu, Kristjáni Viðari og Guðjóni. Sigurður Óttar viðurkenndi strax þennan akstur og skýrði frá ýmsu um ferðina og því sem hann taldi sig hafa orðið áskynja um í Keflavík umrætt kvöld.
Erla Bolladóttir hafði skýrt frá ferð sinni „á puttanum“ frá Keflavík til Hafnarfjarðar daginn eftir átökin í dráttarbrautinni. Tvö vitni gáfu sig fram við rannsóknina eftir auglýsingu lögreglu og kváðust hafa ekið stúlku að
morgni 20 nóvember , annað frá Keflavík að Grindavíkurvegi og hitt þaðan til Hafnarfjarðar. Annað vitnið þekkti Erlu við sakbendingu sem stúlkuna sem það hafði ekið. Þá bar vitni um að hafa hitt Sævar Marinó og Erlu 19.
nóvember 1974 og Sævar Marinó hafi þá sagt þau vera á leið til Keflavíkur.
Á dómþingi sakadóms 6. júlí 1977 dró Kristján Viðar til baka fyrri játningar sínar í málinu og Sævar Marinó gerði það sama 13. september s.á. Eftir að málflutningur hófst í héraði kom Sigurður Óttar að eigin ósk fyrir dóm þann 1. október 1977 og lýsti framburð sinn að mestu rangan. Erla féll ekki frá fyrri framburði sínum fyrr en 11. janúar 1980, eða stuttu fyrir málflutning í Hæstarétti. Guðjón Skarphéðinsson hefur aldrei dregið svo vitað sé játningar sínar til baka.
III. Sönnunarfærsla og sönnunarmat
Guðmundarmálið: Sönnunarfærsla ákæruvaldsins í Guðmundarmálinu byggðist á játningum ákærðu Sævars Marinós, Tryggva Rúnars og Kristjáns Viðars, sem fram komu stuttu eftir handtöku þeirra og þeir staðfestu fyrir
dómi. Játningarnar fengu stuðning í framburði vitnanna Erlu og Alberts Klahn sem aldrei var dreginn til baka við meðferð málsins. Játningarnar fengu einnig stoð í framburði annarra vitna sem sáu Kristján Viðar með Guðmundi umrætt kvöld í Hafnarfirði og vitnis sem var staddur á Hamarsbraut 11, Hafnarfirði. Þar að auki hafði ekkert þeirra fjarvistarsönnun umrædda nótt. Sævar Marinó reyndi þó eftir að hann losnaði úr einangrun að fá vitni til að bera ranglega um ferðir hans umrædda nótt til að hafa fjarvistarsönnun. Á grundvelli þessara sönnunargagna sakfelldi héraðsdómur Sævar Marinó, Tryggva Rúnar og Kristján Viðar fyrir manndráp, sbr. 211. gr. almennra hegningarlaga. Í Hæstarétti nutu ákærðu vafans og var ekki talið sannað að ásetningur þeirra hafi staðið til að bana Guðmundi og voru þeir því sakfelldir fyrir hrottalega líkamsárás sem leiddi til dauða Guðmundar.
Afleiðingarnar voru því virtar þeim til gáleysis. Það er því mikill misskilningur hjá mörgum að þeir hafi verið sakfelldir fyrir að hafa myrt Guðmund.
Af þessu má sjá að dómarar töldu afturköllun á játningum ákærðu marklausar. Byggði það væntanlega á þeim grunni að þau játuðu sök fljótlega eftir handtöku og ekkert benti til þess að játningarnar hefðu verið fengnar fram með harðræði eða öðrum þvingunum. Þá höfðu þeir margsinnis staðfest fyrir dómi að þeir hefðu verið valdir að dauða Guðmundar að viðstöddum verjendum sínum. Þá studdu ýmis gögn framburði þeirra um aðild að málinu eins og nánar er lýst hér að framan.
Ekki ásetningur um að bana Geirfinni
Geirfinnsmálið: Öfugt við Guðmundarmálið játuðu sakborningar ekki í fyrstu aðild sína að hvarfi Geirfinns. Þeir sögðu þó í skýrslu strax í janúar 1976 frá ýmsum atvikum er vörðuðu afdrif Geirfinns og bendlaði Erla Kristján Viðar við málið. Sævar Marinó játaði síðan aðild sína að hvarfi Geirfinns í október 1976. Í desember 1976 sagði Erla frá átökum Geirfinns við Sævar Marinó, Kristján Viðar og Guðjón. Kristján Viðar viðurkenndi aðild sína í byrjun janúar 1977 og lýsti atvikum nákvæmlega. Áður höfðu þau þrjú bendlað saklausa menn við hvarfið á Geirfinni. Guðjón var handtekinn 12. nóvember 1976 og viðurkenndi í lok sama mánaðar að hafa verið með Sævari Marinó, Erlu og Kristjáni Viðari í ferð til Keflavíkur. Er leið á veturinn viðurkenndi Guðjón aðild sína smám saman.
Sönnunarfærslan og sönnunarmatið byggði því á játningum ákærðu Sævars Marinós, Kristjáns Viðars og Guðjóns um átökin við Geirfinn sem leiddu til dauða hans. Játningarnar voru studdar öðrum gögnum, s.s. framburði Erlu sem hún dró ekki til baka fyrr en stuttu fyrir málflutning í Hæstarétti.
Einnig framburði vitna um að ákærðu hefðu verið í Keflavík á umræddum tíma. Þá bar ákærðu saman um meginatriðið í játningum sínum, þ. e. að hafa lent í átökum við Geirfinn sem leiddi til dauða hans. Greinilegt að mikilvægt er í sönnunarfærslunni og sönnunarmatinu frásögn Erlu af „puttaferðinni“ frá Keflavik til Hafnarfjarðar sem staðfest er af tveimur utankomandi vitnum enda fellst það í niðurstöðu beggja dómstiga að full sönnun hafi legið fyrir um að Erla hafi verið að fara frá Keflavík að morgni 20. janúar 1974.
Eins og í Guðmundarmálinu töldu dómarar afturköllun Sævars Marinós og Kristjáns Viðars á játningum sínum marklausar. Fljótlega eftir handtöku höfðu Erla og Sævar Marinó sagt frá ýmsu um ferðina til Keflavíkur, sem fær stuðning í framburði vitna, og afdrifum Geirfinns. Það voru því augljós tengsl þeirra við Keflavík og Geirfinn að kvöldi 19. nóvember 1974.
En eins og i Guðmundarmálinu var í Hæstarétti ekki talinn sannaður ásetningur ákærðu til að bana Geirfinni og voru þeir sakfelldir fyrir hrottalega líkamsárás sem leiddi til dauða. Um þá niðurstöðu Hæstaréttar má sjálfsagt deila í báðum málunum enda taldi ákæruvaldið og héraðsdómur að þótt beinn ásetningur um að bana Guðmundi og Geirfinni hafi ekki verið sannaður hafi árásin á mennina verið með þeim hætti að ákærðu hafi mátt vita að hún gæti leitt til dauða.
IV. Ákvörðun refsingar
Það kann að vera að mörgum hafi fundist dómurinn yfir þessum ungmennum þungur þar sem ásetningur um manndráp í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum var ekki talinn sannaður. Það hefur hins vegar oft gleymst í umræðunni að ungmennin voru dæmd fyrir margt annað, m.a. einn fyrir mjög grófa nauðgun og brennu þar sem hámarksrefsing er 16 ára fangelsi, þrjú þeirra fyrir rangar sakargiftir þar sem hámarksrefsing er 10 ára fangelsi og hluti þeirra fyrir skjalafals og fjársvik þar sem hámarksrefsing er 8 og 6 ára fangelsi auk ýmissa fíkniefnabrota.
Umræðan hefur einhvern veginn þróast þannig að hér hafi einungis verið um smáglæpi að ræða, en það er vitaskuld alrangt.
V. Lokaorð
Hér að framan hef ég rakið gang Guðmundar– og Geirfinnsmála í aðalatriðum, hvernig rannsókn þeirra gekk fyrir sig, hvaða sönnunargögn lágu fyrir og hvernig sönnunarfærslan og sönnunarmatið var í málinu. Að mörgu má sjálfsagt finna í rannsókn málanna. Hún er barn síns tíma en þó verður ekki annað séð en að farið hafi verið eftir þágildandi reglum um meðferð sakamála í hvívetna.
Það má einnig að sjálfsögðu deila um hvort sönnun um sekt sakborninga hafi verið yfir skynsamlegan vafa hafin eins og í sakamálum almennt. Því er hins vegar ekki að neita að játningar margra manna eru yfirleitt talin sterk vísbending um sök, sérstaklega þegar þær eru eins í aðalatriðum og í samræmi við önnur gögn málsins svo langt sem þau ná. Enginn var hins vegar betur til þess fallinn að meta trúverðugleika játninga og afturköllun þeirra en dómarar í héraði sem hlustuðu bæði á sakborninga og vitni.
Við höfum enga ástæðu til að ætla að rannsakendur hafi viljað koma sök á saklaust fólk í máli þessu og sætir furðu að það skuli hvarfla að nokkrum manni. Það má hins vegar gagnrýna rannsóknir sakamála, sönnunarkröfur
og sönnunarmat dómstóla. Það gera verjendur, lögfræðingar, fræðimenn og aðrir reglulega enda eru dómarar ekki fullkomnir frekar en aðrir. Hins vegar er allt tal um dómsmorð, illvirki dómara, þvinganir og harðræði lögreglu í því skyni að fá fram játningar í Guðmundar-og Geirfinnsmálinu ekkert annað en aðdróttanir sem ekki verður séð að fái stuðning í gögnum málsins.
Það er því óskiljanlegt hvernig vegið hefur verið að þeim mönnum sem stýrðu rannsókn málanna og dæmdu þau í héraði og Hæstarétti.
Ég skora á almenning og fjölmiðlamenn að lesa dóminn enda þótt það sé ekkert áhlaupsverk þar sem hann er um 600 blaðsíður. Vonandi getur þessi samantekt mín auðveldað mönnum lesturinn.
Höfundur er þingmaður og fv. formaður Lögmannafélagsins.