Hin heilögu kristnu jól og heiðnar rætur þeirra

Eftir Sr. Gunnar Jóhannesson:

Óneitanlega fer meira fyrir kirkjunni á þessum tíma ársins en oft áður.

Kirkjustarf er mikið og fjölbreytt á aðventunni og í aðdraganda jólanna og mjög margir leggja leið sína í kirkjur landsins og njóta þess sem í boði er.

Sumir láta þó þessa fyrirferð í kristinni trú og kirkju trufla sig af einni eða annarri ástæðu. Í því samhengi heyrir maður stundum minnst á það að jól séu hátíð sem eigi sér að öllu eða miklu leyti heiðnar rætur og hafi því lítið með kristna trú að gera og því eigi kirkjan ekkert tilkall til þeirra.

Jólin hafa mismunandi inntak

Hvort það eigi beinlínis að rýra gildi kristinna jóla – að ekki sé talað um sannleiksgildi kristinnar trúar – þykir mér þó vandskilið.

Eðlilega umgengst fólk jólin með ólíkum hætti í dag og misjafnt er hverskonar inntak þau fá, t.d. hversu stóran sess kristin trú fær í jólahaldinu þegar allt kemur til alls.

Þótt hið kristna inntak jólanna (meyfæðingin og koma Guðs inn í heiminn) eigi sér ekki heiðinn bakgrunn eða fyrirmynd er rétt að hátíðarhöld á þessum tíma árs eiga sér sögu sem nær aftur fyrir tíma kristinnar trúar og kirkju. Í því samhengi má benda á vetrarsólstöðuhátíð og náttúrutrú norður-evrópubúa og sólarhátíð rómverja til heiðurs sólarguðinum og/eða guðsins satúrnus.

Það er einnig rétt að eitt og annað sem fyrrum tengdist vetrarsólstöðuhátíð norður-evrópubúa lifir áfram í hefðum sem tengjast jólunum eins og við þekkjum þau í dag.

En það eitt og sér rýrir ekki gildi kristinna jóla.

Var Jesús þá aldrei til?

Þýðir það ef til vill að Jesús fæddist ekki í Betlehem? Var hann aldrei til eftir allt saman?

Rýrir þetta með einhverjum hætti gildi kristinnar trúar, eða áreiðanleika frásagna guðspjallanna um fæðingu, líf, dauða og upprisu Jesú frá Nasaret?

Nei! Annað hefur ekkert með hitt að gera.

Og jafnvel þótt kristin samfélög hefðu aldrei komið á fót hátíð (burtséð frá því hvað hún kallast) þar sem fæðingar Jesú var minnst með sérstökum hætti hefði það í engu breytt gildi kristinnar trúar almennt.

Innihaldið skiptir mestu máli

Aðalatriðið er ekki hvenær kristið fólk ákvað að rétt væri að minnast fæðingar Jesú eða í hvaða samhengi, og hvort sá hátíðardagur sem fyrir valinu varð var hinn rétti fæðingardagur Jesú (sem hann er nær örugglega ekki), eða hvort umgjörð hátíðarinnar sem slíkrar hafi í sögulegu ljósi áður tengst heiðinni trúarhátíð!

Sr. Gunnar Jóhannesson, prestur í Hveragerði.

Það sem máli skiptir er innihald hátíðarinnar sem slíkrar. Orð á borð við jól hefur vissulega skírskotanir til ólíkra menningarheima á ólíkum tíma. En það er ekki nóg að horfa í orðið eitt. Hafa verður í huga inntak orðsins í ólíku samhengi.

Þegar kristin trú og kirkja tók að breiðast út og festa sig í sessi í Rómarríki voru þar að sjálfsögðu fyrir ýmsar aðrar trúarhefðir og trúarhættir sem voru framandi kristinni trú. Úr því varð visst sögulegt og menningarlegt samspil þar sem kristin trú lagaði sig að framandi hefðum og þeim aðstæðum sem fyrir voru. Á sama tíma og aðrir fögnuðu af öðrum ástæðum tók kristið fólk að minnast holdtekju sonar Guðs og komu hans í heiminn.

Og það er ekki að undra að kristið fólk vildi fagna og minnast fæðingar frelsarans á þeim tíma ársins sem raun ber vitni. Í hugum kristins fólks er Jesús „ljósið sem skín í myrkrinu“, eins og segir í Jóhannesarguðspjalli. „Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn.“ (Jóh 1.9)

Fjarar undan átrúnaði og trúarhefðum

Í táknrænum skilningi var því afar viðeigandi að minnast og fagna fæðingar Jesú á þeim tíma ársins þegar sólarljósið var hvað minnst og daginn fór aftur að lengja og birta tók yfir heimi.

Og eftir því sem kristin trú og kristnar trúarhefðir festu sig í sessi í rómverska heimsveldinu fjaraði óhjákvæmilega undan öðrum átrúnaði og trúarhefðum. En þegar þangað er komið getum við að sjálfsögðu ekki talað um kristin jól í sömu andrá og heiðnar hátíðir fyrir daga kristinnar trúar og kirkju eða lagt þau að jöfnu við þær.

En ef til vill er gagnrýnin fólgin í því?! Í hinum meinta menningarlega ágangi kristinnar trúar á kostnað annarra hefða og trúarhugmynda. Í dag líta sumir á kristna trú sem óvin fjölmenningarinnar og fjölhyggjunnar, sem ryðja þurfi úr vegi svo að ólíkar hefðir fái að blómstra hlið við hlið.

Veruleikinn er þó sá að kristin trú, ólíkt t.d. veraldarhyggjunni og þeirri einstaklingshyggju sem henni fylgir, á mun auðveldara með að laga sig að og taka tillit til ólíkra menningarhefða en ýmsar aðrar lífsskoðanir.

Ólíkt ýmsum öðrum trúarbrögðum er kristin trú ekki landfræðilega afmörkuð við þann stað í heiminum sem hún rekur uppruna sinn til.

Vissulega er að finna grundvallandi játningu og boðskap í kristinni trú sem sameinar ólík kristin samfélög og kirkjur. En kristinni trú hefur alltaf fylgt svigrúm og frjálsræði þegar kemur að formi og tjáningu trúarinnar og innihalds hennar.

Upphaflega var kristin trú að miklu leyti sértrúarsöfnuður gyðinga með miðstöð í Jerúsalem. Síðar meir breiddist hún út á meðal heiðingja hins helleníska heims með miðjarðarhafssvæðið allt sem miðstöð. Þar á eftir tóku evrópubúar við kristinni trú, þar á meðal hinir svokölluðu barbarar Norður-Evrópu. Kristin trú varð ráðandi í Vestur-Evrópu og þar á eftir í Norður-Ameríku. Í dag er flest kristið fólk að finna í Afríku, Suður-Ameríku og Asíu. Og áður en langt um líður mun miðstöð kristinnar trúar að öllum líkindum vera að finna á suður- og austurhveli jarðar.

Gríðarlega hröð útbreiðsla í Kína og Afríku

Útbreiðsla kristinnar trúar í Afríku og Kína undanfarna áratugi, svo dæmi sé tekið, á sér ekki sögulega hliðstæðu. Um aldamótin 1900 er áætlað að kristið fólk í Afríku hafi verið um 9 milljónir talsins. Árið 2000 var fjöldi kristins fólks í álfunni um 400 milljónir og fer því hratt fjölgandi.

Í kommúnistaríkinu Kína, sem opinberlega er guðlaust ríki, hefur kristnu fólki fjölgað gríðarlega á meðal allra þjóðfélagshópa, og er hert ráð fyrir því að innan 30 ára muni kristið fólk telja um þriðjung af kínversku þjóðinni sem telur um 1.5 milljarð manna.

Hvernig stendur á þessari gríðarlegu útbreiðslu kristinnar trúar og fjölgun kristins fólks á meðal ólíkra þjóða og menningarheima?

Svarið er ekki síst menningarleg aðlögunarhæfni kristinnar trúar.

Vissulega er að finna grundvallandi játningu og boðskap í kristinni trú sem sameinar ólík kristin samfélög og kirkjur. En kristinni trú hefur alltaf fylgt svigrúm og frjálsræði þegar kemur að formi og tjáningu trúarinnar og innihalds hennar. Þetta kemur glöggt í ljós þegar litið er til þeirra ólíku mynda sem tjáning kristinnar trúar hefur tekið á sig á ólíkum stöðum í heiminum og á meðal ólíkra samfélaga.

Eins og sagnfræðingurinn Andrew Walls minnir réttilega á hefur menningarleg fjölbreytni alltaf verið grundvallandi hluti af kristinni trú. Í 15. kafla postulasögunnar er sagt frá fundi postulanna í Jerúsalem og þeirri niðurstöðu sem þeir sammæltust um, að heiðnu fólki sem tók kristna trú yrði ekki gert skylt til að ganga samtímis gyðinglegri menningu og hefðum á hönd og gefa þar með eigin menningu og hefðir upp á bátinn. Þvert á móti þurfti fólk með heiðinn (hellenískan) bakgrunn að finna sína eifin leið og forsendur til að vera hellenískt kristið fólk og finna sinni kristnu trúartjáningu farveg innan eigin hefðar og menningar.

Með öðrum orðum er ekki hægt að benda á eina, einsleita kristna menningu og tjáningu, sem sé einkennandi og lýsandi fyrir öll kristin samfélög og kirkjur. Það er vegna þess að kristin trú er ekki trú sem lætur sig staðbundna menningu einskis varða og leitast við að útrýma henni.

Þvert á móti hefur kristin trú tekið á sig fjölbreyttari menningarlega mynd en nokkur önnur trúarbrögð.

Ef hinn svokallaði heiðni bakgrunnur jólanna ber vitni um eitthvað er það einmitt hversu móttækileg og opin kristin trú hefur verið fyrir öðrum og ólíkum hefðum og átt auðvelt með að laga sig að þeim og finna kristinni játningu og trúariðkun þar farveg.

Höfundur er sóknarprestur í Hveragerðiskirkju.