Hinn ósanngjarni erfðafjárskattur

Eftir Jón Steinar Gunnlaugsson:

Eins og menn vita er skylt að greiða ríkissjóði erfðafjárskatt af arfi sem gengur til erfingja hins látna eftir andlát hans og einnig þegar hann greiðir erfingjum sínum fyrirframgreiddan arf í lifanda lífi. Skattur þessi er nefndur erfðafjárskattur og nemur 10% af arfi, hvort sem um ræðir arf eftir andlát arfláta eða fyrirframgreiddan arf eftir hann. Tekið skal fram að í gildi eru skattleysismörk sem gilda þó aðeins við andlát arfláta, en ekki við fyrirframgreiðslu arfs. Skattleysismörkin eru nú um stundir um 5,7 milljónir króna af heildararfinum.

Þessi skattur er að mínum dómi afar ranglátur. Skattstofninn er eigur hins látna, sem hann hefur auðvitað greitt skatta af allt sitt líf. Hver er réttlætingin fyrir því að skattleggja þetta fé á ný, þegar það gengur til erfingja hins látna, sem oftast eru börn hans og aðrir afkomendur? Eru þarfir ríkisins til skattfjár svo ríkar að réttlæti þessa sókn í tvöfalda skattlagningu á fé sem fólk hefur aflað á líftíma sínum og greitt skatta af? Er ekki réttlætismál að börn hins látna fái þetta fé í sínar hendur fremur en að fjárþyrst krumla ríkisins seilist í hluta þess við andlátið?

Sjálfstæðisflokkurinn fer nú með fjármálaráðuneytið. Maður hefði haldið að það stæði þeim flokki næst að afnema þennan rangláta skatt. En þaðan heyrist ekkert. Það er eins og stjórnmálamenn almennt telji þarfir ríkisins til öflunar fjár í ríkishítina þýðingarmeiri en tilkall erfingja til þessa fjár sem lögbundnir skattar hafa verið greiddir af þegar þess var aflað. Munu Svíar og Norðmenn hafa afnumið þennan rangláta skatt.

Hvernig væri að stjórnmálaflokkar hér á landi taki nú upp þann málstað að fara að dæmi þessara nágranna og afnema skattinn? Kannski fylgi myndi aukast hjá þeim flokkum sem það gerðu. En ekkert virðist vera þýðingarmeira í stefnu þeirra en að skattpína almenning í þágu ríkisins til að geta varið fénu í ofvaxin útgjöld þess. Þeir ættu frekar að átta sig á að það er augljóst réttlætismál að fólkið sjálft fái ráðstöfunarrétt yfir fénu. Bæði tryggir það hæfilega nýtingu í þágu þeirra, sem vafalaust eiga augljóst tilkall til þess, um leið og reynt er að draga úr sukki stjórnmálamanna með fjármuni almennings.

Höfundur er lögmaður og fv. hæstaréttardómari.