Hinn syndsamlegi arður af einkarekstri í heilbrigðisþjónustu

Eftir Kristinn Karl Brynjarsson:

Ein háværustu rökin gegn því að ríkið kaupi þjónustu af fyrirtækjum í  einkarekstri í heilbrigðiskerfinu eru þau, að ekki eigi eyða fjármunum rikisins í fyrirtæki eða einstaklinga sem greiða sér út arð af rekstri sínum.  Aðilum sem hafi hag af veikindum fólks.   Nú er sá sem þetta ritar ekki á því að fólk sem vinnur við að lækna og eða hjúkra sjúkum hafi einhvern sérstakan hag af veikindum þess.

Ríkið greiðir sjúkrastofnunum, líka ríkisreknum, í gegnum Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) sérstaklega fyrir nær allar þær aðgerðir   sem ekki flokkast undir bráðaaðgerðir og lyflækningar.   Eru verðin fyrir þau viðvik ýmist fengin með samningum SÍ við sjúkrastofnanir eða með útboðum á tilteknum aðgerðum. Einkarekin stofa fær með öðrum orðum sömu upphæð og ríkisrekin fyrir sama verk.

Kristinn Karl Brynjarsson.

Mér þætti  það eðlilegt að fólk hefði áhyggjur af þessum arðgreiðslum, ef ekkert fengist fyrir þá fjármuni sem ríkið lætur af hendi rakna til einkarekinna sjúkrastofa.  En er það svo?  Er ríkið ekki að greiða fyrir þjónustu sem sannarlega er framkvæmd? Væri það kannski betra að þessar aðgerðir biðu, þangað til ríkisrekin stofnun gæti annast þær?  Er það kannski þess vegna sem nú eru þúsund manns á biðlista eftir liðskiptum, á meðan hér er starfrækt læknastöð í einkarekstri sem annast gæti þessar aðgerðir samhliða ríkisreknum stofnunum, á sama verði og þær ríkisreknu taka fyrir aðgerðina? 

Mín skoðun og eflaust fleiri er sú, að ríkið hvorki þurfi né  eigi að hafa áhyggjur af því hvernig fyrirtæki sem það kaupir þjónustu af hagar rekstri sínum, svo fremi sem rekstur þess samræmist lögum,  þjónusta og verð séu samkvæmt samningi og af rekstri fyrirtækisins séu greiddir skattar og gjöld samkvæmt lögum. Geti aðilar út í bæ rekið ákveðna starfsemi á hagkvæmari hátt en ríkið, ætti ríkið fyrst og fremst að fagna slíku og um leið athuga hvort það geti ekki gert betur í sínum rekstri.

Ríkið kaupir alls kyns vörur og þjónustu af einkaaðilum, þar á meðal heilbrigðisþjónustu.  Afhverju er það svo slæmt, að einn þessara aðila greiði sér arð af starfssemi sinni? 

Ættum við kannski að banna þeim verktökum sem reisa nýjan Landspítala að greiða sér arð af starfssemi sinni vegna þess að eru þeir eru  að græða á þeim sjúklingum sem þar eiga eftir í framtíðinni að fá meðhöndlun meina sinna á spítalanum?

Höfundur er verkamaður og situr í verkalýðsráði Sjálfstæðisflokksins.