Hljótum að setja stórt spurningamerki við veru okkar í Schengen

Eftir Guðbjörn Guðbjörnsson:

Þann 27. febrúar sl. ákvað tyrkneska ríkisstjórnin að hætta samstarfi við ESB og hleypa sýrlenskum flóttamönnum og öðrum þeim sem áhuga hafa á að gerast ólöglegir innflytjendur innan sambandsins óhindrað í átt að grísku landamærunum.

Gott er fyrir okkur Íslendinga að hafa í huga að síðan árið 2001 er hér einnig um ytri landamæri Schengen-svæðisins að ræða og þar með ytri landamæri Lýðveldisins Íslands. Með aðild okkar Íslendinga að þessari frjálsu för fólks innan ESB á grundvelli Schengen-samkomulagsins var vegabréfaskoðun við innri landamæri aðildarríkja samkomulagsins afnumin, þegar kemur að ferðalögum innan vegabréfasambandsins. Við Íslendingar tókum á sama tíma að okkur vegabréfaskoðun og landamæragæslu þegar kemur að áhöfnum og farþegum flugfara og skipa frá öðrum ríkjum en þeim sem koma frá ríkjum Schengen-svæðisins.

Að landamæri Schengen-svæðisins séu ekki örugg eru því miður ekki nýmæli, því að um endurtekningu á sama stjórnlausa ástandinu er að ræða og átti sér stað árunum 2015-2016, þegar frú Merkel fór á taugum og ákvað nánast upp á eigið sjálfdæmi og á mjög ólýðræðislegan hátt og jafnvel í andstöðu við stjórnarskrá eða grundvallarlög (þ. Grundgesetz) Sambandslýðveldisins Þýskalands, en þó í nánu samráði við leiðtoga nágrannaríkja sinna í Ungverjalandi og Austurríki, að Þjóðverjar skyldu einir og óstuddir taka við um 1 milljón flóttamanna, sem reyndar urðu síðan mun fleiri.

Þessi linkind Angelu Merkel kanslara Þýskalands hefur í millitíðinni orðið til þess að fylgi Kristilegra demókrata (CDU) innan Þýskalands hefur hrunið og það sama á reyndar við um samstarfsflokkinn Sósíaldemókrata, sem eru enn æstari í tilburðum sínum til að afnema landamæri Þýskalands (No Borders). Útlendingastefna sósíaldemókrata og kristilegra er að gera þessa gamalgrónu risa í stjórnmálum Þýskalands að áhrifalausum smáflokkum.

Uppgangur öfgaflokka

Hægri sinnaðir öfgaflokkar hafa hins vegar unnið hvern kosningasigurinn á fætur öðrum og eru í augnablikinu með um 12% fylgi á þinginu í Berlín, en í Saxlandi í Austur-Þýskalandi eru þeir hins vegar með 27,5%.

Smá hlé varð á þessum sigrum hægri öfgaflokka í kjölfar pólitískra morða og hryðjuverka áhangenda þeirra í Þýskalandi á liðnum mánuðum, en væntanlega eykst fylgi þeirra stórum við þá ógn sem blasir við í Grikklandi. Einnig hafa Græningjar unnið á en þeir eru hreinir og beinir í stefnu sinni að afnema landamærin og þvinga fjölmenningarstefnuna upp á alla íbúa Evrópu, hvort sem þeir vilja það eður ei.

Stór hluti þeirra milljóna flóttamanna, sem komu á liðnum árum til Evrópu — og þá ekki síst á árunum 2015-2016 — vildu helst fara til Þýskalands og Svíþjóðar og rættist sú ósk flóttamannanna að mestu leyti, því engin önnur lönd vildu opna landamæri sín á þann hátt sem þessi tvö ríki gerðu. Í fyrra komu enn um 140 þúsund flóttamenn til Þýskalands, en með opin landamæri gætu þetta mjög fljótlega orðið nokkrar milljónir.

Á árunum 2015-2016 sögðust flóttamennir vera hjartanlega velkomnir til Þýskalands og Svíþjóðar og í raun hefði Merkel kanslari Þýskalands og Löfven forsætisráðherra Svíþjóðar sérstaklega óskað eftir að flóttamennirnir kæmu til þeirra ríkja. Í Þýskalandi og Svíþjóð eru ákvæði um pólitískt hæli mjög opin og að auki eru þar í boði rausnarleg fjárframlög og húsnæði fyrir flóttamenn. Stór hluti flóttamannanna er þó enn í Grikklandi og á Ítalíu.

Ekkert launungamál er og óþarfi að gera lítið úr því að flestir eru flóttamennirnir að sjálfsögðu í Tyrklandi og öðrum múslimskum nágrannaríkjum Sýrlands, sem verður þó auðvitað að teljast eðlilegt. Ekki fóru kristnir evrópskir flóttamenn til Miðausturlanda eða Afríku eftir heimsstyrjöldina síðari, enda var það vandamál talið staðbundið evrópskt vandamál. Sömu sögu má segja um flóttamenn í Asíu eða Afríku til þessa, sem hafa aðeins í mjög litlum mæli komið til Evrópu eða Bandaríkjanna þegar þar hafa geisað stríð.

Guðbjörn Guðbjörnsson stjórnsýslufræðingur.

Andrúmsloftið í Tyrklandi gagnvart múslimskum flóttamönnum frá nágrannaríki þeirra Sýrlandi, sem flúið hafa styrjöld, eymd, hungur og upplausnarástandið, hefur gjörsamlega breyst á liðnum 4-5 árum. Tyrkir vilja í dag í raun losna við þessa arabísku og kúrdísku flóttamenn, sérstaklega þá sem ekki eru hámenntaðir eða ríkir og koma þeim þannig að gagni og leggja eitthvað til samfélagsins en leggjast ekki á velferðarkerfið.

Tyrkir hafa fært miklar fórnir

Þetta er að mörgu leyti ekki skrítið því Tyrkir hafa fært miklar fórnir og kostnaður þeirra vegna flóttamannanna hefur verið gríðarlegur. Miðað við ófremdarástandið í Miðausturlöndum og Norður-Afríku gætu stórir hlutar þessara þjóða í raun átt rétt á pólitísku hæli í löndum Evrópu, þar sem að ákvæði útlendingalaga um alþjóðlega vernd eru í öllum þessum ríkjum mjög rausnarleg og væntanlega ættu flestir rétt á pólitísku hæli ef vel er að gáð. Þótt nýlegur samningur Sameinuðu þjóðirnar um flóttamenn sé ekki bindandi að lögum, þá er segir hann okkur þá sögu að þjóðum Vesturlanda sé ætlað að taka í það óendanlega við flóttamönnum.

Margir Tyrkir hugsa íbúum ESB þegjandi þörfina í „love/hate“ sambandi sínu við Evrópu. Tyrkjum finnst að sambandið sýni almennt ekki nógu mikinn kristilegan kærleik í garð flóttamanna frá löndum múslima í Norður-Afríku og Miðausturlöndum. Í orðræðunni um Grikkland á liðnum dögum hefur þetta orðið augljóst og ásaka Tyrkir Grikkland og jafnvel ESB um rasisma í þessu sambandi.

Að auki hafa ESB-viðræður við Tyrki legið niðri og flestir ráðandi stjórnmálamenn innan ESB hafa reyndar lýst því yfir á liðnum 10-15 árum að Tyrkland verði aldrei aðildarríki sambandsins.

Leiðtogum ESB finnst hins vegar að Erdoğan forseti Tyrklands beiti flóttamönnunum fyrir sig sem vopni í kúgunum þeirra til að fá bæði meira fjármagn og hernaðarlegan stuðning fyrir Tyrki í baráttu þeirra og sýrlenskra uppreisnarmanna gegn ríkisstjórn harðstjórans Bashar al-Saddad, sem nýtur stuðnings Rússa og Írans.

Pólitískt axarskaft

Flestir sem eitthvað vit hafa á alþjóðastjórnmálum, sjá að samningur ESB við Tyrki á sínum tíma um greiðslu fyrir að halda landamærunum lokuðum var pólitískt axarskaft eða barnaskapur, nema hvort tveggja sé. Það sem verst er má þó segja er að ESB og einstök ríki innan sambandsins hafa með öllu reynt að komast hjá því að taka afstöðu í deilunni í Sýrlandi, hvað þá að skerast í leikinn. Þetta er reyndar skiljanlegt, enda er slíkt hættulegt og gæti stigmagnað enn frekar ástandið. ESB má þó hafa verið ljóst í langan tíma að þessi mál leystust ekki af sjálfu sér. Þetta á sérstaklega við flóttamannavandamálið, sem hefur bara versnað eins og yfirleitt er með tifandi tímasprengjur.

Búast má við að langsamlega flestir sýrlenskir flóttamenn sem dvelja í Tyrklandi yfirgefi landið á næstum mánuðum í átt til Evrópusambandsins (Schengen-svæðisins), sérstaklega þeirra ríkja sem ekki eru með vegabréfaskoðun. Allt frá stjórnleysinu í útlendingamálum á árunum 2015-2016 hefur Ungverjaland t.a.m. — sem enn í Schengen — viðhaft stranga vegabréfa- og tollskoðun við landamæri sín. Til þessa hefur ESB borgað um 7 milljarða evra til að halda uppi sýrlenskum flóttamönnum í Tyrklandi og greiða m.a. barnabætur og fyrir skólagöngu sýrlenskra barna.

Þjóðverjar og önnur efnuð ríki ESB eru enn til í að greiða mikla peninga til Tyrkja, enda ódýrara að halda fólkinu uppi þar en innan ESB. ESB — eða Þjóðverjar sem ráða þar lögum og ríkjum — virðast í bili a.m.k. ekki láta undan kúgunartilburðum Ottóman-ríkisins þegar kemur að stuðningi í formi vopnasendinga eða greiðslu herkostnaðar. Tilraunir frú Merkel og Þjóðverja sem og Macrons og Frakklands í aukahlutverki til að fá önnur ríki ESB til að taka að sér hluta af þeim milljónum flóttamanna sem frú Merkel og félagar hafa áhuga á að ættleiða á ári hverju, hafa til þessa ekki borið neinn árangur.

Hér að neðan má síðan sjá ljósmynd frá 4. mars 2020, hvernig ólöglegir innflytjendur reyna að brjóta niður landamæragirðingar við landamæri Tyrklands og Grikklands við borgina Edirne í Tyrklandi.

Við aðstæður sem þessar hljótum Íslendingar að setja stórt spurningamerki við veru okkur í Schengen. Ekki væri að mínu mati óviturlegt fyrir okkur Íslendinga að taka a.m.k. upp tímabundið landamæraeftirlit að hætti Ungverja, allavega ef ríki ESB geta ekki varið landamæri sín gegn ólöglegum innflytjendum og þessi mál fara úr böndunum.

Íslendingar geta ekki sætt sig við að Angela Merkel og Þýskaland ákveði einhliða að afnema landamæri innan Schengen-svæðisins með þeim afleiðingum að hverjum sem er sé hleypt inn á svæðið.

Allt heilvita fólk hlýtur að sjá að frjáls för innan Evrópu eða Schengen-svæðisins fær ekki staðist ef að ytri landamæri ESB eru á bak og burt og aðrar bandalagsþjóðir á borð við Grikki geta ekki staðið við skuldbindingar sínar þegar kemur að landamæraeftirliti.

Höfundur er stjórnsýslufræðingur og MPA.