Hótel Jörð: Afleitar rekstrarhorfur

Neyðaróp móður jarðar: Yfirborð leirhvers á Suðurlandi.

Eftir Áskel Þórisson:

Ég játa að mér finnst íslensk stjórnvöld frekar áhugalítil þegar kemur að fræðslu um umhverfismál í skólum.

Tvær ungar stúlkur sem ávörpuðu umhverfisþing fyrir tveimur árum sögðu þingheimi að lítið sem ekkert væri til af kennslugögnum um umhverfismál í framhaldsskólum. Fólkið í salnum – sem var margt úr efstu lögum stjórnkerfisins – klappaði fyrir stúlkunum en beið síðan eftir næsta erindi.

Þetta þing kom og fór. Heim fóru fundarmenn og undirbjuggu næstu ráðstefnu.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan stúlkurnar tjáðu sig í ræðustólnum í Hörpu. Margar merkar umhverfisráðstefnur hafa verið haldnar og ályktanir samdar. Lítið bólar á aðgerðum sem skipta máli.

Áskell Þórisson.

Kynslóðirnar sem fá það verkefni að laga til eftir okkur sem berum ábyrgðina fá afar dapra uppfræðslu í umhverfisfræðum. Ástandið á þessu sviði er einna skást í leikskólanum, þokkalegt í mörgum grunnskólum en afleitt í framhaldsskólum.

Við vitum að ástandið á Hótel Jörð er ekki gott og rekstrarhorfur hótelsins eru afleitar. Hluti byggingarinnar er við það að verða vatnslaus, kranavatnið er mengað og ofnakerfið lekt.

Íbúarnir skreppa á milli hæða í leit að tilbreytingu og loka augunum fyrir verkefnum sem blasa við þeim sem vilja sjá. Viðgerðir og viðhald kosta breytingar á lífsstíl.

Þess má geta að yfirstjórn Íslandsdeildar Hótels Jarðar lagði blessun sína yfir komu tveggja hvala – frá Kína – til Vestmannaeyja í byrjun apríl.

En hvað gerir maður ekki til að heilla ferðamenn og skapa tekjur?

Höfundur er fv. ritstjóri og félagi í Landvernd. ask@simnet.is