Eftir Andra Haraldsson:
Ég hef verið að tala við nágranna mína, vini og samstarfsfólk vítt og breitt um Bandaríkin um fyrirhugaða sumardvöl mína og barnanna á Íslandi.
Undantekningarlaust hafa viðbrögðin verið á einn veg eftir að hafa skýrt út ástandið á Íslandi og hvað gerist eftir 2 vikur í sóttkví:
- Þetta hljómar æðislega — getum við komið?
- Ég hafði heyrt að Ísland hefði komið vel út úr þessu, en er það virkilega satt að börn geti gert venjulega hluti í sumar?
- Láttu mig vita ef útlendingar mega fara til Íslands í sumar.
Þessu til viðbótar hef ég verið að kynna mér hvað er í boði fyrir börn varðandi leikjanámskeið, sumarbúðir o.þ.h.
Hér er tækifærið sem ég sé — þó ég hafi ekki tíma né nennu til að sinna því:
- Bjóða fjölskyldum (kannski allt að 1000 fjölskyldum) að koma í 2-3 mánuði til Íslands
- Koma á einfaldri innlendri leigumiðlun til að sleppa við að borga airbnb 30%
- Aðstoða með (og búa til) leikjanámskeið og ferðir fyrir fólk og hvers konar úrræði sem þarf til að börnin hafi eitthvað að gera og foreldrar geti unnið heiman frá
- Tryggja góðan netaðgang auðvitað
- Þjónusta um skráningu, matarkaup og slíka hluti fyrir sóttkvínna
Miðað við að hver fjölskylda gisti í 75 daga þá gæti þetta verið ígildi um 10-15x túristaheimsókna. Þetta bjargar ekki Icelandair — en myndi skapa fullt af störfum og nýtingu á ferðamannaþjónustunni. Þetta er líka tækifæri til að auka enn á orðspor Íslands og mynda nýja tegund ferðamanna þar sem fólk dvelur lengur í hvert sinn.

Það eru auðvitað ljón í veginum. Ekki síst að það þarf að tryggja að fólk fái sérstaka áritun/leyfi fyrir að koma. En hér standa Íslendingar sannarlega öðrum þjóðum framar: við leysum vandamál hraðar og eru ekki að festast í lagakrókum og pappírsstríði.
Höfundur er framkvæmdastjóri, búsettur í Washington í Bandaríkjunum.
Við lifum á sögulegum tímum! Er ekki einmitt núna rétti tíminn til að hefja umræðu um tækifæri og hugmyndir fyrir íslenskt athafnalíf til að snúa vörn í sókn? Stofnun Hugmyndabanka Viljans (eftir hvatningu frá frumkvöðlinum Þór Sigfússyni) er viðleitni til að hvetja fólk og fyrirtæki í þessum efnum. Sendu okkur tillögur, hvatningu, reynslu- eða árangurssögur um hvernig það er að standa í rekstri og mæta samdrætti á gjörbreyttum tímum. Netfangið okkar er: viljinn (hjá) viljinn.is