Hugmyndabanki Viljans: Sex tillögur til að snúa vörn í sókn fyrir Ísland

Dr. Þór Sigfússon.

Eftir dr. Þór Sigfússon:

Mörg íslensk fyrirtæki og stofnanir hafa sýnt ótrúlega hugvitssemi við að aðlagast breyttum aðstæðum.  Við sjáum stórt flugfélag auka umsvif sín í vöruflutningum, á nokkrum dögum breyttu fínir veitingastaðir sér í “take-out”, fiskvinnslur urðu háklassa saltverkun á örskömmum tíma, framhalds- og háskólar urðu að fjarskólum yfir nótt, og svona mætti lengi telja. 

Þessa snerpa er mögnuð og hún einkennist af því að fyrirtæki og stofnanir eru ekki bara að bíða eftir næsta ríkispakka, heldur safna liði!

Íslenskt athafnalíf getur snúið erfiðri stöðu sér í hag.

Hér eru sex innlegg frá mér í Hugmyndabanka Viljans. Gaman væri að heyra fleiri tillögur og/eða reynslusögur! (sjá nánari upplýsingar hér að neðan)

i. Getum við opnað fyrir skipulagðar ferðir fólks til Íslands sem horfir upp á langtíma einangrun og ótta í heimalöndum sínum? Þetta fólk færi að sjálfsögðu í sóttkví þegar hingað er komið en getur síðan notið sumarsins á íslenskum gististöðum með þeim ströngu skilyrðum sem sett hafa verið um samgang fólks. Ferðaþjónustan gæti undirbúið sérstaka þjónustu fyrir þessa erlendu gesti sem tæki í einu öllu mið af ráðleggingum sóttvarnalæknis.

ii. Íslenska ferðaþjónustan þarf að vinna náið saman að því að bjóða Íslendingum áhugaverða kosti í ferðalögum innanlands. Á svona tímum eiga Íslendingar ekki að þurfa að nýta sér erlendar kostnaðarsamar bókunarsíður til að leita uppi og panta gistingu á stórkostlegum gististöðum víða um land.  Svo þarf kraft í markaðssetningu; Golfnámskeið á Sigló,  Gourmet helgi með Gísla Matthíasi í Eyjum, Jöklaferðir stórfjölskyldunnar, lærðu norðlenskan framburð á KEA á einni viku, Bændalíf á Núpi, Sólarlandaferð á Vopnafjörð (þar verður besta veðrið í sumar) o.s.frv.

iii. Nú þegar hafa sprottið fram íslensk nýsköpunarfyrirtæki sem bjóða heilsutækni gegn faröldrum sem vakið hefur athygli víða um heim. Þá hafa íslensk fjarvinnslufyrirtæki vakið mikla athygli.      Næstu “Amazon” fyrirtæki heimsins kunna einmitt að vera á sviði margvíslegrar fjarþjónustu og fjarvinnslu.  Þar höfum við töluvert forskot á margar þjóðir. Þessa starfsemi þurfa íslenskir fjárfestar að horfa sérstaklega til og Íslandsstofa þarf að kynna hana af krafti fyrir öðrum þjóðum, ekki síður en hótelherbergin okkar!

iv. Ef okkur tekst að efla ímynd Íslands enn frekar sem það land sem best getur tryggt gæði og heilsu, þá liggur beinast við að efla enn frekar íslenska garðyrkju og að laða til landsins fyrirtæki sem hafa áhuga á ræktun hérlendis. Ég held að flestir geri sér grein fyrir því að framundan eru ekki tímar stóriðju og í kjölfarið þurfum við að styrkja samkeppnishæfni íslenskrar garðyrkju með því að nýta að hluta flottar og afskrifaðar virkjanir til að knýja græna Ísland.

v. Með því að breyta vinnutíma má spara vegatíma og vegagerð. Samfélagslegur kostnaður vegna tafa í umferðinni gæti numið yfir 200 milljörðum á næsta áratug og 100 milljarða þarf til að breikka vegi í höfuðborginni á komandi áratug. Við ákváðum fyrir mjög löngu síðan að öll fyrirtæki og skólar ættu að hefjast og ljúka á sama tíma. Þá hófst kapphlaup stórs hluta íbúa höfuðborgarsvæðisins sem sífellt dróst á langinn þar sem þátttakendum fjölgar stöðugt.  Fyrsta skrefið í breytingu er að hvetja háskóla og framhaldsskóla til að byrja með fjarnám að morgni og láta nemendur streyma í skólana þegar nær dregur hádegi. Kannski má umbuna skólum og kennurum umstangið með hluta þeirra fjármuna sem annars færu í að breikka götur?

vi. Í bláa hagkerfinu getum við sótt fram af krafti. Hægst hefur á fiskvinnslu víða um heim vegna lélegs tækjabúnaðar og erfiðleika við að halda fjarlægð starfsfólks í mannfrekum vinnslum. Hér eru mikil tækifæri til að kynna enn frekar íslenska vinnslutækni og íslenska módelið að loknu COVID19, þar sem lögð er áhersla á sjálfvirkni og gæði – og meiri nýtingu fisksins. 

Fyrrum forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, sagði eitt sinn við mig að kreppa væri móðir tækifæranna. Við höfum þegar sýnt í verki að svo er og þurfum að halda áfram að kortleggja tækifærin og hugsa út fyrir boxið.

Höfundur er stofnandi Íslenska sjávarklasans.


Við lifum á sögulegum tímum! Er ekki einmitt núna rétti tíminn til að hefja  umræðu um tækifæri og hugmyndir fyrir íslenskt athafnalíf til að snúa vörn í sókn?  Stofnun Hugmyndabanka Viljans (eftir hvatningu frá frumkvöðlinum Þór Sigfússyni) er viðleitni til að hvetja fólk og fyrirtæki í þessum efnum. Sendu okkur tillögur, hvatningu, reynslu- eða árangurssögur um hvernig það er að standa í rekstri og mæta samdrætti á gjörbreyttum tímum. Netfangið okkar er: viljinn (hjá) viljinn.is