Hvað er eiginlega þetta ACER?

Eftir Hildi Sif Thorarensen:

Við sem fylgjumst með umræðunni um orkupakkann höfum séð skammstöfuninni ACER ítrekað bregða fyrir og eflaust hafa margir velt því fyrir sér hvað þetta þýðir. Skammstöfunin stendur fyrir Agency for the Cooperation of Energy Regulators og hefur nafnið verið íslenskað sem Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði. Ég ætla mér héðan í frá að tala um hana sem ACER.

            ACER er þó ekki eina skammstöfunin sem getur hafa truflað þá sem fylgjast grannt með þessu mikla hitamáli,en auk hennar má nefna ESA sem stendur fyrir Eftirlitsstofnun EFTA. Til að flækja málin enn frekar, hefur töluvert verið þjarkað um hvor stofnunin það sé sem raunverulega hefur valdheimildir þegar kemur að EFTA-ríkjunum, í okkar tilfelli Íslandi, en réttasta svarið er að valdheimildunum sé deilt bróðurlega á milli stofnananna tveggja.

            Þrátt fyrir að ESA fari með formlegar valdheimildir gagnvart EFTA-ríkjunum þá tekur ACER dyggan þátt í þeim ákvörðunum. Ferlið hefst með því að ACER semur drög fyrir ESA, hvort heldur sem er að eigin frumkvæði eða að beiðni ESA. Ákvörðunin sem ESA tekur er svo í kjölfarið tekin á grundvelli þessara draga, sem ACER samdi, en ef eitthvað er athugavert við drögin getur ESA sent beiðni til ACER um að endurskoða ákvörðunina sem veldur því að ACER íhugar að semja ný drög. Þess skal sérstaklega getið að þetta ferli gengur ekki í hina áttina, þ.e. að ESA semji drög fyrir ACER og hefur ACER því að vissu leyti meiri völd en ESA þótt ESA sjái um framkvæmdina.

Hindranir fjarlægðar

            Skúli Magnússon, dósent við Háskóla Íslands, skrifaði álitsgerð fyrir ríkisstjórnina og fer þar m.a. ágætlega yfir hvað felst í þessari merkilegu stofnun Evrópusambandsins, ACER. Segir hann þar: „Tilkoma stofnunarinnar er því almennt séð þáttur í þeirri viðleitni að fjarlægja hindrarnir í vegi viðskipta með raforku yfir landamæri í því skyni að ná fram markmiðum sambandsins á sviði orkumála.“ og vísar þar í 5. lið aðfaraorða reglugerðar nr. 713/2009 sem fjallar einmitt um ACER/ESA.

            Samkvæmt Skúla er sú (valfrjálsa) samvinna, sem átti sér stað á grundvelli fyrsta og annars orkupakkans, nú talin ófullnægjandi til að ná markmiðum sambandsins í orkumálum og þess vegna var talið nauðsynlegt að koma á fót miðlægri stofnun sem sér um stefnumótun, samræmingar og eftirlit. Miðlæga stofnunin er auðvitað ACER. Hefur stofnunin jafnframt heimildir til að taka bindandi ákvarðanir ef þær ákvarðanir eru í þágu eftirlits eða samræmingar.

Hildur Sif Thorarensen.

            Undir ACER heyrir framkvæmdastjóristofnunarinnar og svokölluð stjórn eftirlitsaðila en í henni sitja (háttsettir)fulltrúar eftirlitsstjórnvalda aðildaríkjanna ásamt áheyrnarfulltrúaFramkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Þess má til gamans geta aðFramkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur samkvæmt Wikipedia hvað mestsjálfstæði og minnst lýðræðislegt lögmæti. Stjórn eftirlitsaðila tekur ákvarðanir með tveimur þriðju meirihluta atkvæða viðstaddra fulltrúa.

            Stjórn eftirlitsaðila er að vissu leyti hjartað í ACER og er ákvarðanataka samkvæmt greinum 7., 8., og 9., þeim greinum sem valdið hafa hvað mestum áhyggjum meðal fræðimanna, að verulegu leyti í hennar höndum. Þótt ákvarðanir séu formlega í höndum framkvæmdastjórans er hann bundinn af áliti stjórnarinnar við þessar ákvarðanir. Auk þess þá skal hún veita framkvæmdastjóranum leiðsögn við framkvæmd verkefna hans og hann skal svo starfa í samræmi við þær leiðbeiningar.

Ansi mikil völd

            Þessi undirstjórn ACER, stjórneftirlitsaðila, er því komin með ansi mikil völd og tekur Skúli sérstaklegafram að „fulltrúar í þessari stjórn megi ekki leita eftir eða þiggja fyrirmælifrá ríkisstjórn aðildarríkis eða öðrum aðilum.“ Við lestur álitsgerðar Skúla Magnússonar er því erfitt að líta framhjá því að þarna er verið að tala um stofnun innan Evrópusambandsins sem mun ekki taka tillit til fyrirmæla frá ríkisstjórn landsins eða öðrum aðilum. Þessi stofnun hefur þó í höndunum ríkisvald og beinist þetta vald gagnvart einstaklingum og lögaðilum, eins og Stefán Már nefndi í Kastljósviðtali. Þetta er framsal á ríkisvaldi sem hann hafði áhyggjur af að væri óskilgreint, þ.e. ekki fyllilega útlistað í reglugerðinni og gæti því stangast á við stjórnarskrána.

            Þrátt fyrir að við séum meðáheyrnarfulltrúa sem getur óskað eftir að sitja fundi með stjórn eftirlitsaðilaþá vill Skúli Magnússon ekki meina að það hafi mikla þýðingu, sbr. „Þótt aðildaríkjum sé með framangreindri skipan Samstarfsstofnunarinnar, með ákveðnum hætti veitt aðild að ákvarðanatöku hennar, verður þannig tæplega litið svo á að það atriði hafi mikla þýðingu fyrir yfirþjóðleg einkenni hennar. Öllu heldur ber umrædd skipun vitni um þá þróun Evrópusambandsins að styrkja bein milliliðalaus samskipti sambandsins við undirstofnanir ríkjanna og árétta hollustuskyldu þeirra við markmið sambandsins…“

            Hollusta við markmið sambandsins, eftirlitsaðili með ríkisvaldi, eftirlitsaðili sem hlustar ekki á ríkisstjórnina og er sjálfstæður. Það er þannig sem þetta eftirlitsapparat horfir við og það eina sem kemur í veg fyrir að það byrji að nýta valdheimildir sínar á Íslandi er sú staðreynd að enn er ekki kominn sæstrengur. Þegar breski fjárfestirinn Edmund Truell lýsti því yfir í liðinni viku að hann væri kominn með það fjármagn sem þarf til að leggja sæstreng þá var ekki laust við að það færi um mann. Ríkisstjórnin heldur því fram að þessir fyrirvarar haldi en þó er það umdeilt.

En þó þeir haldi, hversu vel treystir þú ríkisstjórn Íslands til að hafna sæstreng og stöðva ACER?

Höfundur er verkfræðingur.