Eftir Hildi Sif Thorarensen og Guðmund Franklín Jónsson:
Yfir 7500 manns á Facebook-síðunni „Kjósum um orkupakkann“ skora á forsætisráðherra Íslands, Katrínu Jakobsdóttur að leyfa þjóðinni að kjósa um Þriðja orkupakka ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Katrín hefur áður lagt áherslu á mikilvægi þjóðaratkvæðagreiðslna og viðurkennt að stjórn VG og Samfylkingar hafi gert mistök að setja ekki aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu í þjóðaratkvæði. Nú er kjörið tækifæri að standa við stóru orðin og leyfa þjóðinni að ráða í svo umdeildu máli sem Þriðji orkupakki ESB er og varðar okkur öll og komandi kynslóðir.
Við sem settum „Like“ á þessa síðu skorum á Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, að setja Þriðja orkupakka ESB í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Þingið vinnur í umboði þjóðarinnar og eru flokkar kosnir eftir þeim málefnum sem þeir setja fram fyrir kosningar. Þegar þingmenn ætla beinlínis að ganga þvert gegn stefnuskrá flokks síns er óásættanlegt annað en að þjóðin fái að kjósa um svo umdeilt mál sem Þriðji orkupakki ESB er, enda er það þjóðin sem þingið á að þjóna en ekki öfugt. Lýðræðið er ein af grunnstoðum samfélagsins, það verður umfram allt að virða. Því biðjum við þig, Katrín Jakobsdóttir, um að leggja Þriðja orkupakka ESB í hendur þjóðarinnar og styrkja stoðir lýðræðisins í stað þess að hola úr þeim.
Náttúra og auðlindir Íslands
Náttúra og auðlindir landsins ættu að vera óframseljanleg þjóðareign sem ber að vernda, umgangast og nýta á sjálfbæran hátt þannig að hagsmunir almennings séu tryggðir um alla framtíð. Setja þarf skýrari lög um eigna- og nýtingarétt þjóðarinnar á jarðeignum, auðlindum, náttúru og lífríki.
Náttúru Íslands og auðlindir ber að vernda fyrir komandi kynslóðir og auðlindir verði aldrei framseldar erlendum einstaklingum, þjóðum, ríkjasamböndum eða fyrirtækjum.
Fjölmiðlar eru fjórða valdið og við vonum að þeir standi undir nafni og knýi fram skýr svör frá forsætisráðherra varðandi hvar flokkur hennar og grasrót stendur gagnvart Þriðja orkupakka ESB.
Ef þetta er hráskinnaleikur þar sem allt er lagt undir til að halda saman ríkisstjórn sem án tillits til umhverfisáhrifa vill virkja hverja sprænu og útvega Evrópu ódýrt grænt rafmagn í gegnum sæstreng þá stendur lítið eftir af því „Græna“ í nafni flokks forsætisráðherra.
Hildur Sif Thorarensen, verkfræðingur
Guðmundur Franklín Jónsson, viðskipta- og hagfræðingur