Eftir dr. Ásgeir Jónsson:
Hið íslenska stafróf virðist runnið frá Bretlandi og hlýtur að hafa fylgt kristni hingað eftir árið 1000. Upprunann má marka af bókstafnum Þ sem kemur úr engilsaxnesku. Sú gerð Þ sem birtist hér hvarf úr enskri skrift um miðja 11 öld – svo fyrir þann tíma var stafrófið orðið til.
En hver var höfundur þess?
Tveir engilsaxneskir biskupar sem sátu hér á milli 1000 og 1050 koma helst til greina . Þeir Bjarnharður hinn bókvísi (1018-23) og Rúðólfur (1030-49). Ég veðja á Rúðólf.
Rúðólfur sat á Bæ í Borgarfirði í nítján ár og hélt þar ek. klaustur eða skóla. Þar kenndi hann m.a. Sigfúsi Loðmundarssyni, föður Sæmundar fróða, og vígði hann til prests. Rúðólfur fékk stöðuhækkun 1049 og var gerður að ábóta í Abington klaustri á Englandi og lést þar 1052. Landnáma segir hann hafa skilið eftir þrjá munka í Bæ þegar hann fór utan. Mögulega var það í Bæ sem íslenska var fyrst færð í letur af prestlærlingum.
Það er löng hefð fyrir því að gera lítið úr þeim erlendu biskupum sem voru hér áður en Ísleifur Gissurarson var vígður árið 1056. Og Skálholt varð biskupsetur. Þeir eru gjarnan kallaðir „trúboðsbiskupar“. Satt er það að hingað kom nokkur fjöldi af erlendum biskupum af ýmsum þjóðernum sem sumir stoppuðu stutt við. Skrýtnustu gestirnir voru án efa armenskir biskupar sem virðast hafa verið sendir af Haraldi Noregskonungi hinum harðráða til þess að snúa Íslendingum til grísks réttrúnaðar. (Haraldur dvaldi sem kunnugt er lengi í Austurvegi og var málaliði í Væringjasveit Grikklandskeisara.)
Þó er engum blöðum um það að fletta að nokkrir þessara biskupa voru virðulegir kirkjuhöfðingjar sem dvöldu hér um árabil á föstum stóli. Þeir fóru jafnframt í góð embætti ytra þegar starfi þeirra lauk hér. Fyrir utan Rúðólf mætti nefna Bjarnharð hin saxneska sem sat á Giljá í A-Húnavatnssýslu árin 1050-67 – og varð síðar biskup í Björgvin í Noregi.
Eins ágætur og Ísleifur var – þá var hann ekki þungaviktarmaður innan hinnar alþjóðlegu Rómarkirkju. Hann lauk námi í Herfurðu (Hervorden) í Þýskalandi árið 1028, þá 22 ára að aldri. Síðan liðu 28 ár þar til honum heppnaðist loks að fá vígslu sem biskup er hann stóð á fimmtugu. Og til þess þurfti hann að gefa Þýskalandskeisara lifandi hvítabjörn af Grænlandi sem tilliðkunarfé. Þá var Ísleifur ekki upphaflega biskup yfir öllu landinu. Hin 10 fyrstu embættisár hans sat áðurnefndur Bjarnharður einnig sem biskup á Norðurlandi.
Hins vegar varð skipan Ísleifs upphafið að hinnu íslensku þjóðkirkju – en það er önnur saga.
Höfundur er dósent og forseti Hagfræðideildar Háskóla Íslands.