Hver ert þú?

María Rún Vilhelmsdóttir, blaðakona á Viljanum. / Jón Guðmundsson.

Skilgreiningar eru partur af öryggisneti mannsins, þær skapa þá tilfinningu að dvelja innan þess ramma sem skilgreiningin skapar. Og það gefur okkur þá tilfinningu, að við séum við stjórnvölinn innan þess ramma. Þú hefur vald innan þess ramma sem þú skapar. Þessi hugsun er ósjálfráð en getur haldið okkur frá því að upplifa umhverfið okkar frjálslega.

Hvort er það holt eða óholt, að skilgreina sjálfan sig ? Takmarkar það okkur eða gerir sjálfsvitundin okkur enn þroskaðari ? 

Léttast er að líta á okkur sjálf á yfirborðskenndan hátt og sjá hvað er gott við okkur og hvað er ekki við fyrstu skoðun. Við getum dæmt okkur út frá því hversu margir af vinum okkar hafa reglulega samband, like-um á facebook, hjörtum á Instagram. Hættan í dag liggur í því að við skilgreinum okkur út frá því hvernig við höldum að annað fólk vilji sjá okkur, í samhengi við það sem myndi veita okkur samþykki og ekki hrófla við annarra manna þægindasviði.

En hvað skilgreinir þig í raun ? 

Þegar þú lítur á þig án allrar gagnrýni, bara af heiðarleika, hvað skilgreinir þig? Er það útlit þitt? Fortíðin eða framtíðin? Er það allt sem einhver eða eitthvað hefur gert til þess að særa þig? Samþykki eða hrós almennings? Menntunin þín, ertu að fylgja þínu áhugasviði? Er það sambandið þitt eða skortur á slíku? Hvað er það? 

Við eigum að baki sambönd sem entust ekki en kenndu okkur lexíur sem munu gera okkur að betri manneskjum. Við upplifum ástæðulausa umhyggju ókunnugs manns eða konu. Við höfum þá von að eftir allt sem við höfum lent í,  að það verði allt í lagi með okkur. Barnið þitt brosir og fyllir þig tilfinningum og dregur þær úr þér á sama tíma því þú vissir ekki að ást gæti verið svo hrein. Áföllin í lífi þínu hafa mótað þig og gert þig skilningsríkari gagnvart þjáningum fólks. 

Yndislegt væri það, að geta horft á sjálfan sig aðeins frá manns eigin sjónarhorni. Fólk í blóma lífsins er að brotna saman undan þrýstingi um hvernig lífið á að vera. Ungu fólki í dag skortir víðsýni. Sjóndeilarhringurinn þeirra er að þrengjast og þrengjast og er þetta eitthvað sem foreldrar þurfa að fara að taka eftir. Eftir því sem sá hringur þrengist verða viðmiðin færri, unglingar bera sig saman einungis við næsta mann, sem að miklum líkindum hefur það gott. Viðmiðin eru ekki orðin einungis hærri, heldur einnig óþörf. Það að finnast maður minni manneskja yfir því hvaða útgáfu af síma maður á er óþörf skilgreining. Jafningjaþrýstingur er í þjóðfélaginu öllu, og ekki bara hjá ungu fólki.

Fullorðið fólk er að hætta á vinnumarkaðnum sökum kvíða. Þessi pressa um hvernig á að gera hlutina hleypir ekki þínu frelsi af stað í að gera eitthvað frumlegt. Frjálslega hugsunin deyr í pressunni. Og þeir sem hugsa frjálslega eru á tímum teknir niður. 

Gott er að taka eftir þeim augnablikum þar sem þú skilgreinir þig á ákveðinn hátt. Þegar þú gerir það, skaltu spyrja þig hvort sú greining sé sönn. Og ef hún er það ekki, hvernig getur þú leyst þig undan því að þurfa að ákveða annað hvort ? 

Þegar þú tekur eftir þessum augnablikum skaltu skrifa skilgreininguna niður hjá þér. Það að koma henni úr hausnum og á blað sýnir þér betur hversu röng eða rétt hún er. Og það hjálpar þér að aðskilja þig frá þessum sleggjudómum þínum.  Þegar þú býrð til pláss í kringum skilgreininguna  býrðu til tækifæri til þess að breyta henni. Það er jafn mikilvægt að rækta huga og sál eins og að rækta líkamann. Sú æfing að hætta að skilgreina þig á neikvæða og hamlandi vegu ætti að vera partur af þinni daglegu rútínu.  Ef við vanrækjum okkur á andlega sviðinu læsum við okkar raunverulegu þrár inni.  Við hættum að sjá okkur sem djarfar og hugrakkar manneskjur og hættum að taka áhættur. 

Í staðinn fyrir að reyna að skilgreina þig á einn eða annan hátt, segðu þér og öðrum hvað þitt líf snýst um. Ekki með því að tala talið, heldur með því að lifa því. Og í stað þess að einblína á hluti sem ekki verður við ráðið, hví ekki láta von, ást og þá drauma sem þú hefur skilgreina þig sem manneskju? Í stað þess að skilgreina þig út frá því hvað þú ert að gera akkúrat núna.

Það skiptir ekki máli hvernig spilunum er dreift, það eina sem skiptir máli er hvernig þú spilar úr þeim. 

María Rún er blaðakona á Viljanum og myndlistarmaður.


Kæri lesandi, þessi pistill sem þú varst að lesa er 5 ára gamall. Erum við búin að ná einhverjum árangri á þessu sviði ?