Karlmennska er flott

Shutterstock.

Eftir Ólaf Árnason:

Það er gott að vera karlmaður og karlmennska er flott. Karlmennska er ekki eitthvað sem þarf að fara í felur með eða skammast sín fyrir. Karlmennska er  eiginleiki sem ber að fagna og vera stoltur af. Láttu engann segja þér annað.

Karlmennska snýst um sjálfstraust og öryggi í eigin skinni. Hún snýst um að  fylgja eftir draumum sínum og gera það sem þarf til að ná þeim markmiðum sem þú setur þér. Hún snýst um að gefast ekki upp þó að það sé mótlæti á leiðinni að settu markmiði. Það getur þýtt að stundum þarf að vera harður, stundum mjúkur en ætíð fylginn sér.

Karlmennska snýst um að hugsa vel um sig og sína. Að bera virðingu fyrir eigin líkama og halda sér í góðu formi. Karlmennska snýst um að vera til staðar fyrir fjölskyldu sína og fórna sér fyrir hana þegar á þarf að halda. Hafa væntingar til maka og barna, hrósa þegar við á og hvetja þegar þess er þörf.

Karlmennska snýst um að gráta þegar þess þarf.

Karlmennska snýst um að gera meira og tala minna. Eða eins og einn prófessorinn minn sagði „Talk is overrated“. Karlmennska snýst um að vita það að tala um hlutina, er ekki það sama og að gera hlutina. Þeim leiðast langir fundir og afsakanir um hversvegna eitthvað sé ekki hægt. Þeir hugsa í lausnum og vilja finna leiðir til að láta hlutina ganga. Það á við um bæði vinnuna og einkalífið.

Karlmennska snýst um að gráta þegar þess þarf. En hún snýst líka um vitneskjuna um það að það er ekkert að þó að þú finnir ekki þörfina til að gráta þegar aðrir gera það. Það að gráta leysir ekki vandann, fær ekki ástvin til baka eða kemur þér í gegnum erfiðleika. Það að flagga ekki tilfinningum er ekki það sama og að hafa ekki tilfinningar.

Karlmennska snýst um að vilja jafnrétti. Karlmenn vilja ekki forréttindi og hafa alltaf þurft að berjast fyrir sínu. Karlmenn þurfa ekki forgjöf og vilja hana ekki einu sinni þegar þeir spila golf. Karlmennska snýst um að vilja takast á um störf á sanngjarnan máta við hæfa einstaklinga af báðum kynjum.

Margir óttast karlmennsku

Karlmennska snýst um að takast á við gagnrýni á uppbyggjandi máta. Að hafa ekki áhyggjur eða vera viðkvæmur fyrir því að einhver setji út á klæðaburð, starfsvettvang eða stöðu. Sannir karlmenn eru sáttir þar sem þeir eru eða þangað sem að þeir eru að fara

Ólafur Árnason fjölskylduráðgjafi.

Karlmennska snýst um það að kunna að tapa. Það er ekki það sama og vera sama um að tapa. Nei það snýst um  taka ósigrum, meta hvað gerðist, læra af því og gera betur næst. Karlmennska snýst ekki um að kenna öðrum um, heldur líta í eigin barm og axla ábyrgð á stöðunni.

Já karlmennska er flott og af henni áttu að vera stoltur. Margir óttast karlmennsku og reyna að gera lítið úr henni, en það er ekki þitt vandamál heldur þeirra sem karlmennskuna óttast.

Fylgdu eigin samvisku og byggðu upp þitt líf og fjölskyldu. Vertu gagnrýninn á sjálfan þig og hlustaðu á ástvini því þannig eykur þú styrk og þol … vertu stoltur.

Höfundur er fjölskylduráðgjafi.