Brynjar Níelsson alþingismaður fjallar um bók Þórðar Snæs Júlíussonar, Kaupthinking. Útgefandi Bjartur, 2018.
Aftan á bókarkápu segir að hér sé rituð saga um breyskleika valdamikilla athafnamanna, sem voru uppfullir af græðgi og ofmetnaði, stunduðu stórfelldar blekkingar og svik og fengu makleg málagjöld að lokum. Oft er gott að skrifa bók um efni löngu síðar en atburðir áttu sér stað enda flestir búnir að gleyma þeim.
Hér á landi hefur verið mjög áberandi hvað margir eru vitrir eftir á og því vitrari sem lengra líður frá atburðum.
Uppgangur íslensku bankanna var gríðarlegur um og eftir aldamótin síðustu. Aðgangur að fé virtist ótakmarkaður og íslenskir bankar tefldu djarft eins og margir aðrir og stækkuðu á ógnarhraða. Í þeim leiðangri öllum var gott að búa við reglur ESB um frjálst flæði fjármagns og hvers kyns hindranir á fjármálastarfsemi voru illa séðar.
Öll vorum við voða glöð í þessum uppgangi, greiddum niður skuldir ríkisins og allir gátu keypt sér þak yfir höfuðið án þess eiga svo mikið sem eina krónu. Gátum byggt tónleika- og knatthallir út um allar trissur. Því var öll gagnrýni á starfsemi bankanna illa séð, einkum ef hún kom frá stjórnmálamönnum eða Seðlabankanum. Margir stukku á vagninn og tóku þátt í útrásinni enda von um skjótfenginn gróða. Þeir sem fóru flatt á því eru helstu viðmælendur höfundar bókarinnar. Þekkt er að veruleikamyndin verður stundum brengluð þegar svo stendur á.
Bankakreppan var ekki séríslenskt fyrirbæri
Margir halda að bankakreppan hafi verið séríslenskt fyrirbæri og að allir bankar á Íslandi hafi starfað með allt öðrum hætti en aðrir úti í hinum stóra heimi. Svo var ekki, en munurinn var sá að stærri þjóðir gátu bjargað öllum mikilvægum bönkum en við bjuggum við bankakerfi sem hafði vaxið okkur langt yfir höfuð. Þegar fyrir lá að íslensku bönkunum varð ekki bjargað kom strax sú krafa að stjórnendur bankanna sættu refsiábyrgð.
Stjórnmálamenn sögðu að öðrum kosti yrði ekki friður í landinu og jafnvel kæmi til byltingar. Við þekkjum svo söguna, gefnar voru út ákærur og allir æðstu stjórnendur bankanna sakfelldir og refsingar þungar.
Áhugavert væri ef einhver af okkar frábæru rannsóknarblaðamönnum nennti nú að rannsaka hvort refsiákvæði um umboðssvik og markaðsmisnotkun séu öðruvísi hér en í öðrum vestrænum löndum. Eða hvort við vorum svo óheppin að einu bankamennirnir sem stunduðu stórfelldar blekkingar og svik skyldu allir starfa á Íslandi.
Var það kannski bara svo að aðrar þjóðir voru ekki með eins góðan Sérstakan saksóknara og við, þrátt fyrir risastórar efnahagsbrotadeildir?
Nú höfðu Frakkar Evu Joly en ekkert gerðist þar.
Að lesa bókina Kaupthinking er eins og að lesa 360 blaðsíður af leiðurum Kjarnans í einni beit. Efnistökin eru einföld. Farið er gagnrýnislaust yfir ákærur og rannsóknargögn ákæruvaldsins og helstu heimildarmennirnir eru ýmist þeir sem hafa komist hjá ákæru með sérstöku samkomulagi við ákæruvaldið eða stóðu í málaferlum við bankann vegna persónulegra ábyrgða.
Þessir aðilar eru allir taldir trúverðugir á meðan önnur sjónarmið eru einfaldlega afgreidd með því að þar sé um að ræða keypta álitsgjafa og verjendur sem ekki þurfi að eyða frekari orðum að. Höfundur bókarinnar sá sér hvorki fært að mæta í eitt einasta réttarhald sem fór fram vegna þeirra dómsmála sem bókin fjallar um, né ræða við stjórnendur bankans vegna þeirra mála sem felld voru niður.
Slík vinnubrögð þykja eflaust ágæt á Kjarnanum en verða þó seint talin fyrirmynd góðrar blaðamennsku. Þau ganga enn fremur engan veginn í bókaskrifum þegar útkoman á að vera hlutlæg umfjöllun. Þetta er sérstaklega bagalegt þegar um er að ræða sakamál þar sem sjónarmið verjenda koma ekki fram í endanlegum dómi.
Höfundur hefur takmarkaðan áhuga á að kynna lesendum sjónarmið ákærðu og aðeins er vitnað í framburð þeirra eða sjónarmið í þeim tilgangi að snúa út úr þeim.
Svikamylla en ekki banki
Hugmyndafræðin og skilaboðin í bókinni eru eitthvað í þessa veru:
Ársreikningar voru falsaðir og gáfu ranga mynd af stöðu bankans Kaupþings. Bankinn var svikamylla fyrir eigendur, sem þó virðast hafa misst allt sitt við fall bankans en fengu að kaupa aftur fyrirtæki sín á fáránlegu verði í gegnum afsláttarleið Seðlabankans fyrir peninga sem þeir höfðu svikið út úr bankanum og annars staðar og falið fyrir skattayfirvöldum og kröfuhöfum. Þá var gengi hlutanna haldið uppi með stórfelldri markaðsmisnotkun.
Skoðum þetta aðeins betur:
i. Ársreikningar
Í bókinni felst gagnrýni á ársreikninga bankans fyrir árið 2007 fyrst og fremst í því að mat á útlánum bankanna í október 2008 hafi sýnt að afskriftarþörf þeirra hafi verið gríðarleg. Almennar niðurfærslur í ársreikningi 2007 hafi einungis numið 0,5 prósent af heildarútlánum, en þurftu að vera miklu hærri. Ekkert er farið yfir hvaða reglur gilda um ársreikninga en mat á virði eigna við gerð ársreikninga miðast við verðmæti þeirra á þeim tíma sem ársreikningurinn er gerður. Slíkt mat og þar með ársreikningurinn getur ekki tekið mið af því sem gerist síðar.
Á árinu 2008 voru eignir fjármálafyrirtækjavíða um heim nánast í frjálsu falli. Endurskoðun sem gerð er í kjölfar hruns bankanna í október 2008 segir ekkert til um verðmæti eigna í árslok 2007.
Vogunarsjóðir sem keyptu kröfur á bankana í lok árs 2008 högnuðust gríðarlega á þeim viðskiptum, enda mat á eignum á þeim tíma mjög lágt. Jafnvel ríkissjóður hagnaðist á kaupum á eignum bankanna. Sama er að segja um þá sem keyptu einstakar eignir út úr slitabúi bankanna, þar á meðal fyrrum eigendur bankans, en eignir þeirra í þeim félögum sem þeir eru almennt kenndir við eignaðist bankinn við hrunið þar sem þær voru veðsettar honum.
Ákvörðun um þá eignasölu var í höndum slitastjórna bankanna en ekki fyrrum stjórnenda bankanna sem væntanlega seldu þá eignirnar á glæpsamlega lágu verði ef leggja á hugmyndafræði bókarinnar til grundvallar. Þá greiddust allar innstæður af eignum Kaupþings strax, sem kölluðu á eignasölu til að fjármagna þá útgreiðslu á tíma þegar verðmæti eigna var mjög lágt.
Ekkert er fjallað um breytingar á Evrópureglum um gerð ársreikninga sem höfðu gert það að verkum að verulega var þrengt að fjármálafyrirtækjum að leggja til almennra afskrifta. Ástæða breytinganna var m.a. sú að yfirvöld sáu ofsjónum yfir því að fjármálafyrirtæki væru að niðurfæra eignir til að komast hjá skattgreiðslum. Meta þurfti eignir á raunvirði en hvorki meira né minna en það.
Þá má ekki gleyma því að til þess að falsa ársreikninga er ekki nægjanlegt að stjórnendur félagsins taki sig saman. Í banka starfa jafnframt innri endurskoðandi, endurskoðunarnefnd og ytri endurskoðendur. Kaupþing átti auk þess verulegar eignir í erlendum fyrirtækjum sem endurskoðaðar voru af erlendum endurskoðunarfyrirtækjum sem hefðu væntanlega þurft að taka þátt í svikamyllunni.
Staðreyndin er sú að endurskoðendur hafa ekkert að selja annað en trúverðugleika sinn. Ef þeir verða uppvísir af svikum er margra ára nám og viðskiptavild fyrirtækja þeirra að engu orðin.
Þessar ályktanir höfundar bókarinnar um ársreikninga standa því á veikum grunni með hliðsjón af því að engin ákæra var gefin út á grundvelli ársreikninga bankanna þrátt fyrir gífurlega kostnaðarsamar rannsóknir fjölmargra aðila á þeim.
ii. Seðlabankaleiðin
Þær hugmyndir sem bókarhöfundur hefur umsvokallaða Seðlabankaleið og viðskipti almennt eru ekki trúverðugar. Samkvæmt Seðlabankaleiðinni var einungis tekið við fjármunum frá erlendum bankastofnunum þar sem búið var að gera grein fyrir uppruna þeirra.
Mótaðili var innlendur banki sem var skylt að gera sérstakt eftirlit (know your customer check) á þeim félögum sem stóðu að viðskiptunum. Þessi félög urðu að skila inn margvíslegum staðfestingum á uppruna fjármagnsins og tilgangi fjárfestinganna. Öll þessi skjöl voru síðan yfirfarin af Seðlabankanum.
Fyrir þá sem á annað borð hafa hagnast með sviksamlegum hætti og komið peningum úr landi framhjá skattayfirvöldum og kröfuhöfum, er vægast sagt glórulaust að koma með þá peninga til baka í gegnum Seðlabankann. Slíkir fjármagnsflutningar myndu umsvifalaust kalla á athygli skattayfirvalda og kröfuhafa.
iii. Al Thani málið
Í bókinni er fjallað um Al Thani málið. Sá semþessar línur ritar var eins og rækilega er getið um í bókinni, upphaflega verjandi eins sakbornings í Al Thani málinu sem raunar var ekki ákærður.
Viðskoðun á því máli voru verjendur á einu máli um að eini hugsanlegi glæpurinn í málinu hefði falist í því að eftir að bankinn féll var Al Thani losaður undan persónulegum ábyrgðum. Því er reyndar lýst í bókinni að það hafi verið gert með þeim hætti að innstæða sem aflandsfélag í hans eigu átti inni á gjaldeyrisreikningi til að nota í svokölluð CLN viðskipti hefði verið ráðstafað með því að selja þá innstæðu á mjög háu gengi á aflandsmarkaði þann 8 október 2008 fyrir íslenskar krónur sem síðan voru notaðar til að greiða upp skuldfélagsins sem keypti hlutabréfin sem Al Thani var í persónulegri ábyrgð fyrir.
Hins vegar er ekki nefnt í bókinni að það var lykilvitni ákæruvaldsins í málinu, sem greiddi út umrædda fjármuni, en hann var eins og fram kemur í bókinni upphaflega handtekinn vegna málsins. Í niðurstöðu héraðsdóms var sakfellingin að miklu leyti byggð á framburði þessa vitnis.
Þetta gagnrýndi ég í grein sem ég skrifaði um Al Thani málið á árinu 2014 þar sem segir m.a.
„Sakfellingdómsins byggist því á framburði Halldórs Bjarkars um það sem fór fram í tveggjamanna tali hans og ákærða Hreiðars Más. Alla jafna hefur framburður eins vitnis um sök ekki sönnunargildi í sakamáli, án verulegs stuðnings í öðrum gögnum. Sönnunargildi slíks framburðar er ekkert ef vitnið er að koma sjálfu sér undan sök en fyrir liggur að vitnið fyrirskipaði útgreiðslu lánsins. Ef enginn yfirmaður gaf fyrirmæli um veitingu lánsins hefði vitnið framið hinn meinta refsiverða verknað. Síðan skiptir auðvitað verulega máli þegar metið ers önnunargildi vitna, hvort framburður þess sé stöðugur og samræmis gæti í meginatriðum frá upphafi til loka máls. Svo var ekki eins og sjá má af því sem rakið er hér að ofan.“
Hæstiréttur byggði hins vegar niðurstöðu sína á allt öðrum grundvelli og tók ekkert mark á lykilvitni ákæruvaldsins. Þetta lykilvitni er hins vegar einn af helstu heimildarmönnum bókarinnar.
Þessi grundvallarbreyting Hæstaréttar á forsendum héraðsdóms hefur verið gagnrýnd með þeim rökum að með því hafi málið í raun einungis verið dæmt á einu dómstigi. Réttast hefði verið að vísa málinu heim í hérað að nýju og vekja athygli á þeim atriðum í forsendum héraðsdómsins sem Hæstiréttur taldi að ekki væru unnt að leggja til grundvallar sakfellingu og benda á önnur atriði sem ástæða væri til að skoða betur.
Þá vakti það sérstaka athygli í Al Thani málinu að saksóknari málsins og formaður slitastjórnar bankans töldu að bankinn hefði hagnast á viðskiptunum, sem var ein meginröksemd verjanda í málinu.
iv. Markaðsmisnotkun
Við uppgjör á bankahrunsmálum blasir við að þau mál sem ákært var út af skiptu í raun engu máli. Það sem vantar í umrædd sakamál eru þessi kerfislægu mál sem breyttu atburðarrásinni og ollu hruninu.
Vandinn er sá að eftir að búið að er útvíkka verulega túlkun á umboðssvikaákvæðinu liggja fyrir mál sem skiptu engu máli um atburðarrásina til eða frá og eiga meira og minna rót sína að rekja til atvika á síðustu metrunum fyrir hrun.
Þau mál sem komast þó næst því að vera kerfislega mikilvæg eru markaðsmisnotkunarmálin. Á þeim eru þó líka ýmsir veikleikar, sérstaklega þeir að um var að ræða fyrirkomulag á viðskiptum sem hafði viðgengist með fullri vitneskju og án nokkurra athugasemda Kauphallar og Fjármálaeftirlitsins allt frá því að hlutabréfin voru upphaflega skráð á markað.
Öll viðskiptin voru tilkynnt til Kauphallar sem gerði engar athugasemdir við fyrirkomulagið. Eins og í Al Thani málinu var niðurstaða Hæstaréttar byggð á gerólíkum grundvelli frá niðurstöðu Héraðsdóms. Saksókn málsins byggðist upphaflega að verulegu leyti á svokölluðum kauphallarhermi sem tók marga daga að spila í héraðsdómi en var ekkert litið til í forsendum Hæstaréttar og raunar aldrei spilaður fyrir réttinum.
Hæstiréttur byggði á því að bönkunum hafi verið óheimilt að stunda viðskiptavakt og greiða fyrir viðskipti með eigin hluti sem var t.d. þvert ofan í niðurstöðu héraðsdóms og raunar einnig Rannsóknarskýrslu Alþingis sem tók sérstaklega fram að viðskiptin væru lögmæt en ekki heppileg.
Höfundur er ánægður með sjálfan sig
Höfundur getur ekki leynt því í bókinni hversu ánægður hann er með sjálfan sig. Jafnvel trúir því sjálfur að bókin séu uppfull af skúbbum og nýjum upplýsingum. Í kynningum á bókinni lét höfundur í veðri vaka að hann hefði nýjar upplýsingar um eignarhald Bakkavararbræðra á Dekhill Advisors. Þær sögur höfðu að vísu lengi verið alþekktar og við nánari lestur á bókinni kemur í ljós, að þessar „nýju upplýsingar“ höfundar reynast vera skoðun ónafngreindra starfsmanna hjá Skattrannsóknarstjóra.
Þetta verður að teljast skúbb aldarinnar. Kaupthinking er ekki gott nafn á bókinni. Nær væri að nefna hana „Málsvörn Sérstaks saksóknara“ eða „Eva Joly: I told you so“.
Höfundur er vel ritfær, en prófarkarlestur er í molum. Svo er slæmt að ekki skuli vera nafnaskrá í bók sem þessari.
Niðurstaða: Fyrir þá sem vilja rifja upp „fréttaflutning“ Kjarnans af hrunmálum er bókin eflaust kærkomin lesning. Fyrir hina má finna mun skemmtilegra og betur unnið efni í þeim fjölmörgu góðu bókum sem boðið er upp á þessi jólin.
Brynjar Níelsson.
Ps. Þeir sem eru að klóra sér í hausnum yfir fyrirsögn þessa pistils, ættu að rifja þetta mál upp.