Eftir Gunnar Ármannsson:
Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með þróun umræðunnar um Klausturmálið eftir að Marvin ákvað að upplýsa þjóðina um hver stæði að baki því dulnefni. Sérstaklega hefur mér fundist fróðlegt að fylgjast með ummælum sumra þeirra sem komu að gerð nýrrar stjórnarskrár og fylgismanna þeirra.
Eins og ég hef skilið málflutning þeirra þá hefur mér heyrst þeirra helsta gagnrýni, amk að hluta, snúa að því að þeir telji núgildandi stjórnarskrá ekki vernda borgarana með fullnægjandi hætti. Þeir eru að sjálfsögðu frjálsir þessarar skoðunar sinnar. En í þessu ljósi kemur það mér á óvart að þeir hinir sömu skuli þá ekki vilja framfylgja ákvæðum gildandi stjórnarskrár um vernd borgaranna þegar þau ákvæði eru brotin.
Þeim til málsbóta má þó væntanlega segja að í Klaustursmálinu eru atvik um margt öfgakennd og auðvelt að missa þráðinn í tilfinningahita tengdu því máli. Það breytir þó ekki því að flest hljótum við að vilja að leikreglum réttarríkisins sé fylgt en ekki að það sé valið úr eftir hentisemi hvenær ber að fara eftir lögum og hvenær ekki. Því ef slík aðferðafræði fær brautargengi skiptir í raun ekki öllu máli hvað segir í Stjórnarskránni hverju sinni.
Forðast ber afskipti af einkalífi manna
Ég er ekki í nokkrum vafa um að upptakan á Klausturbar var ólögmæt. Til að komast að þeirri niðurstöðu er nóg að líta til greinargerðar með 9. gr. l. nr. 97/1995 sem breytti friðhelgisákvæði Stjórnarskrárinnar. Greinargerðin öll er áhugaverð aflestrar og sýnir að stjórnarskrárgjafinn vildi á þessum tíma víkka verulega út þágildandi ákvæði um friðhelgi einkalífsins. Eftirfarandi ummæli stjórnarskrárgjafans taka af öll tvímæli:
„Með því að setja fram beina reglu um friðhelgi einkalífsins í 1. mgr. 9. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að skylda hvíli á ríkinu til að forðast afskipti af einkalífi manna og persónulegum högum. Þetta er þó ekki nægilegt til þess að menn fái í reynd notið friðhelgi einkalífs því hættan á að slík friðhelgi sé rofin stafar ekki eingöngu frá ríkinu, heldur einnig frá öðrum einstaklingum og einkaaðilum.
Af þessum sökum felur krafan um friðhelgi einkalífs ekki eingöngu í sér að ríkið gangi ekki á þennan rétt, heldur einnig að því sé skylt að setja reglur í löggjöf til verndar einstaklingunum í innbyrðis samskiptum þeirra. Á það einkanlega við um skyldu til að þessum réttindum einstaklinganna sé að vissu marki veitt vernd með ákvæðum refsilaga sem gera brot annarra einstaklinga á þessum réttindum refsiverð.
Skyldur ríkisins í þessum efnum eru þó ekki bundnar við að veita refsivernd, heldur má einnig nefna í þessu sambandi skyldur ríkisins til að binda í löggjöf skýrar reglur um öflun, skráningu og meðferð persónuupplýsinga hvort sem um er að ræða meðferð stjórnvalda eða einkaaðila á upplýsingunum og að einstaklingur eigi rétt til aðgangs að upplýsingum um sjálfan sig. Má segja að þörf á ákveðnum reglum um þetta svið hafi aukist mjög á undanförnum áratugum samhliða ört vaxandi tækni við öflun og meðferð persónuupplýsinga.
Við þessu hefur verið brugðist í íslenskri löggjöf með setningu laga um meðferð og skráningu persónuupplýsinga, nr. 121/1989, – nú lög nr. 90/2018 – þar sem skýrar reglur koma fram um þessi efni og eftirlit með framkvæmd laganna er falið sérstakri nefnd, tölvunefnd. Fleiri atriði falla tvímælalaust undir vernd einkalífs þótt þau séu ekki sérstaklega orðuð í 1. mgr. 9. gr. frumvarpsins, svo sem réttur manna til trúnaðarsamskipta við aðra.
Á þetta fyrst og fremst við um margs konar tjáskipti milli manna sem ekki er gerlegt að telja hér með tæmandi hætti, en nærtækustu dæmin eru þó bréfaskipti og tjáskipti augliti til auglitis eða í síma, svo og orðaskipti í símskeytum, skjölum sem fara um myndsendi og önnur slík fjarskipti.“
Engir einstaklingar undanþegnir, hvorki stjórnmálamenn né aðrir
Í ofangreindri umfjöllun stjórnarskrárgjafans eru engir einstaklingar undanþegnir, hvorki stjórnmálamenn né aðrir. Þá er verndin ekki takmörkuð við staði sem ekki teljast opinberir. Það er hins vegar annað mál að ef fjölmiðlar fá upplýsingar í hendur sem fengnar eru með ólögmætum getur önnur regla gripið inn í, sem er tjáningarfrelsisákvæði Stjórnarskrárinnar, sem veitir fjölmiðlum ríkari heimildir en öðrum til að birta upplýsingar sem þeir komast yfir.
Eins sannfærður og ég er um að upptakan hafi verið ólögmæt þá er ég jafn sannfærður um að fjölmiðlum var heimilt að birta upptökuna, eða amk hluta hennar, eins og hér stóð á. En það svarar ekki spurningunni um hvernig skuli meðhöndla mál uppljóstrarans. Ef uppljóstrarinn stígur ekki fram eða finnst með öðrum hætti reynir ekki á ábyrgð hans og þar með þarf ekki að skoða þennan anga málsins frekar. Uppljóstrarinn getur vel haft málefnalegar ástæður fyrir uppljóstrun sinni, t.d. óttast að yfirvöld aðhafist ekkert og mögulega svæfi mál. En hvað skal gera þegar það upplýsist hver uppljóstrarinn er?
Margar spurningar vakna
Á það að fara eftir því hver uppljóstrarinn er? Eða á það að fara eftir því hverju er uppljóstrað? Eða hverjir það eru sem í hlut eiga sem verið er uppljóstra einhverju um? Eða einhverju öðru, t.d. skoðanakönnun á netinu? Eigum við kannski að láta einstökum blaðamönnum eða ritstjórnum fjölmiðla að ákveða þetta? Eða valinkunnum álitsgjöfum?
Sem betur fer þurfum við ekki að velta þessu fyrir okkur með þessum hætti. Stjórnarskrárgjafinn hefur tekið af öll tvímæli með því að kveða á um að ríkinu beri að vernda borgarana. M.a með því að kveða á um að stjórnarskrárvörðum réttindum skuli veita vernd með ákvæðum refsilaga sem gera brot annarra einstaklinga á þessum réttindum refsiverð og jafnframt hvernig skuli fara með öflun, skráningu og meðferð persónuupplýsinga.
Það er ríkisvaldsins að framfylgja því eftir bestu getu að borgararnir fari að þeim lögum sem í landinu gilda. Ef grunur vaknar um refsivert athæfi ber ríkisvaldinu að rannsaka málið. Í því samhengi eiga allir að vera jafnir fyrir lögunum og það á ekki að fara eftir því hvort við höfum samúð með meintum brotamanni eða hvort við höfum óbeit á honum. Né heldur hverjar afleiðingarnar eru af brotinu.
Ef ríkisvaldið rannsakar ekki og saksækir eftir atvikum uppljóstrara, sem skýrir frá stjórnarskrárvörðum einkamálefnum annars manns eða manna, þá eigum við á hættu að allir geti alltaf átt það á hættu að vera hljóðritaðir og að það sé háð mati einstakra blaðamanna eða ritstjórna hvað teljist eiga erindi við almenning og hvað ekki. Telji einstaklingur á sér brotið er takmörkuð vörn í því þótt dómstólar komist löngu seinna að þeirri niðurstöðu að svo hafi verið þegar það sem leynt átti að fara hefur verið gert opinbert. Slíkt ástand gæti reynst kappsömum erfið freisting að standast til að búa til fréttir eða komast í fréttir.
Það er einnig vert að hafa í huga að telji einstaklingur sig verða vitni að fyrirhuguðu lögbroti eða fá upplýsingar um þegar framið lögbrot hefur sá hinn sami alltaf þann kost að upplýsa yfirvöld um málið, sé hann ekki bundinn sérstakri þagnarskyldu, án sérstakra afleiðinga fyrir hann sjálfan.
höf. er lögmaður og stundakennari við læknadeild HÍ um þagnarskylduákvæði.