Kórónaveirukvíðinn

Eftir Helmu Þorsteinsdóttur:

Þar sem við erum mjög mörg að kljást við allskonar kvíða dags daglega, þá er óhætt að segja að þessi Kórónavírus sé eins og olía á eldinn.

Skiljanlega er fólk hrætt við þetta og það ástand sem hefur skapast í heiminum. Og það er mjög eðlilegt að hafa áhyggjur, en þeir sem þekkja kvíða vita að áhyggjurnar verða svo mikið meira en áhyggjur, þetta getur orðið sjúklegt ástand, bæði andlegt og ekki síður líkamlegt.

Áhyggjurnar verða lamandi og við eigum það til að búast við því alversta og óttumst svo sannarlega að það muni gerast.

Þá er gott að skoða staðreyndir sem koma frá okkar færasta fólki sem hefur staðið sig svo vel, reynum að forðast að hlusta á alla þessa sjálfskipuðu sérfræðinga sem eru út um allt á netinu.

Reynum að takmarka það sem við lesum á fréttaveitunum. Hlustum á blaðamannafundina. Þar fáum við fréttirnar sem skipta máli og kvöldfréttir.

Reynum að forðast fréttir, greinar og samsæriskenningar sem magna upp óttann.

Við vitum öll að þetta er ekki góð staða og þetta er alvarlegt , en við skulum ekki gera þetta ennþá erfiðara með því að ala á ótta.

Reynum að njóta.

Reynum að passa að anda rétt, það skiptir mig mjööög miklu máli.

Reynum að forðast streitu eins mögulega mikið og við getum.

Gerum eitthvað sem okkur finnst skemmtilegt að gera.

Og fyrst og fremst þess njóta að vera með fólkinu okkar og hlustum á börnin sem heyra kannski bara það versta og hafa kannski mjög miklar àhyggjur.

Höfundur er listakona á Álftanesi.