Eftir Guðbjörn Guðbjörnsson:
Það er leið út úr þeim miklu ógöngum, sem Sjálfstæðisflokkurinn er óneitanlega í með aðeins 18-20% fylgi, og það sýna nýjar skoðanakannanir frá Þýskalandi, þar sem Kristilegir demókratar (CDU/CSU) eru komnir í 32% fylgi, eða svipað og allir stjórnarflokkarnir þar í landi samanlagt (Sósíaldemókratar/SPD 14%, Græningjar 14% og Frjálslyndir/FDP 4%).
En til þess að þetta gengi eftir, varð að skipta um stefnu í stórum málaflokkum. Friedrich Merz, sem hefur þó verið umdeildur fyrir að hafa sveigt stefnu flokksins til hægri eftir langvarandi og mikla vinstri slagsíðu dr. Angelu Merkel, nýtur ekki mikilla persónulegra vinsælda, en það gerir hins vegar ný stefna flokks hans, m.a. í útlendingamálum en einnig orkumálum.
Ég þreytist því ekki á að benda hægri mönnum á að stefnubreytingar er þörf. Ef stefnubreytingin kemur ekki til af góðu einu saman, þarf flokkurinn að horfast í augu við að setjast í stjórnarandstöðu og leyfa vinstri mönnum að keyra landið í þrot.
Það er mikill fórnarkostnaður fyrir þjóðina, en líklega það sem gerist eftir þingkosningar sem verða í síðasta lagi í vor.
Höfundur er yfirtollvörður og stjórnsýslufræðingur.