Lifi samkeppnin, lifi WOW. Hugsum jákvætt

Eftir Frosta Heimisson:

Umræða undanfarinna daga um Wow air er óvægin og ósanngjörn. Undir er framtíð farsællrar ferðaþjónustu Íslands og og stormasamt rekstraumhverfi einnar skærustu stjörnu Íslands út á við og einn af vísum blómlegrar ferðaþjónustubylgju sem nú skipar stærsta sess í tekjuöflun Íslendinga. Það er magnað að sjá hvernig Íslendingar, margir hverjir, vita alltaf betur þegar kemur að slíkum aðstæðum. Sleggjudómar og óábyrgar upphrópanir hjálpa lítið í slíkum aðstæðum. Það er eins og að sumir vilji hreinlega að samkeppninni sé útrýmt. Merkilegt alveg hreint. 

Skúli Mogensen tók stóra ákvörðun og mikla áhættu þegar hann ákvað að fara út í flugrekstur, um það verður ekki deilt. Meira að segja segir gamall brandari að leiðin að því að verða milljónamæringur sé að verða fyrst milljarðamæringur og kaupa svo flugfélag. Það að taka slíka áhættu er eitt, en að taka þá áhættu nær eingöngu með eigin fjármagni er allt annað. Það er auðvelt að leika sér að peningum annarra en allt annað að leggja allt undir. Það skilur þetta verkefni að mínu mati frá flestum öðrum. 

Óvissan er versti óvinur Skúla

Í bankahruninu var gott meira gert til að hlaupa undir bagga en nú er rætt. Kaupþing fékk ofan á margt 500m evra lán sem lauslega reiknast sem 75 milljarða króna sem hurfu út í buskann. Þetta var banki sem menn höfðu eignast á fölskum forsendum, myndu margir telja.

Á meðan berst Skúli við að ausa vatni úr því glæsilfleyi sem WOW var orðið að en er nú farið að leka. Óvissan er hans versti óvinur og þeim mun fleiri sem hætta að ausa, eykur aðeins á vandann. Hér þarf skýr svör um aðgerðir sem fyrst.

Þau okkar sem þekkja rekstur vita að vegurinn áfram er ekki alltaf beinn né sléttur. En þegar ég hugsa til árangurs Skúla og þeirrar staðreyndar að þúfan sem veltir hlassinu er spurning um að hver farþegi með félaginu kaupi aukreitis eitt samlokutilboð svo reksturinn standi á núlli, þá er nokkuð ljóst að hér snýst málið um herslumuninn, ekki meiriháttar björgunaraðgerðir. 

Ég vona innilega að WOW haldi velli. Ekki bara fyrir framtíð íslenskrar ferðaþjónustu heldur til að setja ofan í við þá svartsýnispúka sem nú láta höggin dynja á þeim sem líklega gerði mest fyrir þá. Það er vandlifað í hinum fullkomna heimi virkra í athugasemdum.

Frosti Heimisson framkvæmdastjóri.

Ég óska Skúla til hamingju með árangurinn sem hann hefur náð og heldur vonandi áfram. Einu sterkasta vörumerki Íslendinga bæði hér- og erlendis. Ég vona innilega að vandi félagsins leysist fljótlega, Íslendingum og samkeppninni til heilla. Ísland er vel staðsett tengihöfn milli Ameríku og Evrópu og því tækifæri megum við ekki sleppa. WOW er hluti af því, rétt eins og Icelandair sem hefur þróast til hins betra með breyttum aðstæðum. 

Ég get a.m.k. sagt að ég myndi klárlega kaupa auka samlokutilboð svo þetta gangi upp. Því þetta snýst ekki bara um samlokuna heldur allt sem henni fylgir. Afleidd störf og allt það. Höfum það í huga að 1500 manns starfa hjá WOW á meðan Arion telur 900 störf. Afleidd störf nema líklega tugþúsundum.

Lifi samkeppnin, lifi WOW. Hugsum jákvætt.

Ps. Ef þú ert sammála mér, máttu gjarnan deila þessari grein. Samstaðan er mikilvæg, það eru miklir hagsmunir í húfi.

Höfundur er framkvæmdastjóri.