Lífróður WOW: Hvort er Bjarni Smjagall eða Gollrir?

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra.

Eftir Marinó G. Njálsson:

Stundum getur tilveran verið alveg stórundarleg. Undanfarna daga hafa landsmenn getað fylgst með, nánast í beinni útsendingu, baráttu Skúla Mogensen, forstjóra WOW, við að halda fyrirtæki sínu á lífi.

Margir hafa horft til ríkisins og sagt að það væri alls ekki óeðlilegt að það styddi við WOW í gegn um þá erfiðleika sem það á við að etja. Rökin hafa verið, a.m.k. hjá mér, að með því væri ríkið að verja tekjustreymi til sín í formi skatta enda WOW örugglega flutt yfir 3 milljónir ferðamanna til landsins á síðustu árum þjóðarbúinu og ríkissjóði til hagsbóta.

Viðbrögð fjármálaráðherra hafa hins vegar verið mjög eindregin:

„Ríkissjóður leggur ekki fyrirtæki í áhætturekstri ekki til fjármuni.“

5. desember sl. lagði þessi sami fjármálaráðherra fram þingskjal 594 frumvarp til lag um Þjóðarsjóð. Í 1.gr. eru markmið lagana skilgreind, eins og hér segir:

„Markmið laga þessara er að treysta fjárhagslegan styrk ríkissjóðs til að mæta afleiðingum af meiri háttar ófyrirséðum áföllum sem þjóðarbúið verður fyrir.“

Í framsöguræðu fjármálaráðherra sagði hann m.a.:

„Sjóðnum er ætlað að gegna því meginhlutverki að vera eins konar áfallavörn fyrir þjóðina þegar ríkissjóður verður fyrir fjárhagslegri ágjöf í tengslum við meiri háttar ófyrirséð áföll á þjóðarhag, annaðhvort vegna afkomubrests eða vegna kostnaðar við viðbragðsáætlanir sem stjórnvöld hafa talið óhjákvæmilegt að grípa til í kjölfar áfalls eða til að varna því.“

Þetta er í samræmi við markmiðin í 1. gr. „..mæta afleiðingum af meiri háttar ófyrirséðum áföllum sem þjóðarbúið verður fyrir“.

Ekki rétt meiriháttar áföll?

Vissulega er ekki búið að stofna sjóðinn, en þjóðarbúið hefur á undanförnum mánuðum og sérstaka síðustu örfáa daga staðið frammi fyrir mögulegum „meiri háttar ófyrirséðum áföllum“.

Samt er það eindregin afstaða, að ríkissjóður muni EKKI koma WOW til hjálpar!

Þetta eru sem sagt ekki rétt „meiri háttar ófyrirséð áföll“!

Samt segir ráðherra, að hægt eigi að vera að nota sjóðinn „til að varna“ áfalli.

Marinó G. Njálsson.

Hann sagði líka á Alþingi í dag, að ríkissjóður væri búinn að leggja til hliðar 30 ma.kr. til að bregðast við, ef fjármálaáætlun stæðist ekki.

Þar sem Þjóðarsjóðurinn mun geyma peninga ríkissjóðs, þá sé ég ekki muninn á því að nota hluta af 30 ma.kr. á reikningi í Seðlabankanum eða „Þjóðarsjóði“ sem að hluta yrði geymdur á reikningi í Seðlabankanum.

Ég verð að viðurkenna, að ég skil ekki fjármálaráðherra. Eina stundina er hann Smjagall, bljúgur, auðmjúkur og vingjarnlegur, en hina er hann Gollrir hreytandi út úr sér hvössum orðum og vill ekki að neinn komist að gullinu hans.

HANS, ekki annarra.

„Ég Á ríkissjóð.“

„Ég RÆÐ.“

Ekki einu sinni hlunnfarnir öryrkjar fá pening úr „hans“ ríkissjóði, þó ríkið sé búið að viðurkenna mistök sín.

Nei, þeir fá að þjást fyrir frekjuna alveg örugglega fram á næsta ár, á sama hátt og fleiri þúsund starfsmanna WOW eiga að fá að þjást fyrir að dirfast að ráða sig til flugfélags sem er greinilega fjármálaráðherra ekki þóknanlegt.

Já, það er þetta með Þjóðarsjóðinn, sem fjármálaráðherra vill stofna, en hann vill ekki nota peninga ríkissjóðs til að verja ríkissjóði afkomubresti.

Gollrir var í þingsal í gær, þegar fjármálaráðherra skipti lit í pontu undir umræðu um málið.

„WOW kemst ekki í peningana MÍNA. Mér er alveg sama hvað ég sagði 5. desember, enda var það hátíðarræða, en nú er alvaran. Ég Á þessa peninga. Þeir eru MÍNIR.“

Frumvarpið og framsöguræðuna er að finna hér.

Höfundur er ráðgjafi.