Loksins er ég sátt við örin mín

Eftir Helmu Þorsteinsdóttur:

Á aldrinum 14-18 ára þá var ég búin að fara í þrjár mjög stórar erfiðar aðgerðir á mjöðm, þar sem lærleggurinn var sagaður í sundur og fætinum síðan snúið um margar gráður.

Ég var á hækjum í þrjú ár — já eða öll unglingsárin.

Fljótlega eftir fyrstu aðgerðina fann ég að það var ekki allt eins og það átti að vera.

Ég fékk ekki að að fara í röntgenmyndatöku af því að ég var bara að væla. Eftir að mamma barði í borðið mörgum vikum eftir að ég var farin að vera virkilega slæm, fékk ég loksins að fara í myndatöku og í ljós kom mikil streptókokkasýking sem hafði grasserað í beininu og var að éta mig upp og mikið holrúm myndaðist í lærleggnum.

Það var mikið sjokk að sjá myndirnar.

Ég hafði sem sagt verið að reyna að labba með lærlegginn nánast í sundur í rúma 6 mánuði. Allar skrúfur og plötur voru lausar með tilheyrandi kvölum og ég fékk að heyra að ég væri bara með svo rosalega lágan sársaukaþröskuld og að sennilega myndi ég aldrei getað eignast börn ef ég myndi ekki herða mig upp.

Í dag á ég þrjá fullkoma stráka.

Svona sýking getur verið lífshættuleg ef að hún fær að malla. Ég var orðin 39 kg og náföl og á leiðinni í bráðaskurðaðgerð, þó ekki út af vælinu í mér.

Einnig voru gerð mistök í aðgerðunum sem höfðu sínar afleiðingar og hafa enn.

En það sem hjálpaði mér var að teikna, reyna að teikna allar þjáningarnar í burtu.

Þessa teikningu var ég að finna eftir rúm 20 ár, ég gerði hana þegar ég var 17 ára.

Hún segir ansi margt.

Ég er svo óendalega þakklát fyrir að hafa farið þá leið og þroskast sem listakona, því það á stóran þátt í hvernig ég hef tekist á við áföllin og erfiðleikana sem ég hef gengið í gegnum.

Loksins er ég sátt við örin mín.

Þau voru óvinir mínir í svo langan tíma, en í dag eru þau merkið mitt um styrk.

Höfundur er listakona á Álftanesi.