Lýðurinn á rétt á upplýsingum

Eftir Ernu Ýri Öldudóttur:

Í lýðræðisríkjum er hugmyndin sú að lýðurinn ráði, eins og orðið lýðræði felur í sér. Stjórnvöld starfa í umboði lýðsins sem kýs talsmenn sína gagnvart þeim í lýðræðislegum kosningum, og stjórnarskráin leggur grundvöll að nánari útfærslu og framkvæmd þess umboðs.

Stjórnvöld starfa ekki aðeins í umboði, heldur einnig á framfærslu þess hluta lýðsins sem eru skattgreiðendur, fólkið sem gerir fyrirkomulagið mögulegt með því að borga fyrir það. Það er þó rétt að taka fram að ekki er full skörun á milli lýðsins sem byggir þjóðríkin og kosningabærra manna, kjósenda og skattgreiðenda þar, það er önnur umræða, en meirihlutaræðið gildir með fáeinum undantekningum.

Stjórnvöld hafa því stjórnina og völdin, eins og orðið sjálft lýsir svo vel.

Lýðurinn sem nýtir kosningarétt sinn hefur ákveðið að treysta þeim til að framkvæma einskonar meðaltalsvilja meirihlutans, ásamt því að gæta lýðsins í hlutverki varðanna – og í staðinn fá stjórnvöld fé og völd til þess.

Traust er góð og nauðsynleg forsenda allra samkomulaga, en sagan, líkt og reynsla margra í sínu persónulega lífi, segir okkur að ótakmarkað, blint traust og afneitun sé barnaleg heimska. Það má vera löngu ljóst að stjórnvöld treysta ekki lýðnum, sem lifir í eftirlitsþjóðfélagi sem aldrei fyrr, og ekki þýðir fyrir lýðinn að deila við stjórnvöld vegna sinna smæstu yfirsjóna.

En hverjir eiga þá að gæta varðanna?

Þessi spurning kom fyrst fram í verkum rómverska skáldsins Juvenal á fyrstu eða annarri öld, um hvernig ætti að koma í veg fyrir ótryggð í hjónaböndum með því að láta verði gæta ótrúrra eiginkvenna. En vörðunum má einnig spilla. Síðar hefur spurningunni endurtekið verið varpað fram í samhengi við traust og háttsemi valdhafa, en enginn hefur jafnmikil völd og stjórnvöld. Efist einhver um það, þá er rétt að benda á að enginn hefur heimildir til að stunda eftirlit, safna upplýsingum, heimta skatta, sekta, frelsissvipta og jafnvel taka fólk af lífi (í sumum ríkjum), nema stjórnvöld.

Maður gæti þá ímyndað sér að slíkum völdum fylgi mikil ábyrgð og að mikið traust þurfi til. Friðhelgi einkalífsins, eignarrétturinn, athafnafrelsi og rétturinn til lífs eru nefnilega allt stjórnarskrárvarin borgararéttindi, og án þeirra er lýðurinn varnarlaus gagnvart böðlum sem traustinu bregðast. Til að lýðurinn geti tryggt að stjórnvöld geri það sem óskað er eftir, hvorki meira né minna, og til að fullvissa sig um að farið sé eftir skipulaginu sem stjórnarskráin mælir fyrir um, þá þarf hvorttveggja um sig, tjáningarfrelsi og réttinn á upplýsingum um stjórnvöld og framferði þeirra.

Siggi hakkari með Julian Assange þegar allt lék í lyndi. 

Eins og ég hef áður nefnt, þá verður lýðurinn stundum uppvís að yfirsjónum, stórum sem smáum. Stjórnvöld taka þá í taumana og framkvæma miskunnarlaust eitthvað af áður ofantöldum aðgerðum, í krafti valdsins. En stjórnvöld eru þó ekkert annað en lýðurinn sjálfur, aðeins sá hluti hans sem fengið hefur völdin afhent í trausti. Þau eru því algjörlega fær um yfirsjónir, stórar sem smáar, eigi síður en hver annar. Til að lýðurinn fái rönd við reist gagnvart stjórnvöldum, þá þarf að vera unnt að upplýsa hann um þær yfirsjónir, þegar þær eiga sér stað. Lýðurinn þarf möguleikann á að geta tekið upplýstar ákvarðanir og brugðist við þegar valdhafar bregðast traustinu, undirstöðu valdsins.

Lýðurinn á rétt á að verða upplýstur (e. The Public Has The Right To Know).

Þýðing mögulegs framsals og ákæru á hendur Assange

Ástralski tölvuhakkarinn og verðlaunablaðamaðurinn Julian Paul Assange var handtekinn fyrir helgi, eftir að hafa setið í stofufangelsi í ekvadóríska sendiráðinu í London í sjö ár. Ástæðan fyrir handtökunni nú, var að hann hafði ekki mætt fyrir dóm í Bretlandi árið 2012, vegna framsalskröfu sænskra yfirvalda. Þar er hann ásakaður um kynferðisbrot gagnvart tveimur konum.

Erna Ýr Öldudóttir blaðamaður.

Assange er óknyttastrákur með skrautlega fortíð sem má rekja alveg til uppvaxtar hans, og voru sendiráðsmenn, að sögn, dauðfegnir að losna við hann.

Stutt viðkoma og tengsl Assange við Ísland væri efni í sápuóperu í nokkrum þáttum, en ótrúlegustu persónur og leikendur koma þar við sögu. Birgitta Jónsdóttir f.v. þingmaður, Siggi hakkari, Sveinn Andri Sveinsson stjörnulögmaður, Kristinn Hrafnsson fréttamaður, Datacell, Valitor, svo að einhverjir séu nefndir.

Spjót standa á Assange úr ýmsum áttum vegna ýmissa mála, en allt það er þó aðalatriðinu óviðkomandi. Í stóra samhenginu væri möguleg aðkoma hans og birting miðilsins Wikileaks á uppljóstrunum um svívirðileg ódæði stjórnvalda, á borð við morð á blaðamönnum og saklausum borgurum, þungamiðjan í þáttaröðinni – rauði þráðurinn.

Menn hafa byrjað að fjarlægjast og forðast nauðsynlega umræðu um tjáningarfrelsið og frelsi fjölmiðla í tengslum við Wikileaks þann tíma sem Assange hefur setið í stofufangelsinu, en í millitíðinni virðist hann viðriðinn birtingu gagnaleka frá Rússum, sem hökkuðu tölvupósta Demókrata fyrir síðustu forsetakosningar í Bandaríkjunum.

Stjórnvöld víða hafa róið að því öllum árum að sverta mannorð hans, sem er kannski ekki svo erfitt gagnvart óþekkum manni sem ýmsa fjöruna hefur sopið, og lítur út fyrir að vera orðinn allt að því vitfirrtur eftir langa vist í stofufangelsi. Líklegt þykir að bresk stjórnvöld muni verða við framsalskröfu Bandaríkjanna, þar sem hann verði jafnvel látinn svara fyrir njósnir og „ógn við þjóðaröryggi“, hið sígilda skálkaskjól böðlanna.

Blaðamenn og uppljóstrarar í heiminum, en ekki síst í Bandaríkjunum, eru nú uggandi um stöðu og hlutverk sitt sem „varðarins sem á að gæta varðanna“, en ekki verður annað séð en Assange og Wikileaks hafi einmitt verið að sinna því undirstöðuhlutverki hins frjálsa heims, með birtingu uppljóstrana um glæpi stjórnvalda. Nú gæti reynt af miklu afli á tjáningarfrelsið og frelsi fjölmiðla gagnvart stjórnvöldum, og munum við væntanlega fá að fylgjast með því leikriti spilast næstu misserin.

Höfundur er blaðamaður á Viljanum.