Eftir Jón Steinar Gunnlaugsson:
Landsréttur tók til starfa 1. janúar 2018. Löngu var tímabært að stofna þetta dómstig til að létta of miklu álagi af æðsta dómstólnum Hæstarétti. Sagt hefur verið frá því í fréttum að núverandi dómsmálaráðherra sé með fækkun dómara Hæstaréttar til athugunar. Þær hugmyndir að fækka þurfi dómurunum við réttinn eru sjálfsagðar og hafa verið uppi um margra ára skeið en ávallt sætt andmælum forseta réttarins.
Fyrir breytingarnar 2018 störfuðu 9 dómarar í föstum stöðum við Hæstarétt. Lá auðvitað fyrir að þeim yrði fækkað vegna stórfellds samdráttar í verkefnum réttarins. Sýnilega voru efni til að hverfa aftur til þess fjölda dómara við Hæstarétt sem skipuðu dóminn fyrst eftir stofnun hans árið 1920, en þá voru þeir 3 eða 5 talsins. Tekið var að fjölga þeim upp úr 1970 vegna málafjöldans sem þá hafði verið mjög vaxandi og varð síðar meginástæða þess að Landsréttur var stofnaður.
Fyrir tilverknað dómaranna í Hæstarétti var samt ákveðið að skipaðir yrðu 7 dómarar í réttinn eftir breytinguna 2018, en ekki 5 eins og bersýnilega hefði verið meira en nægilegt. Þetta hefur haft þau áhrif að eftir að Landsréttur tók til starfa hafa dómendur í Hæstarétti verið fleiri en þörf er á og hafa þeir því, eins og kunnugt er, sinnt öðrum störfum meðfram dómsstörfunum. Sumir þeirra eru meira að segja fast skipaðir í kennarastöður við lagadeild Háskóla Íslands. Aðrir hafa gegnt öðrum störfum, aðallega hjá ríkinu. Auk þess fá þeir miklu meiri tíma en áður til orlofsferða til annarra landa og hafa a.m.k. sumir þeirra nýtt sér þann möguleika.
Hvað segir samanburðurinn okkur?
Landsmönnum er flestum ljóst að brýn þörf er og hefur verið á því að spara útgjöld ríkisins. Það samrýmist varla viðleitni til þess, að hafa starfandi hátt launaða embættismenn, sem hafa ekki nóg að gera og geta þess vegna gamnað sér við aðra sýslan á kostnað ríkisins. Nú er liðinn nægur tími til að unnt sé að meta störf dómaranna og bera starfsálagið saman við stöðuna fyrir breytingarnar 2018. Við samantektina sem hér fylgir er eingöngu stuðst við ársskýrslur Hæstaréttar sem birtar eru eftirá um hvert ár fyrir sig. Af handahófi voru borin saman árin 2010 og 2022, þ.e. fyrir og eftir stofnun Landsréttar.
Þá kemur þetta m.a. í ljós:
Árið 2010 voru kveðnir upp 710 dómar en 60 dómar árið 2022. Dæmdum málum hefur því fækkað um 650 eða ca. 88%. Beiðnum um áfrýjunarleyfi hefur hins vegar fjölgað, en hafa verður í huga að vinna við afgreiðslu þeirra er miklu minni en við þau mál sem ganga til dóms. Ef fjölda þessara beiðna er bætt við fjölda dæmdra mála kemur í ljós að málunum fækkar (milli áranna 2010 og 2022) úr 767 í 232, þ.e.a.s. um meira en tvo þriðju hluta.
Að því er snertir starfsálag á einstaka dómara við Hæstarétt eru hér á eftir bæði taldir dómar og málsskotsbeiðnir. Gert er ráð fyrir að 5 dómarar sinni hverju máli þrátt fyrir að sjaldan sitji nema 3 við afgreiðslu málsskotsbeiðna. En þær eru, eina og áður sagði, miklu fleiri en áður eftir breytinguna 2018.
Í ljós kemur að árið 2010 tók hver dómari þátt í 426 afgreiðslum (bæði dómum og málsskotsbeiðnum) en árið 2022 í 165 afgreiðslum. Ef dómurum yrði fækkað í 5 myndi afgreiðslum á hvern dómara fjölga í 232. Hér minnkar fjöldi málanna um rúmlega 50% en þá ber að hafa í huga að afgreiðslur á málsskotsbeiðnum voru miklu fleiri á árinu 2022 en var á viðmiðunarárinu 2010.
Með fylgir fylgiskjal* með tölum úr ársskýrslum Hæstaréttar.
Það er hreinlega hneykslanlegt að stjórnvöld og löggjafi skuli láta undan kröfum Hæstaréttar um að 7 dómarar skuli skipa réttinn eftir fyrrnefndar breytingar, sem hafa haft í för með sér að þessir hátekjumenn ríkisins hafa haft jafn rúman tíma til starfa sinna og fram kemur í ársskýrslum réttarins. Þeir hafa bæði getað bætt við sig öðrum vel launuðum störfum, oft hjá ríkinu, og spókað sig í skemmtiferðum til útlanda. Þetta gerist á kostnað skattgreiðenda. Hér er að finna enn eitt dæmið um sóun á fjármunum ríkisins. Sýnilega þykir þeim sem um þinga sjálfsagt að skattgreiðendur beri kostnaðinn af lystisemdum dómaranna.
Höfundur er lögmaður og fv. hæstaréttardómari
*Fylgiskjal
Upplýsingar úr ársskýrslum Hæstaréttar Íslands.
Fjöldi upp kveðinna dóma og málskotsbeiðna í Hæstarétti fyrir og eftir stofnun Landsréttar, sem tók til starfa 1. janúar 2018.
Við stofnun Landsréttar var dómurum í Hæstarétti fækkað úr 9 í 7.
Hér er gerður samanburður á fjölda upp kveðinna dóma og málskotsbeiðna í Hæstarétti, annars vegar á árinu 2010 og hins vegar á árinu 2022.
Haft skal í huga að starf að málskotsbeiðnum er að jafnaði mun veigaminna en starf í dæmdum málum.
Árið 2010 voru kveðnir upp 710 dómar og 57 málskotsbeiðnir afgreiddar eða samtals 767 mál afgreidd. Settir voru 4 varadómarar til þess að setjast í einstök mál, líklega oftast vegna vegna vanhæfis fastra dómara.
Á árinu 2022 voru kveðnir upp 60 dómar og 172 málskotsbeiðnir afgreiddar eða samtals 232 mál afgreidd. Settir voru 11 varadómarar til að setjast í einstök mál. Ekki er líklegt að það hafi alltaf verið vegna vanhæfis fastra dómara.
Ef meðaltöl eru notuð við samanburð á starfsálagi einstakra dómara og gert ráð fyrir 5 dómurum í hverju máli (varadómarar ekki meðtaldir) lítur dæmið svona út og eru þá afgreiðslur málskotsbeiðna taldar með:
Árið 2010:
5 dómarar í 767 málum: Samtals 3835 afgreiðslur. Ef þeim er jafnskipt á 9 dómara hefur hver þeirra tekið þátt í 426 afgreiðslum.
Árið 2022:
5 dómarar í 232 málum: Samtals 1160 afgreiðslur. Ef þeim er jafnskipt á 7 dómara hefur hver þeirra tekið þátt í 166 afgreiðslum. Ef dómurum yrði fækkað í 5 myndi hver dómari taka þátt í 232 afgreiðslum.
Í tölunum hér að ofan er ekki talinn sá fjöldi mála, þar sem varadómarar voru settir. Þeir voru mun fleiri á árinu 2022 (8) en á árinu 2010 (4). Ekki er unnt að sjá í ársskýrslum réttarins í hve mörgum málum varadómarar sátu en þau hafa sýnilega verið mun fleiri á árinu 2022 en á árinu 2010. Eitt og sér er það mjög undarlegt því málin sem til meðferðar komu á árinu 2022 voru miklu færri en 2010.
Þessar upplýsingar ætti dómsmálaráðherra að hafa í huga þegar hann flytur frumvarp sitt um fækkun dómaranna.