Má bjóða þér að bera ábyrgð á orðum annarra?

Þemis er gyðja laganna í forngrískri goðafræði, hún er þekkt sem gyðja réttlætisins.

Eftir Arnar Þór Jónsson:

Í ætt­ar- og ætt­bálka­sam­fé­lög­um fyrri tíma var lífs­nauðsyn­legt að til­heyra stærri heild. Fé­lags­heild fjöl­skyldu, ætt­ar, sveit­ar eða héraðs veitti mönn­um styrk og stuðning gagn­vart aðsteðjandi ógn­um. Á móti urðu meðlim­ir slíks sam­fé­lags að und­ir­gang­ast fjölþætt­ar skuld­bind­ing­ar um holl­ustu og fórn­ir. Úr mann­kyns­sög­unni þekkj­um við mý­mörg dæmi um þær kröf­ur sem þessi sam­fé­lags­gerð lagði á ein­stak­ling­ana, svo sem að tala einni röddu út á við, auk sam­ræmdr­ar hátt­semi jafn­vel í smæstu atriðum.

Í þessu ljósi blas­ir við hve merk­um áfanga var náð þegar vest­ræn lög gerðu ein­stak­ling­inn að grunn­ein­ingu sam­fé­lags­ins. Að baki bjó viður­kenn­ing á því að maður­inn væri gædd­ur frjáls­um vilja og bæri ábyrgð í sam­ræmi við það. Með þessu var reisn hvers ein­asta manns viður­kennd án til­lits til ætt­ar og upp­runa.

Til að skilja bet­ur hví­líkt tíma­móta­skref þetta var má minna á að í stétt­skipt­um sam­fé­lög­um fyrri alda giltu iðulega ólík­ar regl­ur um menn eft­ir því hvaða stétt þeir til­heyrðu. Þannig leyfðist yf­ir­stéttar­fólki ým­is­legt sem lág­stétt­inni var refsað fyr­ir. Brot gegn höfðingj­um vörðuðu þyngri refs­ingu en ef vinnu­fólk átti í hlut. Úr ís­lenskri rétt­ar­sögu eru til þekkt dæmi um þetta sem birta al­var­leg­asta ágalla rétt­ar­kerf­is sem ger­ir slík­an mannamun, þ.e. að þar eru menn ekki jafn­ir fyr­ir lög­un­um.

Í stað al­mennra reglna eins og við nú þekkj­um var leyst úr mál­um á at­viks­bundn­um grunni. Sam­hliða því að viður­kenna „full­veldi“ hvers ein­asta manns voru al­menn­ar regl­ur leidd­ar fram, regl­ur sem all­ir þurftu að lúta. Þar með varð til vís­ir að nú­tímarétt­ar­ríki, þar sem stjórnað er með lög­um en ekki geðþótta. Til að standa und­ir nafni þurfa lög rétt­ar­rík­is að vera nægj­an­lega al­menn, skýr og án mót­sagna, op­in­ber­lega birt, fram­virk (en ekki aft­ur­virk). Fleiri atriði mætti nefna sem lág­marks­for­send­ur þess að lög geti gegnt því hlut­verki sínu að tryggja ör­yggi, frið, sann­girni og fyr­ir­sjá­an­leika.

Arnar Þór Jónsson.

Rétt­læt­is­gyðjan er mynd­ræn lýs­ing rétt­læt­is­ins eins og það hef­ur þró­ast í vest­rænni laga­hefð. Rétt­læt­is­gyðjan er auðvitað ekki raun­veru­leg per­sóna, aðeins tákn­mynd hinna æðstu hug­sjóna um rétt­lætið. Þannig held­ur hún ekki aðeins á vog­ar­skál­um þar sem rök­semd­ir eru vegn­ar og metn­ar, held­ur einnig á sverði rétt­læt­is­ins sem hún beit­ir til að höggva á hnúta.

Gyðjan stend­ur einnig oft með ann­an fót­inn á lög­bók til marks um það að hún dæmi ekki af geðþótta held­ur á grunni laga og sann­leika. Þá stend­ur hún jafn­an ofan á höfði högg­orms, til að minna á að dóm­ar henn­ar skuli vera óspillt­ir. Síðast en ekki síst er gyðja rétt­læt­is­ins svipt sýn til að und­ir­strika að rétt­lætið er blint og ger­ir ekki mannamun. All­ir skulu sitja við sama borð þegar rétt­læt­inu er út­deilt, all­ir fá áheyrn, all­ir fá sama tæki­færi til að koma sjón­ar­miðum sín­um á fram­færi, jafnt háir sem lág­ir, án til­lits til stétt­ar, stöðu, ald­urs, kyns eða ein­kenna sem á öðrum vett­vangi eru notuð til að draga menn í dilka og aðgreina hvern frá öðrum. Ég skrifa þetta til að minna á að þess­um viðmiðum er að sjálf­sögðu ætlað að gilda víðar en fyr­ir dómi.

Rík­ar sögu­leg­ar ástæður eru fyr­ir því að rétt­lætið á að vera blint

Mörg sam­fé­lög fyrri alda og jafn­vel enn í dag gera laga­leg­an grein­ar­mun á fólki eft­ir stétt, stöðu, út­liti og upp­runa. Var­huga­verð dæmi úr okk­ar eig­in heims­hluta sýna því miður að enn er stutt í slíka „ætt­bálka­hugs­un“ meðal manna sem þó búa við þau for­rétt­indi sem vest­ræn lýðræðis- og stjórn­skip­un­ar­hefð veit­ir að form­inu til.

Það hef­ur kostað mikla fyr­ir­höfn, fórn­ir og tíma að koma rétt­ar­ríki á fót, þar sem all­ur vafi er túlkaður söku­naut í vil, þar sem sá sem ber ann­an mann sök­um eða set­ur fram staðhæf­ing­ar ber sönn­un­ar­byrði fyr­ir full­yrðing­um sín­um. Erfðaein­kenni þess sem ber fram ásak­an­ir á hend­ur öðrum breyta engu í þessu sam­hengi, ekki frem­ur en að erfðaein­kenni sakaðs manns eigi að hafa áhrif rétt­ar­stöðu hans.

Á fyrri öld­um voru forfeður og for­mæður okk­ar allra vafa­laust beitt ým­iss kon­ar órétti. Jafn­vel þótt menn telji sig geta reiknað út á hverja hafi sér­stak­lega verið hallað í ald­anna rás verður ekki bætt fyr­ir það með þvi að beita núlif­andi fólk, sem upp­fyll­ir viðmið um til­tekið út­lit eða kyn­ferði, sams kon­ar órétti í þágu þeirra sem hafa önn­ur erfðaein­kenni. Ný lög­brot verða ekki rétt­lætt með vís­an til gam­als órétt­læt­is.

Ógn skríl­ræðis er aldrei langt und­an

Kjós­end­ur, með aðstoð fjöl­miðla, þurfa að vara sig á lýðskrumur­um sem slá um sig með því að stilla sér upp sem málsvör­um til­tek­ins „hóps“ sem eigi í stríði við ann­an „hóp“. Skrum þarf að af­hjúpa og það er sjaldn­ast erfitt. Ein leiðin er að skipta merkimiðum „stríðandi fylk­inga“ út fyr­ir „hvíta“ og „svarta“ eða „Þjóðverja“ og „Gyðinga“.

Í þessu ljósi er t.d. uggvæn­legt að dós­ent í alþjóðasam­skipt­um við Há­skóla Íslands treysti sér til að full­yrða, á málþingi um kven­fyr­ir­litn­ingu, þögg­un og tví­skinn­ung í ís­lenskri stjórn­mála­orðræðu, að orðræða nokk­urra þing­manna á vín­veit­inga­húsi sé dæmi um „hel­stríð og dauðat­eygj­ur feðraveld­is­ins“.

All­ur al­menn­ing­ur þarf að vera á varðbergi gagn­vart slík­um vafa­söm­um staðhæf­ing­um, auk þess sem fjöl­miðlum ber að rækja hlut­verk sitt með gagn­rýn­um spurn­ing­um og áskor­un­um um gild­ar rök­leiðslur.

Áminn­ing­in er þessi: Ein meg­in­und­ir­staða rétt­ar­rík­is­ins er sú að menn beri sjálf­ir ábyrgð á orðum sín­um og gjörðum. Hin hliðin á þess­um sama pen­ingi er að eng­inn skuli vera dæmd­ur fyr­ir orð eða at­hafn­ir annarra.

Þótt þessi meg­in­regla sé ekki án und­an­tekn­inga frek­ar en aðrar meg­in­regl­ur hafa menn af bit­urri reynslu horfið frá því að refsa ein­um fyr­ir at­hafn­ir ann­ars. Sag­an geym­ir mörg víti til að var­ast í þess­um efn­um, þar sem ætt­ir, trú­ar­hóp­ar og jafn­vel heilu þjóðirn­ar hafa sætt út­skúf­un og of­sókn­um vegna verka eins meðlims „hóps­ins“.

Til að aftra því að slíkt end­ur­taki sig og til að halda aft­ur af þeirri ríku ætt­bálka­hugs­un sem áður var nefnd hafa blaðamanna­fé­lög beggja vegna Atlantsála skuld­bundið sig með siðaregl­um til að sneiða hjá notk­un hvers kyns staðalí­mynda (e. st­ereotyp­ing) í um­fjöll­un sinni. Dæm­in sanna að óprúttn­ir menn nota „steríótýp­ur“ í þeim til­gangi að valda skamm­hlaupi í rök­hugs­un og jafn­vel til að ýta und­ir for­dóma í nafni for­dóma­leys­is.

Jón Gnarr í upphafssenu Áramótaskaupsins.

Allt of­an­greint kom mér í hug þegar ég horfði á ára­móta­s­kaup RÚV 31. des­em­ber sl. Hef­ur bar­átta margskon­ar hópa fyr­ir viður­kenn­ingu og rétt­ind­um leitt af sér þá stöðu að við sjá­um nú aðeins tré en eng­an skóg? Höf­um við m.ö.o. misst sjón­ar á því meg­in­mark­miði lag­anna að tryggja jafn­ræði allra fyr­ir lög­un­um? Hef­ur áhersla á sér­stöðu og sérrétt­indi leitt til þess að mann­rétt­ind­in eru að snú­ast upp í and­hverfu sína, þ.e. stuðla að ófrjáls­lyndi í stað frjáls­lynd­is, að reiði í stað jafnaðargeðs, að dóm­hörku í stað mildi, að for­dóm­um í stað umb­urðarlynd­is? Má sem sagt skrum­skæla til­tekna hópa með notk­un staðalí­mynda sem ekki má nota um aðra? Leyf­ist dag­skrár­gerðarmönn­um RÚV að nota steríótýp­ur til að færa ávirðing­ar til­tek­inna manna yfir á alla koll­ega þeirra? Er það í lagi út frá skyld­um fjöl­miðla og get­ur það tal­ist fyndið – eða bara mjög ósmekk­legt? Er ekk­ert at­huga­vert við að rík­is­fjöl­miðill, sem fjár­magnaður er af öll­um al­menn­ingi, sé nýtt­ur til slíkr­ar sak­bend­ing­ar?

Hér er mikið í húfi. Ef menn vilja hverfa frá því að bera fyrst og fremst ábyrgð á eig­in yf­ir­sjón­um – og taka þess í stað upp forn viðmið um víðtæk­ari ábyrgð ætta eða hópa – mega þeir gjarn­an vita að slíkt skref er ekk­ert grín, held­ur mesta al­vöru­mál.

Höf­und­ur er héraðsdóm­ari.