„Mamma, hvað er að afa?“– „Afhverju líður honum svona illa?“

Elsku pabbi og Magnea ❤️

Eftir Helmu Þorsteinsdóttur:

Það er ekki alltaf allt sem sýnist. Þessi mynd hér að ofan lýsir fallegu, hamingjusömu og glöðu fólki. Þau áttu yndislegt heimili, héldu dásamleg jólaboð, ferðuðust um landið á húsbílnum sínum, fóru til útlanda. Voru í góðri vinnu og áttu flottan bíl og stóra fjölskyldu, börn og barnabörn og góða vini.

Þau höfðu það í rauninni mjög gott, …. en skyndilega missti Magnea heilsunu — geðheilsuna, það gerði pabbi minn líka. Það var svo erfitt að horfa á fólkið sitt vera komið á þann stað að það vildi ekki lifa.

Magnea tók sitt eigið líf hinn 4. ágúst 2011, þann dag fór allt á hvolf.

Pabbi þraukaði í fimm ár, í sorg og kvíða — hvert andartak var honum óbærilegt.

Hvernig svarar maður svona spurningum? „Mamma hvað er að afa?“, „Afhverju líður honum svona illa?“, „Hvað getum við gert til að afa líði betur?“

Þetta voru spurningar sem strákarnir mínir spurðu mig svo oft, þeir höfðu svo miklar áhyggjur af afa sínum.

Það var svo vont að geta ekki gert neitt.

Þann 6. júní 2016 tók pabbi minn sitt eigið líf, hann gat ekki meira. ❤️

Ég minnist þessa dags með hryllingi. Ég var ein heima með strákunum mínum þegar ég fékk skilaboð.

“HRINGDU STRAX!“

Ég byrjaði að nötra, óttinn við að heyra það sem mig grunaði var að fara með mig.

„Hæ Helma mín , hann pabbi þinn er dáinn”.

Heimurinn hrundi yfir mig, beint fyrir framan litlu strákana mína, ég féll í gólfið og hafði ekki mátt til að gera neitt.

„Mamma hvað er að?“.

Óttinn í augunum á þeim var engu líkur.

Hvernig fer ég að því að segja þeim hvað gerðist? Afastrákunum sem dýrkuðu og dáðu afa sinn. Þarna lá ég hjálparlaus, vonlaus og gjörsamlega týnd með tilfinningar sem voru of erfiðar, svo erfiðar að það var vont að draga andann.

En ég reis á fætur. Það var það eina sem var í boði, ég varð að standa upp og knúsa þá og hugga. Ég ákvað þá að segja þeim sannleikann, hann er alltaf bestur fyrir alla. Ég þurfti að vera sterk; ég hef þurft að vera sterk í gegnum tíðina, en núna þurfti ég að vera sterkari en allt.

Á einhvern hátt fær maður óskiljanlegan styrk þegar maður er við það að brotna i þúsund mola.

Fyrir kvíðapésa eins og mig sem hefur verið með kvíða frá því að ég var barn er þetta ansi strembið. Enn þann dag í dag fæ ég risa hnút, hjartslátturinn fer upp úr öllu valdi í hvert skipti sem ég fæ skilaboð send í símann minn eða þegar síminn hringir.

Eftir svona áfall fer maður að efast um allt og á alltaf von á því versta.

Sorgin fer með mann á staði sem maður hefur aldrei farið á áður.

Fight or flight“ heitir ástandið sem ég fór í og það þarf ekki nema smá hljóð eða lykt eða tiltekin orð til að koma mér aftur í það ástand, aftur og aftur og aftur. Með tíð og tíma lagast það vonandi og hluti af bataferlinu er að deila reynslunni, segja frá.

Helma Þorsteinsdóttir.

Það er einmitt það sem ég er að gera nú.

Ég hafði gengið í gegnum þetta fimm árum áður , þegar Magnea stjúpmóðir mín fór sömu leið. Allar tilfinningar eiga rétt á sér þegar maður er í áfalli eða syrgir og í staðinn fyrir að vera reið út í pabba hef ég ákveðið að vera hamingjusöm eða reyna allt til að vera það, og þakka pabba fyrir allt sem hann hefur gert.

Já, bara að vera þakklát fyrir allt, þó svo að ég sakni hans á hverjum degi og þó svo að hann hafi skilið mig eftir í spurningaflóði.

Hann gat bara ekki meira. Hann lifði og hann dó.

Hann dó úr sjúkdómi sem getur verið illvígur.

Þetta ferli er skóli sem kennir manni margt og mikið um lífið og tilveruna — hann er virkilega erfiður. En lífið er ekki auðvelt, slæmir hlutir gerast og þannig er það bara.

Ég held að pabbi sé stoltari af mér núna en hann hefur verið nokkru sinni fyrr. Hann hefur aðra sýn núna og vakir yfir mér og mínum.

Í dag trúi ég því að hann sé sáttur og sæll.

Laus við kvíðann og þjáningarnar sem voru honum ofviða.

Hvað er betra en vita af fólkinu sínu á betri stað, laust úr viðjum erfiðra veikinda?

Helma er listakona og býr á Álftanesi.