Eftir Dmitri Antonov:
Markaðssetning ríkisstjórnarinnar á orkupakkanum hefur verið nokkuð blátt áfram. Til að byrja með var greinilegt að kanna átti jarðveginn varðandi slagorð og finna það sem skilaði bestum árangri. Farið var af stað með „orkupakkinn skiptir ekki máli“ og „við erum búin að skoða þetta alveg nógu lengi“. Ljóst varð þó fljótt að hvorugt hitti nægilega vel í mark og því varð úr að einblína heldur á EES-samninginn og reyna að blása upp hvaða afleiðingar það hefði fyrir hann ef orkupakkanum yrði hafnað.
Nú er það svo að báðar hliðar geta auðveldlega beitt því fyrir sig að EES-samningurinn komist í uppnám, hvort sem við samþykkjum eða höfnum orkupakkanum. Ástæðurnar fyrir stuðningsmenn orkupakkans snúast um pólitík en andstæðingar hans setja lögfræðileg vandamál á oddinn. Segja má að lítið mál sé að verja hvorn pólinn fyrir sig og því ber að taka þessum áróðri með fyrirvara og í raun líta framhjá honum.
Þegar kalt mat er lagt á rökin með og á móti orkupökkum ESB í heild er augljóst að rökin á móti eru töluvert sterkari, þ.e.a.s. ef áhugi fyrir inngöngu í ESB litar ekki gleraugun. Það verður þó að segjast að markaðssetning þeirra hópa sem standa á móti pakkanum er ekki hálfdrættingur á við þá sem eru með honum. Vissulega hjálpar það ríkisstjórninni að hafa ríkisfjölmiðilinn í vasanum og erfitt getur reynst að horfa framhjá því að hann sé hlutdrægur þegar hver fréttaþátturinn á fætur öðrum boðar ágæti orkupakkans og smalar saman áhugafólki sem lofar hann í bak og fyrir.
Maður er nefndur Friðjón
Einn þessara áhugamanna er almannatengillinn Friðjón R. Friðjónsson sem er eigandi og framkvæmdastjóri ráðgjafaskrifstofunnar KOM. Það er þó ekki það eina sem prýðir ferilskrána hans, en Friðjón situr jafnframt í miðstjórn Sjálfstæðisflokksins sem formaður upplýsinga- og fræðslunefndar. Auk þess er hann fréttatengill fyrir fyrirtækið Atlantic Superconnection sem er í startholunum að leggja sæstreng til Íslands og mikið hefur verið fjallað um í fréttunum í gær og í dag.

Mig langar að taka hattinn ofan fyrir Friðjóni — sem markaðssérfræðingur ber ég virðingu fyrir vel unnum störfum og hann hefur staðið sig mjög vel í því sem viðkemur orkupakkanum. Hann er svo sannarlega búinn að hitta í mark með þá áherslupunkta sem hann hefur valið í sinni markaðssetningu en þó set ég spurningamerki við umræðurnar sem hann tók þátt í í Silfri Egils, hvar andstæðingar orkupakkans voru tengdir við Trumpisma og einangrunarhyggju. Slíkur málflutningur er engum til prýði.
Það hefur verið áberandi í umræðunniað þeir sem standa á móti orkupakkanum séu ásakaðir um rangfærslur og áróður. Þó stóð Guðlaugur Þór Þórðarsson utanríkisráðherra sjálfur í ræðustól á Alþingi á föstudaginn og vændi stjórnmálaflokk í Noregi, ásamt samtökum þar ytra, um að standa í miklum áróðri gegn orkupakkanum. Í kjölfarið líður ekki helgin áður en svar berst frá Norðmönnunum þar sem þessum ásökunum er hafnað og bent er á að vitað sé til þess að ríkisstjórn Noregs hafi beitt ríkisstjórn Íslands mikilli pressu að samþykkja orkupakkann.
Var það þá Guðlaugur sjálfur sem tók við áróðri að utan og reyndi að spegla það yfir á andstæðinga orkupakkans? Erfitt að segja, en það lítur þó út fyrir það.
Misjafnlega vönduð markaðssetning
Það er nefnilega þannig með markaðssetningu, eins og svomargt annað, að hún getur verið misjafnlega vönduð. Í sumum tilfellum ermarkmiðið ofar meðalinu og skiptir þá ekki endilega máli hvað er sagt eða settfram svo framarlega sem það beri árangur. Auðvitað hefur stór hluti af því semráðherra hefur borið á borð verið hárrétt en það gildir þó ekki um allt eins ogNorðmennirnir ráku sig illilega á nú um helgina. En hvernig á almenningur aðátta sig á hvað er rétt og hvað ekki? Jú, með því að skoða gögnin og til þessþarf hann tíma.
Vil ég því að lokum taka undir orð Ragnars Þórs Ingólfssonar formanns VR:
„Ég skora jafnframt á ríkisstjórnina að fresta málinu fram á haust og bið um að þjóðin fái andrými til að kynna sér málið betur.
Við kjósendur hljótum að geta gert þá kröfu þegar svo stór og umdeild mál, er snúa að auðlindum þjóðarinnar og grunnstoðum samfélagsins, eru til umfjöllunar og hafa ekki fengið efnislega umræðu í aðdraganda kosninga.
Okkur getur varla legið svo mikið á að ekki megi slá þessu á frest til haustsins.“
og skora jafnframt á fólk að setja Like við áskorun til þingforseta á Facebook og stuðla þannig að frestun þessa stóra máls.
Höfundur er markaðssérfræðingur.