Eftir Jóhannes Björn:
Hrunadansinn á fjármálamörkuðum heimsins hefur náð stigi vissrar vitfirringar. Peningaverkfræði — hringl fram og til baka með pappírsverðmæti — ræður algjörlega ferðinni og skuldapýramídinn er orðinn svo óstöðugur að meiri háttar leiðrétting liggur í loftinu.
Það er reyndar kraftaverk að þessi Ponzi hagfræði skuli ekki hafa gengið af sjálfri sér dauðri fyrir mörgum árum, en það má greinilega lengi lengja í hengingarólinni í heimi þar sem seðlaprentun hefur náð nýjum hæðum og fyrirtæki í taprekstri geta árum saman hlaðið upp nýjum skuldum.
Í dag velkjast pappírar í hagkerfi heimsins, skuldabréf sem bera NEIKVÆÐA VEXTI, upp á $13 trilljónir (evrópskar billjónir). Svo einkennilega sem það annars kann að hljóma, þá hafa einhverjir aðilar vísvitandi tapað á bréfum sem þeir hafa keypt fyrir upphæðir er samsvara um þriggja ára þjóðarframleiðslu Þýskalands.
Fáránleikinn er augljós ef maður sér fyrir sér einstakling sem í dag gengur inn í banka með milljón í vasanum og fær að binda milljónina til 10 ára gegn því að fá t.d. 980 þús. til baka árið 2029. Svissnesk ríkisskuldabréf, sem dæmi, bera núna neikvæða vexti yfir línuna — allt til 50 ára!
Innlánsvextir í svissneskum bönkum eru líka neikvæðir.
Ruglið sem stanslaus seðlaprentun helstu seðlabanka heimsins hefur skapað tekur þó út yfir allan þjófabálk í Evrópu þar sem 16 fyrirtæki í ruslaflokki (metin undir BBB) hafa verið að selja ruslabréf sem bera neikvæða vexti. Það er verið að borga með ruslabréfum sem ruslafyrirtæki gefa út! Og Evrópubankinn er þessa dagana að lofa því að prenta meira og kaupa enn fleiri pappíra með svokallaðri magnaukningu.
Þetta getur ekki endað nema með skelfingu.
Hér áður fyrr stofnuðu menn fyrirtæki sem framleiddu vörur eða seldu þjónustu. Til þess að dafna urðu þessi fyrirtæki að græða og safna í sjóði. Í dag notar vaxandi fjöldi fyrirtækja hins vegar viðskiptamódel sem gengur út á að tapa peningum. Tesla og Netflix eru dæmi um þessi nýju föt keisarans, en það eru þúsundir minni „einhyrninga“ (eins og sumir kalla þessi fyrirtæki sem búa í skýjaborgum) sem ætla sér að vinna upp tapið með vaxandi veltu í framtíðinni. Þessi tegund fyrirtækja fer hroðalega út úr næstu efnahagslægð þegar lánalínur frjósa; við sjáum þau fá sömu útreið og tæknifyrirtækin fengu árið 2000.
Peningaverkfræðin er hvergi augljósari en þegar fyrirtæki hamstra sín eigin hlutabréf. Fyrir tíð Reagan forseta voru reglur um þessi „viðskipti“ frekar strangar og 1980 keyptu fyrirtæki eigin hlutabréf fyrir $5 milljarða. Árið 2005 keyptu þau fyrir $349 milljarða og 2018 var talan rokin upp í $1100 milljarða.
Hvers vegna þróuðust hlutirnir svona? Yfirmenn stórfyrirtækja fá bónusa greidda í hlutabréfum (rétti til að kaupa þau á ákveðnu lágmarksverði) og ekkert lyftir verðinu hraðar en að kaupa sjálfan sig. Bæði eykur það eftirspurn og dregur úr heildarmagni hlutabréfa sem aðrir geta boðið í.
Við allt þetta bætist fordæmalaust afleiðubrask stórbanka, þar sem enginn hlekkur er sterkari heldur en sá veikasti. Deutsche Bank, sem virðist hægt og bítandi stefna í einhvers konar gjaldþrot, situr t.d. með afleiðusamninga fyrir um $40 trilljónir í bókhaldinu. Þjóðarframleiðsla Þýskalands var $4,28 trilljónir 2017 og ríkið ætti í fullu fangi með að bjarga Deutsche ef eitthvað klikkar á afleiðumarkaði.
Við erum komin á 1929, 2000 og 2008 svæðið.
Höfundur er rithöfundur, búsettur í Bandaríkjunum.