Eftir Helmu Þorsteinsdóttur:
Ég er að verða fertug og èg hef aldrei drukkið áfengi, aldrei orðið þunn.
Sem betur fer.
Ég get skemmt mér vel og verið úti alla nóttina ef ég vil og talað við fólk án þess að þurfa áfengi til.
Já, og tala nú ekki um að geta bara hoppað upp í bíl og keyrt heim.
Mín ákvörðun að drekka ekki er persónuleg, heilsusamleg ákvörðun sem fólk ætti bara fagna en ekki hneykslast á.
Þegar mér er boðið í glas og èg afþakka, verða viðbrögðin oft skrítin og ég fæ allskonar spurningar.
Algengasta spurningin er: „Hvað ertu búin að vera edrú lengi?“
Oftast hefur fólki þótt svarið mitt skrítið og spurt afhverju, og hvað hafi eiginlega gerst?
Sjaldnar er mèr klappað á bakið og hrósað fyrir það að hafa tekið þessa ákvörðun.
Oft hefur það flogið í gegnum kollinn á mér að ég hljóti bara að vera leiðinleg týpa, en er virkilega skrítið að drekka ekki einhvern vökva sem getur breytt því hvernig mér líður og hvernig ég haga mér?
Sem kostar þar að auki mikla peninga og oft mikið vesen.
Maður fær ósjálfrátt stimpil sem óvirkur alki (sem er ekkert athugavert við, bara frábært að fólk fari þá leið og leiti sér hjálpar), ef maður útskýrir ekki forsendurnar að baki þessari ákvörðun, því það er miklu algengara að vera edrú óvirkur alki, en að vera edrú og hafa aldrei drukkið.
Á unglingsárunum mínum hafði ég bara allt annað að gera en að fikta við áfengi, ég eyddi þeim á hækjum eða að jafna mig eftir aðgerðir sem gengu ekkert of vel. Fyrir mig var þetta bara aldrei spurning; mig langaði aldrei að drekka, löngunin kom aldrei. Seinna meir þá leið ekki sú helgi að ég færi ekki í bæinn — var nánast eins og húsgagn á sumum skemmtistöðum, en alltaf var ég samt bláedrú innan um fólk sem var að skemmta sér og leið bara mjög vel með það, það var ekkert eðlilegra en að drekka ekki.
Og ekki spillti fyrir að sjá fólk hálf hauslaust veltandi um Austurstrætið kl 3 um nótt, suma ælandi, aðra í slagsmálum eða að rífast — jú og suma svaka hressa. En þeir sem voru í annarlegasta ástandinu, maður man mest eftir þeim.
Fólk sem drekkur ekki skuldar engum útskýringu fyrir eins eðlilegri ákvörðun eins og þeirri að vera edrú.
Sumir kjósa að vera td vegan, aðrir kjósa að vera edrú. Ég kýs að vera edrú og góð fyrirmynd.
Staðreyndin er sú samfélagið sem að við búum í gerir ráð fyrir áfengi, það er allstaðar.
Það er ekkert partý nema áfengi flæði út um allt, ég hef farið í matarboð þar sem það var ekkert óáfengt til að drekka nema vatn (sem er ekkert nema hollt og gott) og svo er maður bara ekki töff nema maður pósti að minnsta kosti einni mynd á Instagram með áfengan drykk í hönd.
Ég tek það skýrt fram að ég hef ekkert á móti fólki sem drekkur áfengi, langt því frá. Svo framarlega að það komi vel fram við mig og mína — þá er ég sátt.
Helma er listakona og býr á Álftanesi.