Myrkrið dró pabba minn niður og að lokum til dauða

Pabbi með mig litla. Dýrmæt minning sem lifir.

Eftir Völu Yates:

Ef pabbi hefði vitað það sem ég veit í dag, hefði hann kannski ekki framið sjálfsvíg.

Hann vildi ekki stimpla sig alka. Það vill enginn stimpla sig fíkil. Þá er maður orðinn utangarðs. Vandamál. Og þú getur ekki læknast. Þú verður alltaf fíkill og þarft að læra að lifa með því, sífellt að passa þig að “falla ekki”, að detta ekki aftur ofan í gryfjuna sem bíður þín alls staðar og ef þú ert ekki nógu sterkur til að standast freistingarnar eða deyfir þig þegar þér líður illa eða verður fyrir áfalli, þá ertu aftur kominn á byrjunarreit.

Sífellt að eltast við skottið á þér. Að passa þig allan daginn alla daga á því að gera ekki mistök og enda aftur ofan í gryfjunni.

Hvað ef þetta er ekki svona einfalt? Hvað ef fíkn er ekki utangarðs, heldur normið? Hvað ef nánast allir í samfélaginu eru fíklar, það er bara mismunandi hversu samfélagslega samþykkt fíknin þín er?

Vinnufíkn er t.d. mikils metin og margir sem njóta virðingar í samfélaginu eru í rauninni vinnufíklar. Sjónvarpsfíkn er líka algeng. Ekki mikils metin kannski, en ekki heldur fordæmd að neinu ráði. Matarfíkn er algeng og sykur er t.d. efni sem virkar fyrir marga, en enginn er settur í fangelsi fyrir að neita sykurs eða selja hann.

Áfengisfíkn telst vandamál, en þó glíma mun fleiri við þessa fíkn en gera sér grein fyrir. Ef þú fúnkerar í samfélaginu er almennt talið að þú glímir ekki við vandamál, sama hversu mikið þú drekkur.

Greinarhöfundur, Vala Yates söngkona.

Ég þekki fíkn mjög vel.

Ég var alin upp á alkóhólísku heimili. Ég þekki munstrin mjög vel og veit hverjar afleiðingarnar eru fyrir fjölskylduna. Ég þekki líka eigin fíkn, en mínar fíknir eru samfélagslega samþykktar — sjónvarpsgláp og nammiát.

En ég ætla ekki að tala um mína fíkn, heldur fíkn pabba míns.

Ég hef lesið mér mikið til um alls konar sem við kemur fíkn og áföllum. Ég hef líka unnið úr mínum áföllum með hjálp sálfræðinga. Og núna er ég loksins hjá sálfræðingi sem er sammála öllu sem ég hef lesið mér til um.

Hún er fíkniráðgjafi, og hún talar um að fólk noti sykur á sama hátt og grashausar noti gras. Hún segir það ekkert verra að nota gras, maður eigi bara að nota það sem virkar. En að maður þurfi hinsvegar að vinna úr sínum áföllum. Og þannig losni maður við fíknina. Því við flýjum í þessa hluti þegar við meikum ekki tilfinningarnar okkar. Sem er þegar eitthvað áfall er að hafa áhrif á þær.

Ég velti því fyrir mér hvort pabbi minn hefði kannski ekki framið sjálfsvíg hefði hann vitað þetta. Því hann vissi að hann drykki “of mikið”. En hann gat ekki horfst í augu við að þurfa að hætta. Flestir segja að þetta sé “fíknin að tala.”

En hvað ef þetta var einhver rödd innra með honum sem vissi sannleikann?

Sem vissi að áfengið var alls ekki vandamálið. Heldur myrkrið sem dró hann niður, og áfengið var það eina sem lét honum líða betur í smá stund. Sem slökkti á skömminni í nokkrar mínútur.

Pabbi heitinn með mér og bræðrum mínum eitt sinn á Laugaveginum.

Kannski það sé þessi bévítans skömm sem er sökudólgurinn?

Brené Brown er rannsóknarprófessor sem hefur varið síðustu tveim áratugum í að rannsaka hugrekki, auðsæranleika, skömm og samkennd. Hún útskýrir muninn á skömm og sektarkennd þannig:

Að sektarkennd þýði: “Ég gerði eitthvað rangt”. En skömm þýði: Ég ER röng/rangur (vond(ur)?).

Þarna sé lykilmunur því að sektarkennd sé ósköp eðlileg viðbrögð okkar þegar við gerum eitthvað sem brjóti gegn eigin samvisku. En að skömmin eigi í rauninni aldrei rétt á sér, og við getum ekki lagað hana með því að breyta rétt, á sama hátt og við getum losað okkur við sektarkenndina.

Skömmin sé mun dýpri og mun meira skemmandi. Þetta sé djúp og dimm trú um að það sé eitthvað að okkur sem manneskju. Og þar af leiðandi fylgi óneitanlega sú trú að við getum EKKERT gert til að laga okkur.

Margir í nútímasamfélagi lifa því miður með skömm allan daginn alla daga. Þetta er orðið hluti af því að vera mannvera. En hvað læknar skömmina?

Samkvæmt Brené Brown er það vitneskjan um að maður sé ekki einn. Að geta talað við aðra manneskju um það sem maður skammast sín fyrir lýsi ljósi inn í myrkrið sem maður dirfist ekki að horfa á einn. Hin manneskjan hlustar þá á okkur og segir eitthvað uppbyggjandi og sýnir okkur skilning.

Eða hvað?

Jú stundum er það þannig, en oft er raunin ekki sú. Oft eru viðtökurnar þannig að þær auka bara meira á skömmina hjá viðkomandi. Þannig að til að laga skömm þarf maður að geta tjáð sig um hana við manneskju sem kann að tala um skömm, sem eykur ekki skömmina með viðbrögðum sínum heldur mætir manni með skilningi og kærleik, og segir manni eflaust að hún hafi upplifað eitthvað svipað.

Þá er maður ekki lengur einn. Og skömmin gufar upp.

Ef bara ein manneskja les þetta og finnur skömmina minnka, innri von, og kannski kjarkinn til að leita sér aðstoðar, þá er það þess virði að skrifa þennan pistil.

Ég hugsa einmitt með mér: Ef pabbi hefði verið hjá sálfræðingi sem bætti ekki á skömmina sem hann bar yfir áfengisneyslunni, heldur sýndi honum skilning og hjálpaði honum að vinna úr sínum áföllum… Hefði hann nokkuð ákveðið að kveðja lífið?

Hversu mörgum öðrum gæti þessi vitneskja bjargað?

Ef bara ein manneskja les þetta og finnur skömmina minnka, innri von, og kannski kjarkinn til að leita sér aðstoðar, þá er það þess virði að skrifa þennan pistil.

Því þetta gæti í alvörunni bjargað mannslífi.

Ef samfélagið gæti smám saman öðlast þessa vitneskju, ef allir sálfræðingar ynnu eftir þessu, hversu mikill munur yrði það? Hversu mörgum mannslífum væri hægt að bjarga?

Það er mín heitasta von að við séum smám að átta okkur á því hvernig fíkn, þunglyndi og fleiri slíkir kvillar raunverulega virka, og að við séum smám saman að læra að sýna hvort öðru aukinn skilning, kærleika og samkennd.

Að við hættum að stimpla fólk og setja stóran hóp fólks undir sama hatt. Að þessar nýju upplýsingar um fíkn, áföll og skömm, sem eru að koma fram í dagsljósið úr öllum áttum, fari að síast inn í almenna vitneskju samfélagsins.

Þá held ég að við getum almennilega byrjað að blómstra sem SAMfélag, stutt hvort annað og elskað náungann í stað þess að lifa í samkeppni og skorthugsun.

Og enginn þyrfti að taka sömu afdrifaríku ákvörðun og pabbi minn.

Blessuð sé minning hans.

Höfundur er söngkona og tónlistarkennari.