Nei maki þinn er ekki fullkominn …en þú ekki heldur

Eftir Ólaf Árnason:

Það er ekki auðvelt að vera maki í því umhverfi sem við búum við í dag.

Óskrifuð hlutverk og skyldur maka eru geysilega mörg. Eiginkona, móðir, elskhugi, vinur, fyrirvinna, skemmtikraftur, og ýmislegt fleira. (það sama á við um karlmenn)

Það er nú ekki auðvelt fyrir einn né neinn að uppfylla þessi hlutverk auk annara sem við innum af hendi eins og dóttir, systir, samstarfsmaður, yfirmaður, frænka, amma svo eitthvað sé nefnt. 

Kröfurnar aukast heima við

Kröfurnar heima við hafa einnig aukist því mörg ætlumst við til þess að makinn uppfylli ALLAR okkar þarfir í gegnum þau hlutverk sem hann þarf að leika. Makinn á að stuðla að þeim lífsstíl sem ég vil, taka þátt í áhugamálum, vera sammála með uppeldi, fullnægja kynferðislegum þörfum, vera alltaf hress og skemmtilegur og ýmislegt meira.

Ólafur Árnason fjölskylduráðgjafi.

Við höfum litla sem enga þolinmæði fyrir því að makinn sé ekki að standa sig í stykkinu á öllum sviðum alltaf hreint því við sjáum svo glöggt á samfélagsmiðlum að þar er fullt af fólki sem uppfyllir þetta alltaf .. alla daga.

Nei, það er ekki raunveruleikinn

En er það raunveruleikinn? NEI og langt því frá. Við þurfum að fara að átta okkur á því að sú „photoshoppaða“ ímynd sem við sjáum á samfélags – og stefnumótamiðlum er auðvitað gríðarlega skökk mynd af raunveruleikanum. En við erum því miður farin að láta blekkja okkur á þessu og erum því að bera makann saman við „einhyrninga“.

Til mín koma allt of margir einstaklingar sem eru tilbúnir að fórna góðu sambandi og fjölskyldu af því þau telja að grasið sé mun grænna annarsstaðar. Í hvert skipti sem þau opna samfélagsmiðla er hann Siggi eða Palli að gera svo skemmtilega hluti, borða dýrindis mat , ferðast og ætíð svo vel til hafður. Fólk horfir á þetta og fellur í þá gildru að þetta sé daglegur raunveruleiki. Og það sem verra er að þau eru einnig fullviss um að ástæða þess að þau eru ekki á þessum „samfélagsmiðlastað„ sé að miklu til komið vegna metnaðarleysis makans. 

Ímyndaðar glansmyndir

Það er mikilvægt að við stígum í burtu frá ímynduðum glansmyndum og horfum á raunveruleikann.

Sem betur fer lifa margir fjölbreyttu og skemmtilegu lífi, en það gerist ekki af sjálfu sér, heldur kostar það mikla orku og vinnu. Fólk sem nær þangað sem það vill gerir það með þrautsegju og dugnaði. Það gerir það með því að vinna með makanum og með því að parið þekki og sætti sig við styrkleika og veikleika hvors annars.

Maki á ekki og getur ekki fullnægt öllum okkar þörfum og væntingum enda er ekki neinn einn einstaklingur fær um það.

Ef þú ert ekki sátt/sáttur með líf þitt í dag, farðu þá að vinna að því að breyta hlutunum.

Ekki kenna makanum, börnunum, mömmu þinni eða öðrum um þá stöðu sem þú ert í. Einblíndu á það jákvæða í sambandinu við makann, og byggðu sambandið á því.

Makinn ber ekki ábyrgð á þinni vellíðan, heldur er hann/hún samferðarmaður í gegnum lífið og saman getið þið tekist á við þá hluti sem upp koma … en það er enginn fulkominn, ekki einu sinni þú.

Höfundur er fjölskylduráðgjafi.