Núna eða aldrei

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.

Eftir Sigmund Davíð Gunnlaugsson:

Tveir af uppáhalds stjórnmálamönnunum mínum, úrvals sjálfstæðismenn, hafa nú skrifað ágætar greinar hér á Viljann. 

Brynjar Níelsson reið á vaðið með kjarnyrtri grein sem lýsti raunum eðal-íhaldsmanns í kratalandi. Allt sem þar kom fram var satt og rétt enda er Brynjar búinn að fá nóg af því að „kyngja ælunni”.

En svo fóru svipurnar á loft í Valhöll og Brynjar, sem hafði haft rétt fyrir sér daginn áður og vissi það vel, skrifaði nýja færslu. Að þessu sinni um að hann væri ekki í „einkafirma” og þyrfti því að láta undan fólki með allt aðrar skoðanir. 

Það hefði verið betra og skemmtilegra ef Brynjar hefði birt þennan seinni pistil á myndbandsformi. Helst haldandi á dagblaði til að sýna dagsetninguna. Þá hefði hann getað blikkað augunum til að senda okkur frekari skilaboð. Þrjú stutt, þrjú löng, þrjú stutt. 

Svo mætti til leiks Elliði Vignisson. Annar af mínum uppáhalds.

Hann sagðist alls ekki styðja ríkisstjórnina (og rökstuddi það vel) en byrjaði á því að segja sjálfstæðismönnum að fara ekki strax yfir á Miðflokkinn.

Meginskýringin virtist vera „haldið ykkur heima því sælt er sameiginlegt skipbrot”.

Hér var farið að myndast kunnuglegt stef.

Við höfum áður séð góð og mikilvæg skrif ósáttra sjálfstæðismanna. En einu sinni sem oftar var búið að smala þeim í hús. 

„Þið getið gagnrýnt svo framarlega sem þið haldið ykkur í heimahögunum”.

Nú dreg ég ekki úr aðdáun minni á þessum mönnum en þeim virtist nú ætlað að gera tvennt samtímis. Lýsa óánægju (og ógleði) sinni en kenna um leið óheppilegum aðstæðum um þessar áhyggjur sínar og ófarirnar allar. -Benda á að flokkurinn væri saklaust fórnarlamb slæms félagsskapar.

Þá get ég ekki annað en minnt á að undanfarin ár hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið sinnar eiginn gæfu smiður í öllum þeim málum sem þeir félagar rekja og fleirum til.

Áður hef ég rakið hvernig flokkurinn hefur haft veg og vanda af því að skapa það ófremdarástand sem nú ríkir í innflytjendamálum.

Ef litið er til hinnar gengdarlausu útgjaldaaukningar ríkisins, skattahækkana, kerfisvæðingar, loftslagsöfga og áforma um að gefa eftir meira af fullveldinu til kontorista í Brussel hefur flokkurinn leitt „vegferðina” (svo ég höfði til þeirra með því að styðjast við tungutak vinstrimanna).

Ótalmörg önnur mál mætti nefna. Svo sem lög um kynrænt sjálfræði sem voru samþykkt án nokkurrar umræðu um praktísk atriði á borð við rétt kvenna til einkarýmis, áhrif á kvennaíþróttir osfrv. Eða lög sem bönnuðu lífsbætandi aðgerðir á börnum. Sjálfsagðar aðgerðir sem hafa reynst vel um áratuga skeið.

Hver voru viðbrögð Sjálfstæðisflokksins við þessu, fyrir utan þau að keyra málin í gegnum þingið af ákafa og hörku? Jú, þau að minna á að í raun hefði Sjálfstæðisflokkurinn „fattað upp á þessu fyrstur”, með vísan í landsfundarsamþykktir.

Ég gæti haldið áfram en þá kæmi ég líklega að Borgarlínunni. Stærsta kosningaloforði Samfylkingarinnar í Reykjavík. Hinu galna loforði sem Sjálfstæðisflokkurinn tók að sér að fjármagna fyrir hönd allra skattgreiðenda landsins en afsakaði svo með því að flokkurinn hefði talað fyrir þessu líka.

Það mætti rekja mörg dæmi í viðbót en greinin má líklega ekki verða of löng. Því segi ég við hina traustu vini mína af íhaldsvængnum:

Ekki hafa áhyggjur af Miðflokknum. 

Verið þið sjálfir. Hafið frekar áhyggjur af því að samkvæmt nýjustu könnun séuð þið fyrst og fremst að missa fylgi til Pírata! og Samfylkingarinnar. 

Það er það sem gerist ef þið reynið að líkjast slíkum flokkum. Þá hugsar fólk: „Ef meira að segja XD tekur undir með Pírötum (lögleiðing fíkniefna) og Samfylkingu (bókun 35 og umhverfisgjöldin)” þá kjósum við frekar fyrirmyndirnar.

Gamlir, góðir sjálfstæðismenn ættu að huga að prinsippum sínum og gleðjast yfir stuðningi við Miðflokkinn. Þeir ættu að vita að ég er ekki andstæðingur þeirra frekar en alvöru traustra framsóknarmanna.

Í 14 ár hef ég reynt að útskýra fyrir stuðningsmönnum flokkanna mikilvægi þess að leita í það besta í stefnunni, hvort sem það þjónar pólitískum hagsmunum mínum eða ekki.

Raunar held ég að það besta sem gæti komið fyrir þessa flokka væri minnkandi fylgi við þá og aukið fylgi prinsippflokks.

Þá fengju þeir það raflost sem þeir þurfa til að ná áttum og stökkva loks upp úr pottinum.

Annars sitja þeir áfram í vatni sem hitnar smátt og smátt þar til þeir verða full-soðnir.

Slík örlög þeirra eru ekki óskastaða mín. Framtíðin ræðst núna og borgaralega þenkjandi fólk þarf nú að hrökkva eða stökkva. Það dugar ekki að bíða og vona. Tækifærið kemur ekki aftur. Það er núna!

Höfundur er formaður Miðflokksins og fv. forsætisráðherra.