Nýjum tímum fylgja gamlar áskoranir

Jón Ragnar Ríkharðsson.

Eftir Jón Ragnar Ríkharðsson:

„Það þykir og víðast brenna við að þingsætin séu ekki skipuð úrvalsmönnum. Lítilsháttar menn sem eru meðalverð allra meðalverða, búa oft yfir taumlausri metorðagirnd og hirða aldrei hvað þeir vinna til að svala henni. Þeir komast því oft langt á stjórnmálasviðinu. Hinsvegar hafa mikilsverðir menn, sem virðast sjálfkjörnir til að vera leiðtogar þjóðar sinnar, oft slíka óbeit á hinu pólitíska fargani að þeir vilja hvergi nálægt því koma og láta hina leika lausum hala.“

 Með þessum orðum lýsir Árni Pálsson prófessor pólitíkinni á fyrri hluta síðustu aldar í grein sem birtist í tímaritunu Vöku árið 1927.

Í sömu grein segir Árni:

„Menn halda oft langar ræður, ekki til að lýsa sínum skoðunum, heldur til að mæla fram með skoðunum sem þeir halda að aðrir menn hafi. Hið ógeðslega dekur við þjóðarviljann, sem venjulega er alls ekki til, er m.a. sprottið af þessum rótum.“

Greinin heitir Þingræðið á glapstigum og hún hefur talað fyrir daufum eyrum bráðum heila öld. Því miður bendir ekki margt til að þjóðin sé tilbúin til að axla þá miklu ábyrgð sem fylgir því að búa í frjálsu lýðræðisríki.

Ennþá stunda stjórnmálamenn „hið ógeðslega dekur við þjóðarviljann“ sem enginn veit hver er, því hann er líklega ekki til. 

Það er alltaf auðvelt að kenna öðrum um allt sem miður fer og ekki er skortur á þeim sem segja að okkar helsti vandi sé skortur á almennilegum stjórnmálamönnum.

„Þó að þingmennirnir sjálfir séu heiðarlegir menn þá eiga þeir allir kjósendur og flestir heilan hóp vina og vandamanna sem maka krókinn eftir því sem föng eru til“.

Eins og Árni bendir réttilega á þá bera kjósendur líka ábyrgð en þurfa aldrei að gangast við henni. Örugglega eru til dæmi um stjórnmálamenn sem hafa talaið sig neyðast til að láta undan þrýstingi sinna nánustu stuðningsmanna — bara til að halda þingsætinu. Ekki er sjálfgefið að þingmaðurinn sé spilltur þótt hann hlýði sínum nánustu stuðningsmönnum því lífið er ekki eins einfalt og margir vilja meina.

Verið getur að þingmaðurinn vilji fá tíma til að koma hugsjónum sínum í framkvæmd (sem geta verið landi og þjóð til heilla) og þori ekki öðru en taka hliðarspor til að styggja ekki sína nánustu stuðningsmenn.

Bjarni heitinn Benediktsson þótti einn stærsti stjórnmálaskörungur þjóðarinnar og örugglega einn sá greindasti. Hann þótti bera af varðandi gáfur og andlegt atgervi en í samtali við Mattías Johannessen sagði hann orð sem benda til að hann hefur stundum neyðst til að koma til móts við hagsmuni sinna stuðningsmanna.

Bjarni sagði við Matthías að honum þætti það gott að hann (Matthías) væri aldrei að biðja sig um greiða. En Bjarni var alltaf fastur á prinsippum þannig að ólíklegt er að hann hafi teygt sig langt fyrir sína menn en sennilega neyðst til að gera meira en honum þótti gott.

Meira en hundrað árum áður en prófessor Árni ritaði greinina sagði Thomas Jefferson að sá sem vildi búa í farsælu lýðræðisríki án pólitískrar þátttöku væri að biðja um eitthvað sem gæti aldrei orðið.

Lýðræðið kallar jafna ábyrgð yfir hvern einasta einstakling sem hefur kjörgengi og kosningarétt.

Það er enginn undanskilinn – ekki einn getur vikið sér undan ábyrgð. Stjórnmálamenn eru synir og dætur þessarar þjóðar og aldir upp við ríkjandi gildi með sama hætti og allir sem á Íslandi búa.

Við höfum ekki náð að sigrast á gömlum áskorunum vegna þess að enginn vill bera ábyrgð og allir vilja kenna öðrum um. Stjórnmálamenn eru ágætis skotmörk en það er þjóðin sem velur þá og þeir sitja á hennar ábyrgð.

Það er svo á okkar valdi hvort greinin hans Árna á eins vel við um hið pólitíska ástand eftir önnur hundrað ár eða hvort við erum tilbúin til að taka virkan þátt í pólitíkinni á málefnalegum forsendum.

Persónuárásir, lýðskrum og óþverrapólitík hefur ráðið ríkjum á Íslandi lengi. Netið felur ekkert og allir geta skapað sér vettvang þar. Það þýðir að enginn má lengur skorast undan.

Svo að lokum kemur síðasta tilvitnunin í hina merku grein Árna Pálssonar prófessors er hann segir frá skýringum Lord Aberdeen sem var stjórnmálaskörungur Breta fyrr á öldum um hinn dæmalausa uppgang Englendinga öldum saman.

Hann sagði að í Englandi væru: „hinir vitru menn og réttsýnu fullt svo djarfir og áræðnir sem æfintýramennirnir og óþokkarnir“.

Um leið og allir hópar á Íslandi verða jafnir að áræðni og dirfsku hættir greinin hans Árna að vera sígild.

Höfundur er sjómaður og formaður verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins.