Óboðleg umræða ofstækismanns

Andri Snær Magnason, rithöfundur. Skjáskot/Kastljós

Andra Snæ Magnasyni, heimsfrægum rithöfundi og fyrrum forsetaframbjóðanda, þykir óþolandi að aðrir en viðhlæjendur sínir fái að koma fram hjá „útvarpi allra landsmanna“ – eða í fjölmiðlum yfirleitt.

Þetta kom fram í viðtali sem birtist við hann í Morgunblaðinu 29. nóvember sl., undir yfirskriftinni „Óboðleg umræða afneitunarsinnna“. Þar ræddi hann Borgarafund Kastljóss Ríkisútvarpsins (RÚV) um loftslagsmálin, sem sendur var út þann 19. nóvember sl. Greinarhöfundi, ásamt honum, hafði verið boðið að mæta þar í pallborðsumræðu.

Þar er m.a. haft eftir honum að hann telji það ábyrgðarhluta hjá íslenskum fjölmiðlum að leiða fram afneitunarsinna í loftslagsumræðunni.

Í viðtalinu uppnefnir hann greinarhöfund, og Magnús Jónsson veðurfræðing, „afneitunarsinna“ – en við vorum þau einu í 14 manna pallborði þáttarins sem tilheyrum ekki trúboði loftslagskirkjunnar, sem hélt þar samkomu. Við Magnús áttum bæði í vök að verjast gagnvart ruddaskap þáttastjórnenda, sem og gesta þáttarins, vegna efasemda okkar um boðaða loftslagsógn. Við urðum til dæmis að óska sérstaklega eftir því að vera ekki uppnefnd „afneitunarsinnar“ í þættinum. 

Erna Ýr Öldudóttir, blaðamaður. Skjáskot/Kastljós RÚV.

Skilgreiningin er ómálefnaleg og lýsir ekki á neinn hátt afstöðu greinarhöfundar eða Magnúsar til loftslagsmálanna. En það stöðvaði ekki Andra Snæ í að birtast í drottningarviðtali í Morgunblaðinu, til að halda þeirri orðræðu til streitu.

Hverjir eru „leikmenn“ í umræðu um loftslagsmál?

Hann kallar okkur einnig „leikmenn“ í umræðunni – þrátt fyrir að greinarhöfundur sé blaðamaður sem hefur eytt talsverðum tíma í að fylgjast með og skrifa um loftslagsmál – og Magnús Jónsson sé reyndur veðurfræðingur og f.v. veðurstofustjóri. Aðra í pallborðinu kallaði hann vísindamenn – þó að mig gruni að hafi einhver vísindamaður verið í pallborðinu, þá sé hann nú þegar upp talinn. Rithöfundinn, sjálfan sig, telur hann vera þess fyllilega umkominn að ræða loftslagsmál opinberlega. Kannski heldur hann að ritun vísindaskáldskapar hafi komið honum í raðir vísindamanna. Hver veit.

Fyrst að Andri Snær er staðráðinn í hafa samtalið á þessu plani, þá er jafngott að hann sé kallaður „ofstækismaður“ – því að úr þessu verður varla hægt að mætast öðruvísi á jafningjagrundvelli í umræðunni. Þá skulum við fara yfir möguleika þessa ofstækismanns á að koma skoðunum sínum á framfæri.

Andri Snær hefur um langa hríð verið á listamannalaunum hjá íslenska ríkinu við að skrifa boðskap sinn í loftslags- og umhverfismálum. Fjallið tók loksins jóðsótt og fæddi lítið kver þess efnis fyrir jólin – en bóksöluherferðin hans ætti ekki að hafa farið framhjá neinum. Andri Snær fær einnig að flytja fagnaðarerindið á fjölum Borgarleikhússins í boði útsvarsgreiðenda. Hann virðist eiga greiðan aðgang að helstu fjölmiðlum. Ef ekki til að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands og boða trúna, þá til að koma því á framfæri að skoðanir annarra en hans sjálfs, og bergmálið af þeim, eigi ekki að fá að heyrast.

Málstaður loftslagsvárinnar er ekki sterkari en þetta

Þar sem ég er almennt frekar málefnaleg þegar kemur að umræðu um loftslagsmálin, þá vil ég taka það sérstaklega fram að ofstæki Andra Snæs birtist ef til vill síður í skoðunum hans í loftslagsmálunum – og þá er nú mikið sagt – en frekar í afstöðu hans til vísindanna, frelsis fjölmiðla og grundvallarréttinda borgaranna, eins og sést í viðtalinu.

Hlutverk vísindanna er að reyna lýsa raunveruleikanum eins og hann er mældur skv. hinni vísindalegu aðferð, og ályktanir sem draga má af þeim mælingum, verða stöðugt að þola gagnrýni og efasemdir. Þær geta aldrei orðið að fyrirskipunum eða trúarbrögðum. Frelsi fjölmiðla felst í dagskrárvaldi þeirra. Í frjálsum lýðræðisríkjum eru skoðanaskipti í hávegum höfð – og ekki frátekin fyrir trúarofstækismenn og valdsmenn hins opinbera, auk listamanna á launum og með aðstöðu hjá þeim.

En Andra Snæ er vorkunn, eflaust bjóst hann við að fá að birtast í hlýjum faðmi RÚV, þar sem hann fengi að láta ljós sitt skína, í beinni útsendingu, á meðal helstu páfa, æðstupresta og æjatolla loftslagskirkjunnar. Kannski hélt hann að þeir fengju að gapa þarna hver upp í annan, og klappa hverjum öðrum á bakið, ótruflaðir og í notalegheitum inni í stofu hjá landsmönnum.

Í staðinn stendur hann eins og keisarinn klæðlausi fyrir framan alþjóð gagnvart einni einustu rödd í salnum – og hann veit það.

Höfundur er blaðamaður á Viljanum.