Ónýttur þjóðarauður

Hildur Sif Thorarensen.

Eftir Hildi Sif Thorarensen:

Inni á vefsíðu Landsvirkjunar er margar áhugaverðar upplýsingar að finna, m.a. þær að á Íslandi eru árlega 1,9 TWst af umframorku, umframorku sem Landsvirkjun hefur velt fyrir sér að selja frá sér í gegnum sæstreng. Þetta magn jafngildir um 10% af þeirri orku sem er framleidd af Landsvirkjun á ári og er því töluvert.

Þaðsem kemur á óvart í þessu samhengi er að undanfarna mánuði hefur hver fréttin á fætur annarri birst um aðila sem hafa áhuga á að virkja á Íslandi. Má þar meðal annars nefna fyrirtækið Zephyr sem hefur áhuga á að setja upp vindmyllur á Íslandi og er í eigu norskra sveitarfélaga og fylkja. Hægt er að ætla að slík fyrirtæki stundi ekki mikil áhættuviðskipti og því er rétt að velta fyrir sér hvers vegna áhugi er fyrir vindmyllum og vindmyllugörðum í landi þar sem nóg er til af orku og engin leið er til að flytja hana úr landi þar sem ekki er kominn sæstrengur.

Það eru þó ekki einvörðungu Norðmennirnir sem hafa sýnt áhuga á því að virkja á Íslandi, en fyrirtækið Arctic Hydro hefur samkvæmt vefnum hjá Orkustofnun sex rannsóknarleyfi fyrir vatnsaflsvirkjunum. Í frétt frá RÚV kemur fram að fyrirtækið sé að hluta til í eigu Benedikts Einarssonar, náfrænda Bjarna Benediktssonar, og Eyþórs Arnalds, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Aftur er eðlilegt að velta fyrir sér hvers vegna þessi mikli áhugi sé fyrir hendi á að virkja í landi þar sem ekki skortir orku.

Íslensk orkumiðlun, fyrirtæki sem stofnað var af Bjarna Ármannssyni, gerði samning um raforkuviðskipti með 65 gígavött í byrjun þessa árs samkvæmt frétt af mbl.is. Það eru því fleiri fjárfestar sem hafa sýnt orkuviðskiptum áhuga á Íslandi og svo virðist vera sem áhuginn sé heldur að aukast en dala þessi misserin.

Á Íslandi eru starfræktar sjö jarðvarmavirkjanir, en ef litið er inn á vefsíðu Orkustofnunar eru 34 leyfi í gildi fyrir slíkum virkjunum. Það er því alveg ljóst að virkjunum er að fjölga á Íslandi, stórum sem og smáum og virðist sem áhugi og framkvæmdir séu ekki í samræmi við orkuþörf í landinu, sbr. þá 10% umframorku sem nefnd var í upphafi greinarinnar.

Að lokum má ekki gleyma Heiðari Guðjónssyni, íslenskum hagfræðingi, fjárfesti og nýráðnum forstjóra fjarskipta- og fjölmiðlafélagsins Sýnar. Heiðar er enginn nýgræðingur á fjármálamarkaðnum, en hann á hlut í HS veitum sem og SSB orku sem hugðist reisa virkjun í Svartá.

Það er því alveg ljóst að erlendir sem og innlendir fjárfestar hafa áhuga á að setja fé sitt í virkjanir og félög um virkjanir á Íslandi, þótt ómögulegt sé að átta sig á ástæðunni fyrir þessum áhuga. Eitt er víst, skynsamir fjárfestar sem þessir setja ekki stórar upphæðir í taprekstur.

Höfundur er verkfræðingur.