Opið bréf til Frosta Sigurjónssonar og félaga

Sigurður Gunnarsson heilsugæslulæknir.

Eftir Sigurð Gunnarsson:

Föstudaginn langa 2020.

Ágætu Frosti og félagar,

Nú held ég að við höfum næstum óvart farið langt með að stöðva veiruna.

Það jákvæða við það að fara fram á lítið er að það gaf þjóðinni tækifæri að gera gott betur og er það að hluta vegna hvatningar frá mörgum sem látið hafa sig málið varða. Hið gagnstæða væri miklu verra.

En það eru margir fletir á þessu og margir lærdómar sem hægt er að draga af faraldrinum nú og viðbrögðum við honum. Ég hef þurft að skipta um skoðun og þú ef til vill einnig um ýmsa hluti. Sama á við um sóttvarnalækni, sem þyrfti að skipta um skoðun, t.d varðandi hluti eins og andlitsmaska og notkun almennings á þeim, sem væri mikilvæg við þessar aðstæður.

Nýjar rannsóknir varpa nýju ljósi á smitunarferli í stórum rýmum og þá er hægt að skipta um skoðun með góðri samvisku.

Aðalatriðið er að margt gott hefur verið gert, t.d eru Íslendingar með fyrstu þjóðum með smitrakningarapp, en nágrannar okkar eru einnig að undirbúa sig.

Nú þarf að hindra að misvitrir pólitíkusar fari að nota málflutning ykkar til að valda skaða á íslensku samfélagi, sem gæti verið margfalt verri, en það sem veiran hefur orsakað. 

Þegar upp er staðið mun þessi veira hafa kennt okkur margt og gæti jafnvel aukið líkur á áframhaldandi fullveldi þjóðarinnar. Við munum einnig skilja betur mikilvægi góðra lifnaðarhátta og halda okkur vonandi í framtiðinni frá ruslfæði, svo dæmi sé tekið. 

Með bestu kveðju og þökk fyrir djarft framtak.

Sigurður Gunnarsson, heilsugæslulæknir.