Eftir Kristinn Sigurjónsson:
Raforka hefur mjög mikla sérstöðu meðal annarra orkugjafa, og það er, að hana verður að framleiða á sama augnabliki og hún verður notuð og það sama gildir um framleiðsluna, hún verður að vera jafnmikil á því augnabliki sem þörfin kallar eftir henni. Þetta gerir það að verkum að raforka lýtur allt öðrum markaðslögmálum en önnur orka sem hægt er að geyma. Rafhlöður geyma óverulega orku.
Raforkuframleiðsla á Íslandi og Evrópu
Ísland hefur nokkra sérstöðu í orkumálum. Það er ekki bara að hafa mikið af endurnýjanlegri orku, heldur að hafa tvö uppistöðulón, Þórisvatn og Hálslón, sem hafa margra mánaða miðlun. Landsvirkjun hefur nýtt þetta til að framleiða minna rafmagn á sumrin en sumarrennslið segir til um og þá safnað í miðlunarlónin til að geta framleitt meira á veturna en vetrarrennslið segir til um. Með þessarri miklu miðlun verður raforkuframleiðsla og raforkuverð á Íslandi nokkuð jöfn.
Evrópa hefur aftur á móti lagt mikla áherslu á umhverfisvæna orkugjafa sem eru að stofni til vindur og sól. Vandinn við þessa orkugjafa er að þeir framleiða rafmagn eftir duttlungum náttúrunnar, þ.e.a.s. veðri og vindum. Raforkunotkunin er aftur á móti lítið háð því nema ef vera skyldi rafmagnsupphitun og þá mest þegar sól er minnst. Fjárfesting vegna veðurorkustöðva (vindmyllur og sólarsellur) koma því ekki í stað annarar fjárfestingar vegna raforku nema að litlu leiti. Þetta leiðir óhjákvæmilega til þess að heildarfjárfestingin mun hækka. Til viðbótar þessu hefur Evrópubandalagið stefnt að því að taka út óvinsæl orkuver eins og kol og kjarnorkuver og nýta önnur dýrari orkuver. Allt þetta mun leiða til hærra meðalverðs á raforku í Evrópu.
Verðsveiflur á rafmagnsverði
Á að láta Veðurguðina stjórna ACER (evrópsku Orkustofunni)?
Veðurguðir eru duttlungafull fyrirbæri og fara ekki eftir Lissabonsáttmála Evrópubandalagsins né öðrum sáttmálum, þótt litlar ríkisstjórnir verði að gera það. Það er ekki víst að jólakvöldið verði með mikilli sól og vindi þótt allir séu að elda góðan mat handa veðurguðunum. Aftur á móti getur dottið í þá að vera hliðhollir rafguðnum á björtum sumardegi, og þá þarf að losna við alla raforkuna. Þessar miklu sveiflur í raforkuframleiðslu sem ekki falla að sveiflum í rafmagnseftirspurn valda gríðarlegum verðsveiflum í raforkuverði, svo miklum að á einstökum dögum er greitt með rafmagninu, því það þarf að losna við það sem veldur enn hærra verði þegar skortur er á rafmagni.
Þessar ólíku stöður Íslands og Evrópu munu gera það að verkum að verðmunur á milli staðanna verður gífurlegur, annars vegar verður rafmagnið gefins í Evrópu þegar vel liggur á Veðurguðunum og hins vegar að það kosti augun þegar það liggur illa á þeim og margir að kynda ofninn sinn.
Sæstrengurinn
Mikið hefur verið talað um að strengur til Evrópu verði ekki lagður, en sæstrengir og jarðstengir eru alltaf að verða algengari sem gerir þá ódýrari og svo er mjög mikil þróun í jaðarbúnaði strengjanna og verðið á þeim er hríðfallandi. Allt þetta gerir strenginn ódýrari og það ásamt vaxandi verðsveiflum á rafmagni gerir streng álitlegri kost. Þegar talað er um álitlegan kost, þá þarf það ekki að vera eingöngu til útflutnings heldur jafnmikið til innflutnings, þannig að það væri enginn heildarútflutningur og engin ástæða til byggja virkjun vegna þessa . Hver er þá ávinningurinn, jú selja þegar verð er hátt og kaupa þegar verð er lágt. Þannig væri hægt að stórauka tekjur Landsvirkjunar, eða þeirra sem eiga orkuverin með miðlunarlónin. Það mun því verða vaxandi þrýstingur á að leggja rafstreng eftir því sem árin líða.
Orkupakki 3 með jarðstreng
Ef búið er að skrifa undir orkupakka 3, og verði strengurinn lagður, þá hafa Íslendingar ekkert val um að kaupa ódýrt og selja dýrt. Raforka á Íslandi verður inná samevrópskum raforkumarkaði. Stórir notendur geta þá keypt af honum eins og hverjum öðrum markaði. Flugvöllurinn við Oslo, Garedemóen keypti á sínum tíma (og kannski enn) allt sitt rafmagn á norrænum raforkumarkaðnum. Því gæti það gerst að flugvöllurinn við Amsterdam vildi kaupa sína raforku af einhverjum framleiðanda á Íslandi. Það þarf ekki að bíða lengi þar til annar stór notandi eins og t.d. höfnin í Rotterdam keypti líka rafmagn af einhverjum framleiðanda á Íslandi. Þá þarf ekki að líða langur tími þar til sveitarfélögin sem eiga flest orkufyrirtæki sjái hag af því að selja rafmagnið til erlendra kaupanda á hærra verði en til íbúa sveitarfélagsins, til að bæta fjárhagsstöðu þess. Fjárþörf sveitarfélaganna er alltaf endalaus.
Það þarf ekki frjótt hugmyndaflug til að sjá hvert þetta myndi stefna hjá venjulegum raforkukaupanda á Íslandi. Ég óttast að raforkuverðið þróist ekki eins og Áslaug Arna rakti í Kastljósþætti 15.maí, heldur leiði til stórfeldrar hækkunar eins og í Svíþjóð
Höfundur er rafmagnsverkfræðingur.