Eftir Björn Leví Gunnarsson:
Í viðtali hér á Viljanum við Jón Gunnarsson þingmann Sjálfstæðisflokksins fyrir áramót, er mikið gert úr ábyrgð Alþingis og að það þurfi að rjúfa einhverja kyrrstöðu í orkuuppbyggingu hér á landi. Ástandið er víst svo alvarlegt að þingmaðurinn ber ekki lengur traust til ríkisstjórnarinnar.
En hvert er vandamálið? Orkuskortur? Orkumálastjóri varar við því í aðsendri grein á visir.is að meiri orkuframleiðsla muni ekkert endilega tryggja orkuöryggi heimilanna. Að stækka kökuna segir ekkert til um hvernig henni er skipt.
Staðan er einfaldlega sú að á Íslandi fer 80% af orkunni sem hér er framleidd til stórnotenda (iðnaður). Heimilin nýta einungis um 5% af orkunni. Til samanburðar nota heimilin í Evrópu rétt tæplega 28% af þeirri orku sem þar er framleidd og iðnaður einungis rétt rúmlega 25%.
Það er því ómögulegt að tala um að það sé orkuskortur á Íslandi, að minnsta kosti fyrir heimilin. Staðreyndin er einfaldlega sú að við erum orkuframleiðsluland, aðallega fyrir erlend iðnaðarfyrirtæki. Hinn svokallaði skortur á ekki að vera heimilanna, heldur stórnotendanna því það á fyrst að tryggja heimilum og smærri fyrirtækjum orku. Hvað er svo gert við afganginn er bara háð markaðsöflunum um hver býður best.
En það er áhugavert að það séu þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem kvarta, þar sem að það var ríkisstjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins sem fjarlægði lagaskyldu Landsvirkjunar að tryggja heimilunum örugga orku árið 2003. Einhverjir kenna kannski innleiðingu orkupakkanna um það, en það var engin skylda til þess. Það sem meira er að í þriðja orkupakkanum var bætt við skyldu á stjórnvöld að tryggja heimilum og smærri fyrirtækjum orku. Það er hins vegar ekki búið að útfæra þá skyldu í lög og þar við situr í dag.
Ábyrgðin á stöðunni, hversu mikið sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins væla, er á þeirra eigin herðum. En þannig virkar nauðvörnin oft, að reyna að benda sem mest á ábyrgð annarra. Munum það þegar við heyrum harmakvein þeirra í orkumálum þessa dagana.
Höfundur er þingmaður Pírata.