Össur Skarphéðinsson: Sannleikurinn um „valdaelítuna“ og óvitana

Össur Skarphéðinsson, fv. utanríkisráðherra, birtir á Facebook í dag hugleiðingu, sem vert er að gefa gaum:

„Myndirnar sem fylgja hér eru þversnið af „valdaelítunni“ á bak við framboð Katrínar Jakobsdóttur. 200 manns í Borgarnesi kl. 17 í gær og mun fleiri á fundi sem hófst 3 klst síðar á Akranesi. Í Borgarnesi var aðsóknin slík að fundinn þurfti að færa í stærri sal. – Kennarar, bændur, námsmenn, heilbrigðisstarfsfólk, verkafólk, nokkrir sjómenn, ellilífeyrisþegar og öryrkjar og amk. einn fræðimaður úr uppsveitum Borgarfjarðar.

Semsagt venjulegir Íslendingar.

Dr. Össur Skarphéðinsson, fv. utanríkisráðherra.

Allt þetta fólk, sem miðað við kannanir telur nú 60-70 þúsund Íslendinga og fer fjölgandi dag frá degi, hefur komist að þeirri niðurstöðu að Katrín hafi verðleika sem gera hana að ákjósanlegum forseta. Það hefur tekið sína ákvörðun á sjálfstæðum forsendum og á ekki skilið að talað sé niður til þess.

Þó tala sumir andstæðingar framboðs Katrínar einsog allt þetta fólk sé óvitar, sem láti reka sig til réttar eftir lævíslegri forskrift skuggabaldra að tjaldabaki. En fólk er ekki fífl. Það kýs eftir sannfæringu sem það myndar á eigin forsendum. Það þarf ekki fílabeinsturna til að segja sér hvað er rétt og hvað er rangt – og hvaða skoðanir það megi hafa.“