Pæling

Nú fyrir stuttu rakst ég á frétt sem ber heitið : Fór í trekant með fólki á sjötugsaldri fyrir pening. 

Þar fyrir ofan fyrirsögnina er mynd af karlkyns samfélagsmiðlastjörnu brosandi breiðu brosi. Í myndbandinu sem fylgir fréttinni segir hann frá þessu atviki og viðurkennir að þetta hafi örugglega verið það heimskulegasta sem hann hafi gert fyrir pening. Upp sprettur mikill hlátur í stúdíóinu þar sem aðilinn var í viðtali. Þetta þykir þeim sniðug og fyndin saga, sem hún er jú að vissu leyti því ég sjálf flissaði smávegis. Ekki ætla ég að skipta mér af hvað annað fólk gerir við sinn tíma og ekki ætla ég heldur að dæma slíkar ákvarðanir fólks.

En ég gat ekki annað en hugsað..

Hefðu athugasemdirnar við fréttina og myndbandið litið eins út..

Ef að samfélagsmiðlastjarnan væri kvenmaður ?  Segjum að ég hafi rekist á frétt með sömu fyrirsögn og brosandi konu fyrir ofan. Persónulega hefði mér liðið eins, það kemur mér ekki við hvað þessi kona gerir.

María Rún Vilhelmsdóttir blaðamaður.

Fyrir neðan fréttina af karlkyns samfélagsmiðlastjörnunni koma eftirfarandi athugasemdir : 

„Þú ert perla.“

„****** er snillingur.“

„ Þessi meistari. “

„ Geggjaður gæji.“ 

„ Hversu mikið meistaraverk. “

Þessi maður mun ekki virðast “síðri kostur“ eftir vinnu sína á klúbb í Amsterdam. Þetta var bara fyndið og hann var blankur og ungur.


Ég ætla að ímynda mér að athugasemdir við frétt af kvenkyns samfélagsmiðlastjörnu væru einhvern veginn svona :

„ Þú ert perla. “

„Þú ert snillingur. “

„Þessi meistari. “

„ Geggjuð gella !“

„Hversu mikið meistaraverk. “

Þessi kona yrði ekki talin “síðri kostur“ fyrir vinnu sína á klúbb í Amsterdam. Þetta var bara fyndið og hún var blönk og ung.


Eða er ég kannski of bjartsýn ?