Píratar — í orði og á borði

Kosningu Pírata um þjóðaratkvæðagreiðslu vegna orkumála lauk í dag.

Eftir Jón Ragnar Ríkharðsson:

Píratar standa fyrir stjórnmálamenningu sem er hlutlæg og réttlát,“ stendur m.a. í stefnuskrá Pírata.  Hlutlæg og réttlát stjórnmálamenning – þessi orð eru sem ferskur sopi af hinni tæru og hreinu lífsins svalandi lind. Svona stjórnmálamenning myndi sannarlega efla göfuglyndi stjórnmálamanna og um leið gera mannlífið fegurra en það hefur nokkru sinni verið.

Ef við ímyndum okkur hinna tæru og svölu lífsins lind sem vatnsból og hægt væri að veita úr henni þyrftu leiðslurnar að vera hreinar. Annars yrði hinn sanni drykkur lífsins mengaður og til skaða þeim sem myndu drekka.
Sama gildir um þá sem flytja fagran boðskap — þeir þurfa að vera hreinir. En þvi miður eru margir sem sannarlega vilja vel og hafa margt gott fram að færa mengaðir.

Við þekkjum sögu kirkjunnar sem byggir á fögrum boðskap kristinnar trúar. En margir kristnir boðberar voru og eru mengaðir af valdagræðgi og ljótum girndum. 

Til þess að flytja fagran boðskap er nauðsynlegt að tileinka sér hann og skilja. Lífið mótar okkur og margir atburðir geta mengað hugann og blekkt — jafnvel þótt viðkomandi sé góð og hrein sál í grunninn. Reiðin getur verið gott og jákvætt afl sé hún partur af hreinum huga.

En hreina hugsun fær enginn án mikillar vinnu sem felst óttalausri og hreinskilinni sjálfsskoðun.

Þekktu sjálfan þig“ var sagt í Grikklandi til forna þegar Grikkir voru vitsmunalegt stórveldi.

Að skilja annað fólk

Sá sem þekkir sjálfan sig í raun á auðvelt með að skilja annað fólk. Vegna þess að við erum öll ósköp svipuð þegar upp er staðið. Viljum vel en með þröngri hugsun getur mengun hugarfarsins blekkt og talið okkur trú um að við séum í raun betri en annað fólk.

Útvarp Saga.
Jón Ragnar Ríkharðsson. Ljósmynd/Útvarp Saga.

Píratar hafa sjálfir viðurkennt ýmsa erfiðleika sem felast í samskiptavanda – en hann orsakast af vanþroska. Fjölmiðlar hafa flutt fréttir af sálfræðiaðstoð sem þingflokkur þeirra þurfti og fregnir af einelti innan flokksins hafa flestir lesið. Píratar hafa sjálfir viðurkennt þetta og sumir yfirgefið flokkinn af þessum sökum.

Nýlegt dæmi um hugsanlegt kosningasvindl á ábyrgð meirihlutans í borginni hefur ekki vakið sérstök viðbrögð Pírata.

Þrátt fyrir opinberlega viðurkenndar sálarflækjur sem orsakast af einelti fortíðarinnar og ýmsum atvikum telja Píratar sig hæfa til að starfa á pólitískum vettvangi. Að vinna í pólitík er sennilega flóknasta starf sem nokkur maður getur valið sér. Það þýðir að stjórnmálamenn eiga að standa á æðra plani bæði vitsmunalegu og siðferðislegu.

Vissulega eru fáir stjórnmálamenn sem geta státað af því. Að sama skapi eru fáir stjórnmálamenn sem standa á eins lágu vitsmuna- og siðferðisplani og Píratar. 

Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata, og forseti borgarstjórnar Reykjavíkur.

Hvað er annars hægt að segja um stjórnmálaflokk sem segist stunda háleitari pólitík en aðrir án þess að sýna það í verki?

Mengaðir af ranghugmyndum

Fjöldi mála hrúgast í fjölmiðla sem staðfesta að meirihlutinn í Reykjavík stundar hvorki hlutlæga né réttláta pólitík. Píratar hafa tekið virkan þátt í þessum meirihluta sl. fimm ár. Nýlegt dæmi um hugsanlegt kosningasvindl á ábyrgð meirihlutans í borginni hefur ekki vakið sérstök viðbrögð Pírata.

Oddvitinn þeirra í meirihlutanum reyndi að verja eyðingu tölvupósta (sem margt bendir til að hafi verið ólöglegt athæfi) og sagði að engum tölvupóstum hafi verið eytt. Fullyrti ósannindi í beinni útsendingu og sakaði minnihlutann um lygar en Eyþór Arnalds sagði sannleikann.

Mótmæli tveggja Pírata á þingi þegar Þergþór Ólafsson flutti ræðu sýna hvorki réttlætiskennd né gagnrýna hugsun. Enginn hefur sagt Bergþór hafa sýnt slæma framkomu á þingi né neina ofbeldistakta. Hann viðurkenndi að það var ekki réttlætanlegt það sem sagt var á Klaustri. En gerir ruddalegt fylleríisröfl í eitt skipti menn að ofbeldismönnum sem hafa enga ofbeldissögu að baki? 

Pírata skortir pólitískan þroska og geta ekki uppfyllt sitt göfuga takmark. Þeir segja m.a. að þinginu beri skylda til að taka tillögur stjórnlagaráðs til greina. Það er rangt vegna þess að þingmenn eru eingöngu bundnir af sannfæringu sinni og ólöglegt að þvinga þá til annars.

Píratar eru mengaðir af ranghugmyndum, pólitískri vanþekkingu og slakri kunnáttu í almennum siðvenjum.

En ágætis fólk þrátt fyrir það, þótt deila megi um pólitíska gagnsemi þeirra.

Höfundur er sjómaður og formaður Verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins.