Píratar lifa á spillingu og lýðskrumi

Kosningu Pírata um þjóðaratkvæðagreiðslu vegna orkumála lauk í dag.

Eftir Jón Ragnar Ríkharðsson:

Píratar þarfnast þess að það þrífist næg spilling á Íslandi til að réttlæta tilveru sína. Þess vegna leita þeir allra leiða til að sannfæra sjálfa sig og þjóðina um leið að pólitísk spilling sé allsráðandi í íslenskum stjórnmálum.

Ísland er í flokki minnst spilltu ríkja veraldar.  Að hætti sannra popúlista ákveða Píratar að sleppa fyrri hlutanum (að Íslandi tilheyri hópi minnst spilltu ríkja heims) og nota það sem hentar málsstaðnum betur. Hálfsannleikurinn hentar lýðskrumurum vel og þegar sagt er að Ísland mælist mikið spillt getur verið flókið að hrekja það.

Vegna þess að hægri menn eru oftast latir í kappræðunni — það er okkar helsti löstur.

Fyrir hrun mældist spilling á Íslandi miklu minni en eftir hrun — þá var landið okkar næstum óspillt samkvæmt alþjóðlegum mælingum.

Jókst þá spillingin í tíð vinstri stjórnarinnar? Nei sennilega ekki. Við höfum ekki enn náð að greina í hverju spillingin felst og hvers vegna hún mældist svona lág fyrir hrun og jókst eftir það. Fyrst þarf að greina vandann og það tekur tíma. Þannig að á þessum tímapunkti getum við hvorki sannað né afsannað þá kenningu að Ísland sé gjörspillt ríki. Mín skoðun er sú að lítil spilling sé á okkar ágæta landi en skoðun hefur ekkert gildi í svona stóru máli.

Lýðskrumið um stjórnarskrána

Stærsta lýðskrum Pírata snýst um tillögur Stjórnlagaráðs. Haft er m.a. eftir þeim í Fréttablaðinu þann 21. janúar sl. að „íslenska þjóðin sem sé stjórnarskrárgjafinn, hafi ákveðið að gefa sjálfri sér nýja stjórnarskrá. Því beri þingmönnum og leiðtogum þjóðarinnar skylda til þess að halda áfram þeirri vinnu sem þeim var falið að vinna með þjóðaratkvæðagreiðslunni árið 2012“.

Jón Ragnar Ríkharðsson.

Sjaldan hafa stjórnmálamenn komið með eins hressilegt lýðskrum og Píratar með þessum orðum. Gildandi stjórnarskrá segir skýrt að það sé hlutverk þingsins (hvorki þjóðarinnar né Stjórnlagaráðs) að semja nýja stjórnarskrá. Svo ber þingmönnum og leiðtogum þjóðarinnar skylda til að fylgja sinni sannfæringu. Hafi þingmaður eða ráðherra ekki sannfæringu fyrir tillögum stjórnlagaráðs en samþykki þær samt er viðkomandi brotlegur við æðstu lög landsins.

Ef í ljós kemur að pólitísk spilling er nánast engin á Íslandi (sem ég er nokkuð viss um) hafa Píratar ekkert að byggja á. Þau hafa ekki öðlast traust til að stjórna landinu enda lítið tjáð sig um nauðsynlegustu verkefni stjórnmálanna.

Þannig að Píratar þarfnast þess að pólitísk spilling sé mikil og nota lýðskrumið til að sannfæra fólk um það. Ekki spekúlera þau í afleiðingum ólgunnar sem samsæriskennigar valda enda takmarkið sennilega að njóta góðra launa á þingi og reyna að sitja þar sem lengst.

Hefðbundið brauðstrit sem slitið hefur mínum skrokki og fjölda annarra verkamanna og kvenna virðist ekki henta þeim.

Höfundur er sjómaður og formaður Verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins.