Eftir Hall Hallsson:
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson skrifar magnaða grein í Mogga í gær þar sem hann líkir brölti orðháksins og boxarans Steingríms J. Sigfússonar forseta Alþingis um að kalla siðanefnd Alþingis saman vegna Klaustursmála við pólitísku réttarhöldin yfir Geir H. Haarde sem var sneypuför mikil eins og alþjóð þekkir.
Sigmundur Davíð skrifar:
Steingrímur J. lýsti réttlætingu á pólítískum réttarhöldum yfir Geir Haarde „…með leikrænum tilburðum að eins sorglegt og það væri krefðist nauðsyn þess að hinn fallni forsætisráðherra yrði ákærður. Með því endurómaði hann viljandi eða óviljandi fræg orð Robspierre um örlög hins fallna konungs Frakklands. Eftir þversagnakennda ræðu um að almennar reglur ættu ekki við sagði byltingarmaðurinn (þ.e. Robespierre) að hann yrði með miklum harmi að tilkynna hver örlög konungs þyrftu að verða. Á Íslandi sýndu lögin sem betur fram á að hinn íslenski byltingarforingi hefði reynt að koma fyrrverandi forsætisráðherra landsins í fangelsi að ósekju.“
Það skal undir það tekið að tilburðir forseta Alþingis í Klausturmálum eru með ólíkindum. Er Steingrímur J. Sigfússon líkt og Sigmundur Davíð leiðir líkur að, að hefna sín fyrir vegna Icesave og annars klúðurs Steingríms J.?
Það er augljóst að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson situr undir stöðugum árásum góða fólksins. Tilburðir til árása á hann útaf fyllerísröfli á Klausturbar eru aumkunarverðir á sama tíma og þeir sem höfðu uppi raunverulegt ofbeldi gegn konum sleppa.
Steingrímur J. Sigfússon er einn mestri orðhákur íslenskrar stjórnmálasögu og dró ekki af sér. Fyllerísröfl á bar eru smámunir miðað við „druslu og gungu“ komment hans.
Tilburðir til að koma Geir Haarde í fangelsi með pólitískum réttarhöldum hinum einu í V-Evrópu frá stríðslokum, voru klámhögg. Hvað þá að leggja hendur á Geir í þingsal frammi fyrir alþjóð.
Er Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, knúinn pólítískum hefndarþorsta og hatri í garð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar?
Höfundur er blaðamaður.