Ríkisbanka á ekki að stjórna eftir persónulegum skoðunum stjórnmálamanna

Eftir Guðbjörn Guðbjörnsson:

Fjárfestingar ríkisbankans – Landsbanka Íslands – eiga ekki að byggja á persónulegum skoðunum stjórnmálamanna, hvaða flokki sem þeir tilheyra, hvort sem þeir eru frjálshyggjumenn og andsnúnir nær öllum ríkisrekstri eða hreinir og klárir sósíalistar, sem vilja helst eintóman ríkisrekstur.

Stjórnendur Landsbankans hafa sýnt að þeir eru hreint út sagt ágætir og kannski að pólitíkin ætti að hætta beinum afskiptum af því sem fagfólk á að standa í en ekki ‘amatörar’. Reyndar hefur útþensla ríkisins sjaldan verið meiri en undir stjórn Sjálfstæðisflokksins og þetta segja allir mælikvarðar.

Á meðan að Landsbankinn er í eigu ríkisins, sem ég hygg að við viðskiptavinir bankans séum sáttir við, enda margir minnugir þess að stefnan var jú að einn stór banki yrði áfram í eigu ríkisins í bili á meðan að hinir yrðu seldir. Um þetta var held ég sæmileg sátt í kjölfar þess sem sumir sjálfstæðismenn hafa kallað ‘hið svokallaða hrun’.

Fjárfestingar Landsbankans hljóta að miðað að því að bankinn sé vel rekinn og samkeppnishæfur við hina bankana, þannig að virði hans sé hámarkað, t.a.m. ef ákvörðun um sölu verður tekin. Það getur ekki verið að ástæðulausu að hinir bankarnir hafa sankað að sér tryggingarfélagi.

Í ljósi sögunnar þarf Alþingi að hafa eftirlit með óeðlilegu ráðherraræði, hvort sem það snýst um að opna landamærin eða huga að skipulagðri glæpastarfsemi þegar viðkomandi er dómsmálaráðherra, tvöfalda greiðslur til erlendra hryðjuverkasamtaka og annað bruðl sem utanríkisráðherra eða sölsa undir sig eyjaklasa við sunnanvert Ísland, sem fjármálaráðherra.

Sumu fólki er kannski bara ekki ætlað að sitja í ráðherrastólum og klúðra því eðlilega endalaust þeim verkefnum sem þeir standa í. Þá á auðvitað hvorki að fela þeim ráðherravald eða forystu í flokki sem eitt sinni var sá stærsti í landinu.

Mér sýnist að við sjálfstæðismenn þurfum að hreinsa allrækilega til í prófkjörum og endurnýja framboðslistana. Þeir þingmenn sem við höfum falið forystuna á liðnum árum hafa kostað flokkinn um 40% af fylgi hans og eyðilagt orðsporið fullkomlega. Nægir þar að minna á útlendingamálin, orkumálin, utanríkis- og sendiráðsmál, íbúðarmál að ógleymdum mikilvægasta málaflokknum efnahagsmálum.

Flestu hefur okkar forysta klúðrað og hún verður að sjálfsögðu að horfast í augu við það og bera á því ábyrgð.

Það má hins vegar ræða það stöðva ríkisvæðinguna og selja Landsbankann í framtíðinni, en þá þarf hann að vera 1. flokks söluvara.

Höfundur er stjórnsýslufræðingur og yfirtollvörður.