Samgöngukerfi sem er orðið nokkrum númerum of lítið fyrir þjóðina

Eftir dr. Ásgeir Jónsson:

„Til marks um þýlyndi Íslendinga má hafa, að engin samtök grípa til varna gegn Hvalfjarðargöngum. Fólk tuðar gegn göngunum í hornum sínum, en notar ekki samtakamátt til að koma í veg fyrir, að göngin verði að einni helstu martröð þjóðarbúsins á næstu árum.“

Þannig hljóðaði leiðari DV þann 27. febrúar 1996. Ritstjóri DV var ekki einn. Fyrr í þessum sama mánuði árið 1996 hafði Verkfræðingafélag Íslands haldið fund um Hvalfjarðargöng þar sem þau voru kölluð „stórbrotið klúður“. 

Dr. Ásgeir Jónsson hagfræðingur.

Andstaðan við Hjalfjarðargöngin er eitt dæmi af mörgum um hvað nýir innviðir oft mikilli tregðu. Knud Zimsen bæjarverkfræðingur og síðar bæjarstjóri Reykjavíkur lýsir því til dæmis vel í bók sinni Úr bæ í borg hvað lagning vatnsveitu árið 1909 vakti mikla andúð meðal bæjarbúa. Þá var Reykjavík ennfremur hafnlaus höfuðstaður allt fram til ársins 1915. 

Nær ómögulegt að ríkið geri allt eitt og sér

Samgöngukerfi landsins er nú orðið nokkrum númerum of lítið fyrir þjóðina – sérstaklega á það við um leiðir frá höfuðborgarsvæðinu. Veldur þar bæði fjölgun þjóðar og ferðamanna og framtaksleysi við framkvæmdir á síðustu árum. Margt annað á líka eftir að byggja. Nýtt sjúkrahús, nýja flugstöð og svo mætti áfram telja. 

Nær ómögulegt fyrir ríkið að ætla eitt og sér að standa straum af þeirri fjárfestingu sem nú blasir við – það myndi koma niður á öðrum verkefnum. Það líka þyngir ríkisreksturinn að taka fjármagn að láni til þess að festa í steypu. Að sama skapi er það æskilegra fyrir lífeyrissjóði að fjármagna innviði með beinum veðum heldur en að taka allsherjarveð í efnahagsreikningi ríkisins s.s. með kaupum á ríkisbréfum. 

Bygging Hvalfjarðarganga ætti að vera góð vísbending um þann árangur sem innviðauppbygging í samstarfi við einkaaðila getur skilað. Það ætti því að liggja beint við að byggja Sundabraut með sama hætti og fjármagna með vegtollum þar sem fólk hefur sama val og í Hvalfirði, það er að keyra fyrir fjörðinn í stað þess að borga tollinn. Sundabraut myndi einnig létta á umferðarálaginu innan Reykjavíkur – og tengja Grafarvoginn við kjarna borgarinnar.

Höf. er dósent og forseti Hagfræðideildar Háskóla Íslands.