Sannleikurinn sem enginn þorir að segja

Eftir Guðbjörn Guðbjörnsson:

Nú þegar Erdogan Tyrklandsforseti er búinn að stefna milljónum sýrlenskra flóttamanna að landamærunum að Grikklandi og segja þeim að hliðið að Evrópu sé opið, er löngu kominn tími til að kalla hlutina réttu nafni þegar kemur að linnulausum innflutningi milljóna flóttamanna til Evrópu á liðnum árum. Hér er auðvitað um þjóðflutninga af stærri gerðinni að ræða eins og mannkynið hefur áður séð og upplifað með tilheyrandi upplausn þeirra samfélaga sem fyrir eru.

Ekki er hægt að útiloka styrjaldir eða í það minnsta borgarastyrjaldir, óeirðir, hungursneyðir og í raun skelfilegt ófremdarástand í kjölfar svo hraðra breytinga á samsetningu þjóða og menningu þeirra. Að auki ráða hagkerfin og velferðarkerfin bara ekki við slíkar breytingar á nokkrum árum eða áratugum. Bara þessi smá skammtur af flóttamönnum sem nú gæti verið á leiðinni frá Tyrklandi nemur um 3,7 milljónum flóttamanna.

Samlífi ólíkra þjóða og ættbálka hafa auðvitað frá fyrstu tímum fylgt stríð um yfirráðasvæði, þar sem sumar þjóðir hafa reynt að ná bæði þjóðum og lendum þeirra undir sig og/eða kúgað minnihlutahópa og jafnvel reynt að útrýma tungumálum þeirra og þjóðareinkennum. Þær þjóðir sem bjuggu á ákveðnum yfirráðasvæðum vörðu þau jafnan gegn innrásum annarra þjóðflokka með kjafti og klóm. Slík stríð áttu sér stað í Evrópu alla tíð og allt til síðari heimsstyrjaldarinnar og stofnunar ESB í kjölfarið. Einsdæmi í veraldarsögunni er hvernig Evrópa hefur á liðnum árum opnað sín lönd og boðið flóttamennina velkomna til að yfirtaka heila heimsálfu.

Að flytja sig um set

Maðurinn líkt og önnur dýr merkurinnar hefur tilhneigingu til flytja sig um set. Þetta á ekki síst við ef lífsskilyrði eru bág þar sem skepnur og dýr halda sig eða ef þurrkar, flóð eða önnur óáran kemur í veg fyrir að fólk geti stundað akuryrkju eða annan landbúnað. Þannig fluttust forfeður okkar frá Afríku til Asíu og þaðan til Ástralíu og síðan fyrir um 40.000 árum til Evrópu. Fyrir 15-20.000 árum ferðuðust menn frá Síberíu og Asíu yfir Bering-sundið til Alaska, síðar sunnar og urðu frumbyggjar í Ameríkunum báðum. Þar með má segja að maðurinn hafi verið búinn að leggja undir sig allar heimsálfurnar nema Suðurskautið.

Í heiminum búa um 7,8 milljarðar manna. Aðeins um 1 milljarður hefur það virkilega gott

Þessu til viðbótar hefur mannkynið sífellt verið að færa sig á milli svæða innan heimsálfanna. Slík landvinningastríð voru algeng og nægir að minna á Grikki og Alexander mikla, Rómverska ríkið eða Ottóman-ríkið, svo aðeins þrjú fræg dæmi séu nefnd. Á árunum 100-500 e. Kr. var t.a.m. einstaklega mikið um að vera í Evrópu hvað þjóðflutninga varðaði. Allir voru á faraldsfæri; Vestur-gotar og Austur-gotar, Karþagómenn, Frankar, Vandalar og Húnar og o.fl. Síðustu stóru þjóðflutningar í Norður-Evrópu voru þegar Víkingar réðust inn í England árið 783 e.Kr. og stóðu þeir landvinningar til ársins 1066. Keltneskir ættbálkar á Bretlandi og Írlandi reyndu hvað þeir gátu til að verjast villimönnunum frá Skandinavíu, líkt og þeir höfðu reynt að verjast germönskum Söxum, Jótum og Englum nokkur hundruð árum fyrr.

Guðbjörn Guðbjörnsson stjórnsýslufræðingur.

Að þjóðflutningunum miklu til Ameríku, Ástralíu og Nýja-Sjálands undanskildum og þjóðarmorðunum sem þeim fylgdu, voru seinni tíma þjóðflutningar aðallega í kjölfar styrjalda, t.d. þegar landamærum var breytt í kjölfar seinni heimsstyrjaldarinnar. Þjóðverjar töpuðu héruðum, sem nú tilheyra Póllandi og Tékklandi, en Rússar hrifsuðu til sín stór landsvæði í Austur-Evrópu, sem Pólverjar höfðu átt. Rússar höfðu þá verið stórtækir í landtöku sinni mjög lengi. Þeir hófu 1582 landvinninga sína og stríð við nágranna sína til að stækka rússneska ríkið. Landvinningar Rússa stóðu til loka síðari heimsstyrjaldarinnar árið 1945. Ofbeldi Rússa gagnvart nágrönnum þeirra, slavneskum sem öðrum, stóð a.m.k. til falls járntjaldsins árið 1990. Síðustu landvinningar Rússa voru þegar þeir lögðu aftur undir sig Krímskagann árið 2014 og standa reyndar enn í Austur-Úkraínu.

Flóttinn mikli nú

Núna virðast þjóðir Afríku og Miðausturlanda vera að flýja í stórum stíl heimkynni sín vegna stríða, fátæktar og dæmalausrar fólksfjölgunar. Þannig hefur íbúum Afríku fjölgað úr um 220 milljónum árið 1950 í um 1.050 milljónir árið 2012 (fimmföldun) og spár segja okkur að íbúar verði orðnir um 2.500 milljónir árið 2050 (tíföldun). Íbúum Suður-Ameríku hefur fjölgað úr 167 milljónum árið 1950 í um 600 milljónir árið 2012 og fjölgar samkvæmt spám í um 800 milljónir árið 2050.

Ljóst er að þjóðir Afríku sunnan og norðan Sahara eyðimerkurinnar og þjóðir Miðausturlanda og Asíu munu líklega frekar sækja til Evrópu en Bandaríkjanna. Þjóðir Suður-Ameríku munu sækja meira til Bandaríkjanna og Kanada.

Í heiminum búa um 7,8 milljarðar manna. Aðeins um 1 milljarður hefur það virkilega gott. Ljóst er að stór hluti þeirra 6 milljarða manna sem búa við slæm lífsskilyrði mun vilja leggja land undir fót og setjast að á Vesturlöndum. Jafnvel þótt aðeins helmingur þessa fólks (3 milljarðar) myndi hleypa heimdraganum er lífsins ómögulegt að taka við öllu því fólki. Einnig er ljóst að engum yrði í raun greiði gerður með slíkum þjóðflutningum, því á endanum myndu hagkerfi og velferðarkerfi Vesturlanda einnig brotna saman.

Hér yrði bara sama óöld, hungur og fátækt og er annarsstaðar í heiminum.

Þetta er sorgleg staðreynd en engu að síður sannleikurinn málsins, sem enginn stjórnmálamaður eða fræðimaður þorir að segja frá.

Höfundur er stjórnsýslufræðingur og MPA.