Schengen-kerfið virkar alls ekki eins og það á að gera

Eftir Guðbjörn Guðbjörnsson:

Líkt og ég vék að á fésbókinni fyrir mína 5 þúsund vini fyrir nokkrum dögum, var ég frummælandi og gestur á fundi málfundafélagsins ‘Frelsi og fullveldi’ sl. mánudagskvöld, sem ég er þó ekki meðlimur í, þar sem málefni Schengen og skipulögð glæpastarfsemi voru m.a. til umræðu. Frummælendur voru ég og Karl Gauti Hjaltason, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum.

Báðir vorum við held ég ekki með nein gífuryrði heldur einungis að lýsa hlutunum eins og þeir eru. Því miður hlómar sannleikurinn í dag eins og um ýkjur sé að ræða, en þar á ekki að skjóta sendiboðana. Í minni ræðu fór ég aðeins meir inn á sögu Schengen svæðisins og hvernig  Schengen í raun virkaði og þó kerfið aðallega virkaði ekki. Karl Gauti lögreglustjóri talaði um stöðuna í löggæslumálum innanlands og innan Evrópu. Við reyndum að skýra satt og rétt frá – eins og embættismenn og stéttarfélagsforkólfar eiga að gera – þar sem við studdumst við staðreyndir málsins en ekki tilfinningar, m.a. við skýrslur Ríkislögreglustjóra og ýmis gögn frá Frontex og Europol. Tilfinningar eru mikilvægar – m.a. mannúð – en það er einnig mikilvægt að hlusta á sannleikann, kjarna málsins og reynslusögur. Þetta á ekki síst við ef maður vill komast að góðri niðurstöðu eftir rökræður þar sem heilbrigð skynsemi og rökrétt hugsun ráða ferðinni.

Meingallað kerfi

Á fundi málfundafélagsins Frelsi og fullveldi tók einnig til máls Jóhann R. Benediktsson, fyrrverandi sýslumaður, lögreglu- og tollstjóri á Suðurnesjum og diplómat utanríkisráðuneytisins. Jóhann var um árabil minn yfirmaður og frábær embættismaður, sem m.a. tók þátt í Schengen samningum Íslands og byggði í raun upp það kerfi upp á Keflavíkurhlutverki. Þarna átti ég einnig hlut að máli, þótt ekki hafi hann falist í öðru en vegabréfaskoðun í 2 ár fyrir um 25 árum síðan og einfaldri undirbúningsvinnu fyrir Schengen, m.a. þýðingu á mjög langri handbók landamæravarða á Flugvellinum í Frankfurt um málefni og vinnureglur Schengen í Þýskalandi á þeim tíma. Jóhann er auðvitað ekki aðeins kunnáttumaður á þessu sviði, heldur hefur einnig praktíska reynslu, sem er eiginlega mikilvægara, þar sem að það kemur fyrir að stjórnmálamenn og ‘bjúrókratar’ búa til kerfi sem virka síðan í ‘praxis’ alls ekki eða frekar illa. Oft á tíðum er mjög erfitt að breyta kerfum eftir á líkt og við sjáum í útlendingamálum, umhverfis og skipulagsmálum og jafnvel húsnæðismálum.

Allt fyrirkomulag Schengen hefur auðvitað tekið einhverjum smávægilegum og tæknilegum breytingum, m.a. vegna þróunar tölvu- og upplýsingakerfa. Hugmyndafræðin er hins vgar í raun sú sama, enda hafa markmiðin, sem tengast þeirri trú að frjálst flæði vöru, þjónustu og fólks á þessu 500 milljóna svæði sé af hinu góða, sem ég deili nú eiginlega algjörlega í grunnatriðum.

Ég trúi einnig á eins mikið frelsi og mögulegt er og framkvæmanlegt þ.m.t. á frelsi til orða og athafna. En ég jafnframt að stundum verðum við að setja jafnvel ákveðnum mannréttindum einhverjar skorður til að lifa í siðmenntuðu og vel ‘fúnkerandi’ samfélagi. Ef við byggjum nú í hinum fullkomna heimi, sem ESB vill vera en er því miður ekki og verður aldrei frekar en önnur mannanna verk, þá væri núverandi Schengen-kerfið auðvitað frábært. Svo er hins vegar ekki og kerfið er að mínu mati meingallað og ytri landamæri Evrópu hriplek, eins og flestir ættu í dag að sjá. Að auki virðast glæpamenn því miður getað ferðast landa á milli án teljandi erfiðleika, m.ö.o. er um ‘frjálst flæði glæpa- og flóttamanna’ að ræða.

Er vonlaust að verja landamæri Evrópu?

Jóhann fyrrverandi sýslumaður lýsti kostum Schengen og hvernig kerfið á eða réttara sagt ætti að virka. Ég kannaðist við þá sögu, enda með í þessu frá upphafi eða frá árinu 1998 (26 ár) og það sem meira er í byrjun á gólfinu og síðar sem yfirtollvörður og tvívegis formaður og varaformaður Tollvarðafélags Íslands (2002-2008/2021-2024) og er enn við kolann og verð það ef Guð lofar í um 8 ár til viðbótar.

Við okkur sem vinnum í þessum bransa blasir nefnilega annar veruleiki við en sá sem fyrirhugaður var upp úr 2000 við innleiðingu Schengen. Jóhann vildi meina að stjórnmálamenn hefðu veikt Schengen með ákvörðunum sem hér voru teknar. Þetta má til sanns vegar færa og það sjáum við á löndum Evrópu þar sem Schengen er við lýði og flóttamannavandamálið ekki stórt. Ég sé hins vegar ekkert land í Evrópu sem er í Schengen og ekki á við mikla alþjóðlega glæpastarfsemi að stríða. Þetta á reyndar einnig við um ríki utan Schengen, svo því sé nú haldið til haga. Vandamálin eru bara stærri innan ESB.

Við Evrópu allri blasir einnig við allt annar og erfiðari veruleiki á ytri landamærum Schengen. Og innan ESB blasir við annar veruleiki en árið 2000, enda bættist öll Austur-Evróa við sambandið upp úr þúsaldarmótunum. Reyndar hefur allur heimurinn breyst á mjög stuttum tíma, sem hefur síðan mikil áhrif á Schengen og ytri landamæri þess. Sumir vörslumenn kerfisins – núverandi og fyrrverandi – neita að horfast í augu við þennan nýja veruleika. Kerfið sem slíkt var ekki byggt fyrir þau verkefni raungerst hafa og tengjast breyttri heimsálfu, breyttum heimi.

Hugsanlega er hægt að bjarga Schengen, en þá þarf bæði vilja til þess og kraft. Hvorutveggja virðist skorta undir stjórn framkvæmdastjórnarinnar og núverandi forstjóra Frontex Hans Leitjen, sem nýlega sagði í viðtali í Die Welt að vonlaust væri að verja landamæri Evrópu.

Sú frétt sem birtis á Vísi í dag af staðfestingu Landsréttar á gæsluvarðhaldsúrskurði lögreglu, að hér hefði erlendur flóttamaður farið huldu höfði í 2 ár og hafi fyrst fundist þegar hann var handtekinn við þjófnað í nágrenni tollhússins á Tryggvagötu, staðfestir í raun það sem ég er að halda fram, en það er að Schengen-kerfið virkar alls ekki eins og það á að gera. Þetta splunkunýja dæmi sýnir og sannar á ‘týpískan’ hátt þann raunveruleika sem blasir við löggæslunni í landinu. Þarna kemur einhver inn þrátt fyrir Schengen, er ekki sendur heim eins og ‘vinir Schengen’ lýsa.

Brotamaðurinn felur sig hér vegna ónógs eftirlits lögreglu, sem síðan má rekja til manneklu innan lögreglunnar, sem aftur má rekja til fjárskorts, sem má síðan rekja til þess að við erum ekki að forgangsraða rétt. Við þetta bætist líklega að lögreglan þorir varla að ‘kontróllera’ þar sem hún er gagnrýnd og tekin af lífi í fjölmiðlum fyrir slíkt og sökuð um rasisma.

Ef við ætlum okkur að hafa góða, gilda og kraftmikla löggæslu þurfa bæði stjórnmálamenn að styðja hana, gefa henni nauðsynlegar heimildir. Vissulega á lögreglan eins og aðrir sem fara með opinbert vald að vera undir eftirliti sjálf, en sú gagnrýni og árásir sem löggæslan hefur setið undir m.a. frá fjölmiðlum og ákveðnum stjórnmálum veikir okkur. Þar með styðja þessir aðilar við stjórnleysið, óreiðuna og ofbeldi í okkar samfélagið.

Það þarf alveg nýja hugsun

Þessu þarf að linna. Við þurfum algjörlega nýja hugsun hér á landi í útlendingamálum og það sem jafn mikilvægt er innan Schengen svæðisins og á ytri landamærum þess.

Þetta er sem sagt hvernig raunveruleikinn virkar en ekki ‘draumaríki’ Schengen eða ‘Draumalandið Ísland’, sem virkaði sæmilega í stuttan tíma í byrjun eða líklega til 2010-2015, þegar allt fór úr böndunum. Að Schengen komi í veg fyrir glæpastarfsemi eru hrein og klár rangindi, sem Europol og löggæslustofnanir hafa gagnrýnt í 20 ár og bent á að núverandi fyrirkomulag ef eitthvað er ýti undir athafnafrelsi og þar með útbreiðslu skipulagðrar glæpastarfsemi og hryðjuverkastarfsemi. Þetta er því ekki eitthvað sem Miðflokkurinn, Flokkur fólksins og lítill hluti Sjálfstæðisflokksins ímyndar sér og gagnrýnir, heldur almenn og viðtekin skoðun löggæslunnar og stéttarfélaga hennar um gjörvalla Evrópu.

Ég sit bæði á fundum yfirmanna löggæslu og er í forsvari fyrir stéttarfélag tollvarða þar sem ég sit fundi á Norðurlöndunum og ESB og þetta er sannleikurinn málsins. Ísland er á tímamótum og enn hægt að bregðast við, en víða í Evrópu er baráttan erfiðari og sumir telja hana næstum ómögulega eins og í Svíþjóð, Bretlandi, Frakklandi, Belgíu og jafnvel í mínu gamla heimalandi Þýskalandi. Það er því brýnt að hefjast handa bæði hvað varðar nýja löggjöf en ekki með því að styðja þær stofnanir sem eru á landamærum og sinna löggæslu innanlands og fangelsismálayfirvöld.

Í nýlegum skoðunarkönnunum kemur fram að 60-70% landsmanna eru þeirrar skoðunar að bregðast verði við í útlendingamálum, en einungis um 25-30% voru á þeirri skoðun fyrir 1-2 árum síðan. Hvort á nú frekar að hlusta á mikinn meirihluta þjóðarinnar eða þá hagsmunaaðila, sem hafa miklar tekjur eða haga af stjórnleysinu eins og mannréttindalögfræðingar eða samtök á borð við Solaris eða blessaðan Rauða krossinn, sem er á villigötum eða jafnvel einstaka kjaftfora, dónalega og áminnta presta innan Þjóðkirkjunnar?

Ætti ekki einnig að hlusta betur á þá sem virkilega eru í framlínunni i löggæslu eða í forsvari fyrir stéttarfélög framvarðasveita löggæslu í landinum? Ríkislögreglustjóri og önnur löggæsluyfirvöld í landinu – og reyndar um alla Evrópu og í Bandaríkjunum – hafa varað við þróuninni á Vesturlöndum í a.m.k. 15-20 ár.

Við hljótum að spyrja okkur af hverju Alþingi Íslendinga og fjölmiðlar hundsa skilaboð þeirra sem mest vit hafa á málaflokknum árum og áratugum saman. Gott er að búa í lýðræðisríki, því mikill meirihluti kjósenda verður ekki hunsaður eða logið að honum nema í mesta lagi á 4 ára fresti. Fólk er ekki fífl heldur ágætlega vel gefið, þ.e.a.s. ef fjölmiðlar koma réttum upplýsingum til skila þannig að hægt sé að komast að skynsamlegri niðurstöðu.

Höfundur er formaður Tollvarðafélags Íslands, stjórnsýslufræðingur og yfirtollvörður hjá Skattinum