Seðlabankastjóri sem lætur ekki segjast

Eftir Garðar Gíslason:

Á vef Seðlabanka Íslands var í gær, 19. febrúar 2019, birt frétt sem ber yfirskriftina „Í tilefni álits umboðsmanns Alþingis“. Í fréttinni er að finna útlistun á mati „Seðlabankans“ á áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr.  9730/2018, sem birt var 25. janúar 2019, og varðaði meðferð Seðlabanka Íslands á kröfu Þorsteins Más Baldvinssonar (ÞMB) um afturköllun stjórnvaldssektar sem bankinn hafði gert honum fyrir ætluð brot gegn lögum og reglum um gjaldeyrismál. Í áliti umboðsmanns Alþingis er komist að þeirri niðurstöðu að meðferð Seðlabanka Íslands á málinu hafi ekki verið í samræmi við lög, auk þess sem umboðsmaður Alþingis fer þar afar hörðum orðum um stjórnsýslu bankans að öðru leyti.

Við lestur fréttarinnar vekur fyrst athygli sú staðreynd að hún er ekki auðkennd neinum einstaklingi sem ritara hennar, heldur „Seðlabankanum“. Þegar rýnt er í inntak fréttarinnar verður þó fljótt ljóst af hverju kosið er að hafa hana nafnlausa, enda í henni ítrekað farið með rangt mál og snúið illa út úr staðreyndum og fyrrgreindu áliti umboðsmanns Alþingis. Það er svosem ekkert nýtt að helstu stjórnendur Seðlabanka Íslands undanfarin ár halli réttu máli. Þar hefur fremstur í flokki farið Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, en fréttina nafnlausu verður í öllu falli að telja á ábyrgð hans. Það kemur hins vegar alltaf jafn mikið á óvart þegar einstaklingar kjósa að láta sér ekki segjast við ítrekaðar ábendingar og aðfinnslur þeirra opinberu aðila sem lögum samkvæmt er falið að hafa eftirlit með þeim og úrlausnir um gerðir þeirra.

Már Guðmundsson seðlabankastjóri er jafnframt formaður Peningastefnunefndar.

Enda þótt það sé í raun að bera í bakkafullan lækinn að elta frekari ólar við rangfærslur og útúrsnúninga stjórnenda Seðlabanka Íslands eftir nærfellt 7 ára samfelldan málarekstur þeirra á hendur félögum í samstæðu Samherja hf. og helstu fyrirsvarsmönnum félaganna, þar sem bankinn hefur endurtekið verið gerður afturreka með allan málatilbúnað sinn, er þó ekki unnt að láta hjá líða að nefna að öfugt við það sem haldið er fram af hálfu „Seðlabankans“ í fréttinni þá liggur skýrt fyrir:

  1. Að afstaða ríkissaksóknara er sú að reglur Seðlabanka Íslands voru ekki nothæf refsiheimild.
  2. Að framkvæmd Seðlabanka Íslands við meðferð mála vegna meintra brota á reglum bankans um gjaldeyrismál var ekki í samræmi við framkvæmd ákæruvaldsins í slíkum málum.
  3. Að afstaða umboðsmanns Alþingis er sú að reglur Seðlabanka Íslands um gjaldeyrismál hafi ekki falið í sér viðhlítandi refsiheimild allt til þess að þeim var steypt inn í lög um gjaldeyrismál á hausdögum 2011.

Er rétt að víkja að þessu aðeins nánar, enda er nú orðið ljóst að það sem áður var mögulega unnt að skrifa á gáleysi og mistök af hálfu stjórnenda og starfsmanna Seðlabanka Íslands við annmarka á málsmeðferð af hálfu bankans, er ekki lengur unnt að líta á með öðrum hætti en sem forherðingu og harðnaðan ásetning til ólögmætra verka.

  1. 1.    Reglur Seðlabanka Íslands um gjaldeyrismál ekki nothæf refsiheimild

Í frétt „Seðlabankans“ er því haldið fram að krafa ÞMB um afturköllun á stjórnvaldákvörðun Seðlabanka Íslands hafi byggst á afstöðu ríkissaksóknara í einu öðru máli varðandi aðrar reglur um gjaldeyrismál en voru undir í máli ÞMB, þar sem niðurstaða ríkissaksóknara í fyrrgreinda málinu hafi ráðist af skorti á formlegu samþykki ráðherra á setningu reglnanna.

Þetta er rangt hjá „Seðlabankanum“.

Krafa ÞMB byggði á fyrirliggjandi afstöðu ríkissaksóknara í 6 málum þar sem fram kom sú ótvíræða niðurstaða  ríkissaksóknara að engin nothæf refsiheimild hafi verið til staðar vegna meintra brota gegn reglum Seðlabanka Íslands um gjaldeyrismál allt þar til að reglunum var steypt inn í lög haustið 2011. Afstaða ríkissaksóknara fól þannig í sér almenna og miklum mun víðtækari afstöðu til þeirra krafna sem gera yrði til ákvæða laga og reglna um gjaldeyrismál sem refsiheimilda en Seðlabanki Íslands vill vera láta. Í áliti umboðsmanns Alþingis var tekið undir með ÞMB að niðurstaða ríkissaksóknara hafi verið víðtækari en á var byggt í afgreiðslu Seðlabanka Íslands á erindi ÞMB um afturköllunina.

  1. 2.    Framkvæmd Seðlabanka Íslands ekki í samræmi við framkvæmd ákæruvaldsins

Í frétt „Seðlabankans“ segir að framkvæmd Seðlabanka Íslands við rannsókn á brotum gegn reglum um gjaldeyrismál hafi verið í samræmi við framkvæmd ákæruvaldsins eftir umrædda afstöðu ríkissaksóknara.

Þetta er rangt hjá „Seðlabankanum“.

Ekki einasta er það ljóst af afstöðu ríkissaksóknara í fyrrgreindum 6 málum að þessi staðhæfing „Seðlabankans“ er röng, heldur tók umboðsmaður Alþingis það skýrt fram í áliti sínu að hann fengi hvorki séð að endursendingar mála frá ákæruvaldinu til Seðlabanka Íslands né meðferð ákæruvalds á málum varðandi ætluð brot á reglum um gjaldeyrismál að öðru leyti, þar sem ákært hafi verið í einu máli vegna brota á tilteknum reglum Seðlabanka Íslands, en sú ákæra verið dregin til baka fyrir dómi síðar, gefi tilefni til þessara ályktana bankans. Tekur umboðsmaður Alþingis fram að engin mál hafi gengið til dóms þar sem beinlínis hafi verið fjallað um reglur Seðlabanka Íslands um gjaldeyrismál sem refsiheimild, samkvæmt þeim upplýsingum sem hann hafi getað aflað. 

  1. 3.    Skýr afstaða umboðsmanns Alþingis til skorts á gildissviði reglna Seðlabanka Íslands

Loks er að nefna að í frétt „Seðlabankans“ segir að eins og Seðlabanki Íslands skilji álit umboðsmanns Alþingis, þá kveði hann ekki upp þann úrskurð að reglur byggðar á lögum um gjaldeyrismál feli ekki í sér gilda refsiheimild, en þess misskilnings virðist hafa gætt í fjölmiðlum.

Það þarf mikinn og einbeittan vilja til að lesa álit umboðsmanns Alþingis og komast að niðurstöðu með þeim hætti sem „Seðlabankinn“ gerir í þessu tilviki.

Þor­steinn Már Bald­vins­son, for­stjóri Sam­herja, og Kristján Vil­helms­son, út­gerðar­stjóri Sam­herja.

Hverjum læsum manni ætti að vera fyllilega ljóst að í áliti umboðsmanns Alþingis birtist býsna skýr afstaða hans til þess að reglur Seðlabanka Íslands um gjaldeyrismál hafi ekki falið í sér viðhlítandi refsiheimild allt til þess að þeim var steypt inn í lög um gjaldeyrismál á hausdögum 2011.

***

Við blasir af þessari frétt „Seðlabankans“ að nú undirbúa stjórnendur Seðlabanka Íslands enn eina sneypuförina af hálfu bankans. Fréttin er augljós og illa falinn upptaktur að væntanlegri ákvörðun stjórnenda bankans um að halda fast við sinn keyp og láta ólögmætar stjórnvaldsákvarðanir þeirra um refsikennd viðurlög á hendur fjölmörgum einstaklingum og lögaðilum standa óhreyfðar, enda þótt umboðsmaður Alþingis og ríkissaksóknari, sem æðsti handhafi ákæruvalds, hafi mælt býsna skýrt um að þær reglur sem stjórnvaldsákvarðanirnar voru reistar á hafi ekki falið í sér gilda refsiheimild.

Því hefur áður verið haldið fram að stjórnendur Seðlabanka Íslands hafi misfarið með vald sitt í fyrrgreindum málarekstri sínum á hendur félögum í samstæðu Samherja hf. og helstu fyrirsvarsmönnum þeirra. Enn á sýnilega að halda áfram af þeirra hálfu á þeirri sömu braut.

Það er fyrir löngu kominn tími til að slíkri embættisfærslu linni og að stjórnendur Seðlabanka Íslands axli ábyrgð á misgerðum sínum – nú eða verði látnir axla hana, finni þeir ekki hjá sér tilefni til þess sjálfir.

Höfundur er lögmaður.

Greinin birtist fyrst á vef Samherja, samherji.is