Eftir Sigmund Davíð Gunnlaugsson:
Til að byrja með tek ég fram að ég er ekki Valsari, ég tók aldrei þátt í hinu mikilvæga starfi KFUM, hef aldrei sungið með hinum stórgóða karlakór Fóstbræðrum og hef ekki einu sinni lesið bók eftir sr. Friðrik Friðriksson. Þó má geta þess að ég ber tilfinningar til Hauka, þar sem afi minn og bróðir hans í Hafnarfirði voru stoltir þátttakendur og stuðningsmenn frá upphafi.
Nú ætla borgaryfirvöld í Reykjavík að taka þátt í styttufellingaæðinu sem gengið hefur yfir Bandaríkin og Bretland. Þekkjandi borgaryfirvöld var það líklega bara tímaspursmál. Að vanda þora fulltrúar minnihlutans í borginni ekki öðru en að elta.
Nú vilja allir fulltrúar í borgarráði fjarlægja styttuna af sr. Friðrik Friðrikssyni, eftir Sigurjón Ólafsson, sem staðið hefur við Lækjargötu í Reykjavík í 70 ár. Ástæðan er sú að gefið hefur verið í skyn að sr. Friðrik hafi á einhvern hátt haft óeðlilegan áhuga á drengjum.
Fátt þykir fólki eins óhugnanlegt og misnotkun barna. Fyrir vikið kallar grunur um slíkt á mikil viðbrögð. Önnur afleiðing er þó sú að um aldir hefur reglulega orðið mikið fár þegar upp koma kenningar um barnaníð. Hinir ásökuðu koma þá oft engum vörnum við. Ásökunin er svo alvarleg að það þykir óviðeigandi að efast. Fyrir fáeinum árum voru t.d. margir þekktir menn í Bretlandi, þ.m.t. látinn fyrrum forsætisráðherra, sakaðir um að hafa verið meðlimir í skipulögðum barnaníðshópi. Eftir nokkur ár og miklar raunir margra kom á daginn að þetta hefði allt verið uppspuni frá rótum.
Ef ásökunin er nógu alvarleg þykir yfirleitt óviðeigandi að verja hinn ákærða, eins og að með því að verja viðkomandi sé verið að verja brot, óháð raunverulegri sekt eða sakleysi. Í samtímanum er þó litið fram hjá raunverulegum ásökunum ef þær beinast að hópum sem ekki þykir viðeigandi að gagnrýna.
Aftur að séra Friðriki. Þegar umræðan um hann hófst hafði hann ekki beinlínis verið sakaður um neitt en eitt og annað verið gefið í skyn. Þá var farið að leita að hlutum eða atburðum og tengja þá saman. Hlutir sem höfðu verið fyrir allra augum fengu nýja merkingu.
Þrjú dæmi:
Bent var á að stofnandi KFUM hefði knúsað unga drengi og klappað þeim. Einn þeirra sem höfðu upplifað það sagði að sér hefði þótt það afar óþægilegt. Annar sagði að sér hefði þótt gott að vera sýnd slík hlýja. Ástæðulaust er að rengja upplifun þeirra.
Dregið var fram að í fórum Sr. Friðriks hefðu verið myndaalbúm (sem nú eru á safni) þar sem væri m.a. að finna myndir af nöktum drengjum í sumarbúðum KFUM í Danmörku. Sömu myndir var að finna í öðrum myndaalbúmum.
Loks var mikið mál gert úr því að sr. Friðrik hefði átt styttu af nöktum dreng sem Tove Ólafsson (kona Sigurjóns) tálgaði og gaf honum. Eigandinn grínaðist með það í viðtali að strákurinn væri stundum óþægur.
Þannig voru nokkur atriði á langri ævi tengd saman og þeim hugsanlega gefin ný merking í leiðinni. En mætti þá e.t.v. hugleiða eftirfarandi um þessi atriði:
Eins og þekkt er vilja foreldrar, ömmur, afar og ekki hvað síst frænkur, knúsa börn og klappa til að sýna þeim væntumþykju. Þótt það sé jafnan eins fjarri því að vera kynferðislegt og hugsast getur finnst krökkum þetta ekki alltaf skemmtilegt. Rannsóknir sýna þó að börn hafi gott af því að vera sýnd nánd og væntumþykja.
Er hugsanlegt að atlot hins barnlausa sr. Friðriks hafi verið af sama toga? Ég veit það ekki og mér hefði örugglega þótt óþægilegt að vera klappað af manni utan fjölskyldunnar en það er ekki víst að það sama hafi átt við alla, t.d. stráka sem e.t.v. skorti hlýju heima hjá sér.
Þá að ljósmyndunum sem settar hafa verið í samhengi við ósóma sem lögregla samtímans finnur stundum í tölvum vafasamra manna:
Það var alvanalegt í byrjun 20. aldar og lengur að börn léku sér, syntu í vötnum o.s.frv., nakin. Myndir af slíku þóttu ekki kynferðislegar. Ef svo hefði verið, væri þær varla að finna í aðgengilegum myndaalbúmum samtakanna ásamt öðrum myndum úr félagsstarfinu. Þetta var á tímum siðvendni þegar nekt barna taldist þó ekki feimnismál eins og nú kann að vera. Hefur enginn samtímamaður séð fjölskyldualbúm með (vandræðalegum) myndum af sjálfum sér, systkinum eða öðrum krökkum fatalausum?
Loks er það styttan af nakta stráknum sem kallaður var Drumbur. Það er ekki hægt að líta fram hjá því að áður þótti alvanalegt að myndastyttur væru naktar. Naktir karlar með sleggjur við járnsmíðar, naktar konur að næra börn og naktir krakkar að leik.
Um aldir hefur stytta af litlum dreng pissað í miðbæ Brussel og orðið að einu helsta kennileiti borgarinnar. Áratugum saman hefur líka nakinn drengur með fisk sprautað vatnsbunu við Nesti í Fossvogi.
Í Osló er gríðarstór almenningsgarður, e.t.v. hinn þekktasti þar í landi, fullur af nöktu fólki í styttuformi, körlum, konum og börnum. Kunnast þeirra er líklega óþægi drengurinn sem orgar og stappar niður fæti (nakinn).
Er verið að afsaka brot?
Fyrir þá sem velta fyrir sér hvort ég sé með þessu að afsaka sekan mann, þá er svarið nei! Ég er að benda á að hvorki ég né aðrir hafi hugmynd um hvort maðurinn hafi verið sekur um það sem gefið var í skyn að fram hafi farið í huga hans. Við vitum hins vegar að hann hefur ekki verið sakaður um barnaníð.
Engu að síður stendur til að fella styttuna og dæma þannig löngu látinn mann sekan.
Hvað á að gerast næst? Á Valur að rífa kapelluna? Á að leggja af starfið í Vatnaskógi og e.t.v. allt starf KFUM og KFUK vegna hugsana sem gætu hafa átt sér stað í höfði stofnandans, þótt það sé ekki vitað?
Það tók aldir fyrir vestræn samfélög að komast að þeirri niðurstöðu að menn skyldu teljast saklausir uns sekt þeirra væri sönnuð. Það má heita kraftaverk að slík niðurstaða skyldi nást frammi fyrir tilfinningaþrunga, ótta við að verja þá sem gætu verið sekir og tilhneigingu margra til að sýna eigið ágæti með fordæmingu annarra að vopni.
Ég skrifa þetta ekki til að afsaka sr. Friðrik, enda veit ég ekki meira um hugsanir hans en nokkur annar. Ég skrifa þetta til að minna á mikilvægi þess að fólk ofurselji sig ekki sveiflum tíðarandans og sakfelli menn ekki út frá neinu öðru en sannanlegri sekt. Ef ásökun eða bara grunur fer að jafngilda sekt leiðir það til óheillaþróunar sem óvíst er hvar endar.
Svo eru það stytturnar. Þær eru auðvitað lítils virði miðað við lifandi fólk en hafa þó mikið sögulegt og menningarlegt gildi. Taki menn upp á því að fella minnisvarða um fólk fortíðarinnar til að sýna eigið ágæti í samtímanum þá er verið að fórna fleiru en fortíðinni og styttum af löngu látnum mönnum.
Það er verið að fórna gildum sem eru til þess fallin að vernda núlifandi fólk og kynslóðir framtíðarinnar.
Höfundur er formaður Miðflokksins og fv. forsætisráðherra.