Eftir Arnar Þór Jónsson:
Stjórnarskrá lýðveldisins slær skjaldborg um þrjár undirstöður frjáls samfélags: Sjálfsákvörðunarrétt sérhvers manns (mannréttindi), vernd eignarréttar og réttarríkið. Lög, stjórnmál, menntun, uppalendur, frjáls félög og stofnanir ríkisins styðja við þennan samfélagsgrunn og styrkja hann. Það er gert á grunni laga, samninga, hefða og með hófsemd í stjórnarháttum. Í samræmi við þetta er það markmið bæði innanlandsréttar og alþjóðlegs samstarfs að virða og vernda sjálfsákvörðunarrétt og eignarrétt bæði einstaklinga og þjóða, svo og að leysa ágreining án ofbeldis og ofríkis.
Íslensk lagahefð miðar að því að vernda þessar undirstöður og sú hefð mótar óhjákvæmilega stjórnmálin. Í þessu ljósi er vandséð hvaða „frjálslyndi“ er í því fólgið að kalla eftir auknum ríkisafskiptum af hversdagslífi fólks. Myndir þú, lesandi góður, vilja afsala þér forræði á eigin líkamsorku? Myndi það einhverju breyta um ákvörðun þína, ef ég segði að miðstýrð opinber stofnun ætti að taka ákvörðun um hvernig þér bæri að ráðstafa þeirri orku? Eða, ef ég segði að sú stofnun starfaði í anda „frjálslyndis“?
Helsta tylliástæða þeirra sem kalla eftir miðstýringu og auknum afskiptum ríkisvalds er jöfnuður, ekki frelsi. Dæmin sanna að jöfnuður og frelsi eiga ekki alltaf samleið. Jöfnuði verður almennt ekki komið á nema með því að skerða frelsi. Sá sem staðhæfir að það sé „framsækið“ að krefjast aukins jöfnuðar þarf að standa fyrir máli sínu; færa fram rök gagnvart þeim sem telja á sér brotið. Sá rökstuðningur þarf að geyma meira en innantóm orð eins og „framþróun“ og „nútímalegt“. Gróf ofbeldisverk og illvirki hafa verið framin í jafni „jafnræðis“ og raunar „frelsis“ einnig. Í því ljósi sjá allir mikilvægi þess að stjórnmál umbreytist ekki í grímudansleik þar sem dulbúin skrímsli og úlfar í sauðagæru leika lausum hala og krefja grunlausa kjósendur um húrrahróp. Þvert á móti. Stjórnmál eiga að stuðla að fyrirhyggju og meðvitund um þá ábyrgð sem við berum gagnvart sjálfum okkur og öðrum. Menn sem boða „frelsi“ og „félagslegt réttlæti“ verða að útskýra hvaða skilning þeir leggja í þessi hugtök. Frelsi frá hverju? Réttlæti hvers? Hvaða girðingar á að brjóta niður í því skyni og hvaða hagsmunum á að fórna? Gæðum heimsins verður aldrei jafnt skipt. Til þess eru aðstæður of ólíkar og mennirnir of misjafnir.
Dýrmætur arfur vestrænnar siðmenningar
Vestræn siðmenning hefur flutt með sér dýrmætan arf. Þessi arfur geymir visku kynslóðanna – reynslu þeirra af því hvað gefist hefur vel og hvað illa. Að þessum arfi hlúa fjölskyldur, kennarar, forystumenn og farsælir leiðtogar. Í stuttu máli geymir þessi arfur undirstöður siðaðs samfélags, þar sem stjórnmál byggjast á samræðu um stefnumörkun og viðbrögð við aðstæðum á hverjum tíma. Stjórnmálin eiga þannig að byrja og enda í rökræðum um raunveruleikann, en ekki um kenningar eða staðleysur (útópíur). Ekki allar breytingar jafngilda „framförum“ og það er ekki „afturhald“ að andæfa „hreinni“ hugmyndafræði (kreddu) sem afneitar staðreyndum.
Með því að innleiða Orkupakka 3 (O3) væru Íslendingar að nauðsynjalausu að flækjast enn fastar í þéttriðnu neti erlends regluverks um raforkumál, án þess að hafa nokkuð um það að segja hvernig sá málaflokkur mun þróast á komandi árum. Ég hef haldið því sjónarmiði á lofti að Íslendingar eigi eftir fremsta megni að stýra orkumálum út frá þjóðarhag en ekki hagsmunum erlendra ríkja eða alþjóðlegra stórfyrirtækja. Þeir sem lýst hafa efasemdum um O3 verða ekki með réttu flokkaðir sjálfkrafa sem svarnir andstæðingar EES-samningsins, enda er ekkert í þeim samningi sem bannar aðildarþjóðum að gæta hagsmuna sinna í því samstarfi!
EES-samningurinn miðar að því að efla hag og verja rétt aðildarþjóða. Með aðild sinni stefndu hlutaðeigandi þjóðir að því að efla hag og verja rétt ríkisborgara sinna. Réttarkerfi allra þessara ríkja miða að því að standa vörð um einstaklingsbundin réttindi. Orkupakkamálið snýst því í grunninn um mjög einfalt hagsmunamat: Eykur innleiðing O3 líkur á að Íslendingar muni þurfa að greiða hærra verð fyrir raforku en þeir hafa hingað til þurft að gera? Ef svo er þá ber Alþingi að bregðast fumlaust við. Verðlagning á raforku skiptir íbúa þessa lands augljóslega miklu máli. Varðar ískaldan veruleika einstaklinga og fyrirtækja. Á þessum grunni verður Alþingi að afla upplýsinga um málið og taka ákvörðun, þ.e. byggja á traustum staðreyndum, en ekki láta hrekjast út frá kenningum eða kreddum.
Vilja Íslendingar í raun og veru framselja æðsta vald í þessum efnum til erlendra yfirvalda?
Svokölluð „frjálslynd stefnumið“ Evrópusambandsins og innlendra stjórnmálaflokka hafa ekki mikið vægi gagnvart beinhörðum efnahags- og fjárhagslegum hagsmunum Íslendinga og íslenskra fyrirtækja. „Frjálslynd stefnumið“ ein og sér vega heldur ekki þungt á vogarskálum lagahefðarinnar sem áður var nefnd. Og hér er komið að sjálfum kjarna málsins, sjálfsákvörðunarrétti einstaklinga og þjóðríkja.
Fullvalda ríki fer með æðsta vald í öllum málum á yfirráðasvæði sínu; sækir það ekki til neins annars ríkis. Verði O3 innleiddur í íslenskan rétt mun það fela í sér takmörkun á fullveldi þjóðarinnar í raforkumálum. Með innleiðingu O3 værum við að játa okkur undir það að raforka, eins og hver önnur vara, flæði frjálst á milli landa. Þeir fyrirvarar sem ráðamenn hafa veifað yrðu ekki pappírsins virði í samningsbrotamáli fyrir EFTA dómstólnum. Í framhaldinu stæði íslenska ríkið frammi fyrir tveimur valkostum: Að heimila lagningu sæstrengs eða greiða himinháar skaðabætur. Eftir að tengingu yrði komið á myndi ESB-stofnunin ACER taka við stjórnartaumum í þessum efnum og láta ESA um framkvæmdina. Allar valdheimildir yrðu þá komnar til ESB og Íslendingar orðnir farþegar í lestinni, án uppsagnarákvæðis og án aðgangs að bremsukerfi þeirrar lestar. Þessa hlið málsins ber að ræða heiðarlega en ekki með því að beina umræðunni að aukaatriðum og persónum.
Umræða um O3 á að beinast að því að tryggja að Íslendingar hafi sjálfir forræði yfir íslenskri raforku og hvernig henni er ráðstafað. Vilja Íslendingar í raun og veru framselja æðsta vald í þessum efnum til erlendra yfirvalda? Íslensk þjóð réði ekki eigin málum í tæplega 700 ár og hafði almennt slæma reynslu af þeirri tilhögun. Hvers vegna ættum við að leggja aftur í slíka óvissuför með eina af okkar mikilvægustu auðlindum? Með vísan til alls framanritaðs leyfi ég mér að leggja til að þingmenn nálgist málið á þessum grunni:
Með sama hætti og það er rangt að svipta einstaklinga forræði á því sem þeir eru sjálfir vel færir um að annast, þá er það einnig rangt að þjóðríki afsali sér, að þarflausu, forræði á náttúruauðlindum sínum í hendur erlends valds.
Höfundur er héraðsdómari.